Flestir vísindamenn eru sammála um að losun mannkyns á gróðurhúsalofttegundum sé megin orsök hækkun meðalhita jarðar. Hækkun meðalhita jarðar er jafnframt talin vera ein helsta ógn sem steðjar að jörðinni og öllu lífríki þar. Líkt og aðrar þjóðir heimsins höfum við Íslendingar ekki látið okkar eftir liggja þegar það kemur að losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið. Það er eitthvað sem mætti mun betur fara.
Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi jókst um 28% á tímabilinu 1990 til 2016. Fjöldi þátta hefur áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda, svo sem iðnaður, skipaflotinn og landbúnaður.
Samgöngur eru ein af aðaluppsprettum losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi en rúmlega 20% af útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi er vegna samgangna.
Einungis iðnaður og efnavinnsla mengar meira hér á landi. Vissara er að taka þessum tölum með fyrirvara vegna þess að aðra stóra þætti vantar inn í reiknidæmið. Þar má nefna alþjóðasamgöngur líkt og milliríkjaflug. Í þessari grein ætlum við að líta á hvernig við getum hagað samgöngum okkar á sem umhverfisvænastan hátt.
Ólíkir samgöngumátar og áhrif þeirra á umhverfið:
Ákveðin sérstaða ríkir hér á landi vegna þess að við búum auðvitað á eyju. Það eldsneyti sem við notum og er ekki búið til á Íslandi þarf því að flytja hingað sem hefur enn verri áhrif á umhverfið. Þar að auki; þegar okkur langar að leggja land undir fót og ferðast út fyrir landsteina þá er það yfirleitt með flugi. Flug verður seint talið umhverfisvænn ferðamáti en flug losar einna mest af gróðurhúsalofttegundum á hvern kílómetra af öllum samgöngum. Þegar á meginlandið er komið er gott að hafa í huga að reyna að nýta lestir og aðrar umhverfisvænni samgöngur. Þá gæti verið sniðugt að taka lengri ferðir og ferðast sjaldnar með flugi, viljir þú hjálpa umhverfinu.
Sem dæmi þá veldur ferð með flugi til Kaupmannahafnar fram og til baka um 370kg útblæstri af CO2 á hvern farþega. Það er álíka mikið og að fólksbíll sé ekinn tvo hringi í kringum landið. Ef þú hefur áhuga að kynna þér hversu mikið flugferð á milli tveggja borga mengar þá er hægt að fá hugmynd um það á vefsíðu alþjóða flugmálastofnunarinnar.
Samgöngur innanlands
Þegar kemur að ferðalögum innanlands þá notum við Íslendingar einkabíl í mun meiri mæli en aðrar Evrópuþjóðir. Árið 2013 sögðust 50% Evrópubúa nota bíl á hverjum degi en hér á Íslandi er það nær 66% þjóðar. Líkt og með flugið þá mun einkabíllinn seