Vissir þú að það er bæði umhverfisvænna og hagkvæmara að nota taubleyjur en bréfbleyjur? Og að hver bréfbleyja er allt að 500 ár að eyðast úr umhverfinu? Barn sem notar einnota bleyjur notar 5000 stykki eða 240 kíló yfir bleyjutímabilið (2,5 ár). Bréfbleyjur eru m.a. gerðar úr plasti, litarefnum og ilmefnum.
Kostir og gallar
Það er ljóst að bæði taubleyjur og bréfbleyjur hafa sína kosti og galla.
- Gallar við bréfbleyjur eru aðallega þeir hvað það eru mörg óæskileg efni að finna í þeim og hversu skaðleg áhrif á umhverfið þær hafa samanborið við taubleyjur. Nú kostirnir eru hins vegar þeir að það er minna vesen í kringum bréfbleyjur heldur en taubleyjur. Það þarf jú að þvo taubleyjurnar en bréfbleyjum er hent í ruslið.
- Gallar við taubleyjur eru til dæmis þeir að það krefst meiri vinnu og tíma. Kostirnir eru þeir að taubleyjur hafa minni áhrif á umhverfið heldur en bréfbleyjur, ruslið fyllist ekki af bleyjum og ekki skemmir það fyrir hvað taubleyjur eru fallegar á litinn.
Hvaða efni er notað í taubleyjur?
Efni sem notuð eru í taubleyjur eru einna helst pólýester efni eða pul efni sem er vatnshelt og hylur bleyjuna að utan. Stundum er einnig notast við hlíf úr ull yfir bleyjuna sjálfa. Efnið sem er næst barninu er ýmist úr bómull, flís, hamp eða bambus svo dæmi séu tekin. Það er einnig mjög vinsælt að efnið sem er næst húð barnsins sé úr efni sem hleypir öllum raka í gegnum sig og heldur þannig húð barnsins þurri .
Þvottur og umhirða
Vafalaust eru lesendur að velta því fyrir sér hvernig taubleyjur eru þrifnar. Byrjum á umhirðunni; óhreinar bleyjur er gott að geyma í bleyjupoka úr pul efni eða í bleyjufötu. Þær eru ýmist geymdar í vatni eða ekki.
Það er ekki nauðsynlegt að bleyjurnar séu geymdar í vatni vegna þess að þvottavélar í dag eiga að vera það góðar að bleyjurnar þurfa ekki að liggja í bleyti áður en þær eru þvegnar. Einnig er hægt að setja þvottavélar á auka skol til þess að skola aukalega úr bleyjunum ef þess er þörf .
Varðandi þvottinn; Hver og einn framleiðandi taubleyja setur fram ákveðnar þvottaleiðbeiningar fyrir sínar bleyjur sem gott er að kynna sér vel. Almennt má þvo bleyjurnar á 40 gráðum og margar á 60 gráðum. Innlegg má flest setja á suðu eða á 60 gráður. Mikilvægt er að nota mild þvottaefni eins og t.d. neutral til að koma í veg fyrir ofnæmiseinkenni.
En er ekki óumhverfisvænt að vera alltaf að þvo bleyjurnar?
Taubleyjur eru mun umhverfisvænni kostur en bréfbleyjur. Umhverfisáhrif taubleyja eru þó helst að finna í vatnsnotkun, rafmagnsnotkun og losun mengandi efna í vatn. Á Íslandi erum við þó svo heppin að búa við græna raforku. Þvottaefni geta innihaldið ertandi og skaðleg efni fyrir umhverfið. Ef taubleyjur eru þvegnar á réttan hátt og umhverfisvottuð þvottaefni notuð til þess að þvo, má þá minnka umhverfisáhrif taubleyja enn frekar.
Hvað ber að forðast?
Þegar taubleyjur eru þrifnar þarf að hafa eftirfarandi í huga; forðast skal notkun mýkingarefna vegna þess að við notkun þeirra missir bleyjan rakadrægni sína. Eins skal forðast notkun bleikiefna; klór er afar óumhverfisvænn og getur valdið vondum fnyk. Í sumum þvottaefnum er að finna ensím sem notað er til þess að brjóta upp óhreinindi. Þetta efni sest í bleyjurnar og verður ekki virkt fyrr en bleyjurnar blotna sem kemur fram í útbrotum þegar börnin væta bleyjuna.
Það þarf ekki að nota fullan skammt af þvottaefni vegna þess að á Íslandi höfum við kalklítið vatn. Það getur einnig verið slæmt að nota ekkert þvottaefni vegna þess að þá hreinsast bleyjurnar ekki nægilega vel. Það er sýra í þvagi sem verður að ná úr bleyjunum í þvotti og ef hún næst ekki úr getur hún safnast upp og valdið ertingu.
Sumir kjósa að þvo innlegg og bleyjur sér en það fer eftir því hvað hverjum og einum þykir þægilegast. Þegar sólin skín er tilvalið að hengja bleyjurnar út til þerris og láta sólina sjá um að þurrka þær enda er sólarljósið náttúrulegur blettaeyðir. Sumir kjósa hins vegar að setja bleyjur og innlegg í þurrkarann. Það eru til taubleyjur sem þola ekki að fara í þurrkara en það ættu að vera viðeigandi merkingar á þeim sem segja til um það.
Ef enn er lykt af bleyjunum eftir þvott getur verið gott að þvo bleyjurnar aukalega með því að setja þvottavélina á langt prógramm á þvottavélinni eða setja matarsóda í hólfið þar sem mýkingarefnið fer vanalega.
Hvaða tegundir af taubleyjum eru til?
Taubleyjur eru í dag gríðarlega fjölbreyttar. Helstu snið taubleyja eru vasableyjur, allt í einni (AIO bleyjur) og allt í tveimur (AI2 bleyjur). Taubleyjur einnig í fjölbreyttum stærðum og gerðum, því það getur verið misjafnt hvaða bleyjur henta hverju og einu barni. Einnig er hægt að fá bleyjur sem hægt er að stækka og minnka allt eftir þörf þeirra sem notar þær.
- Vasableyjur: Ytra lag bleyjunnar er úr pul efni og innra lagið er oftast nær úr efnum sem hleypa vökva í gegnum sig, en það getur einnig verið úr náttúrulegum efnum. Þessi tvö efni eru saumuð saman nánast allan hringinn, en skilin er eftir rifa til þess að setja innleggið í. Þetta er einskonar vasi og þaðan dregur bleyjan nafn sitt. Innleggið er stór renningur sem minnir einna helst á stórt dömubindi.
- Allt í einni (e. AIO) Þessi gerð taubleyja er sú bleyja sem líkist einnota bleyjum einna helst. Þá er búið að sauma bleyjuna og innleggið saman, en það er misjafnt hvernig það hefur verið gert. Stundum er búið að sauma allt innleggið fast í bleyjuna, stundum að hluta og stundum er innleggið smellt í svo hægt sé að taka innleggið frá þegar það er þvegið en með því móti er bleyjan fljótari að þorna eftir að hafa verið þvegin. Mjög oft er líka vasi á svona bleyjum svo hægt sé að bæta við auka innleggi til að auka rakadrægni bleyjunnar enn frekar.
- Allt í tveimur (e. AI2) samanstendur af vatnsheldri hlíf úr pul efni og innleggi, þá er innlegginu smellt í skelina eða sett undir flipa á skelinni. Helsti kosturinn við þetta kerfi er að ekki þarf að þvo alltaf alla bleyjuna heldur er einungis skipt um innlegg og sama skelin notuð aftur og aftur. Þessi gerð taubleyja tekur minnsta plássið svo í stað þess að ferðast til dæmis með fimm bleyjur er er hægt að hafa 1 hlíf og 5 innlegg.
- Fitted bleyjur eru bleyjur úr mjúku rakadrægu efni til dæmis bómull, stundum eru þær með föstum innleggjum, aðrar eru með vasa fyrir auka innlegg og svo eru sumar ekki með neinu innleggi. Gjarnan eru settar vatnsheldar hlífar yfir slíkar bleyjur.
Höfundur greinar er Jóhanna María Þorvaldsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðingur.
Heimildir og nánari upplýsingar:
Taubleyjur fyrir byrjendur – leiðbeiningar
Hvernig á að nota taubleyjur? – Wikihow
Hvernig á að þvo taubleyjur? – Myndrænar leiðbeiningar – Wikihow
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?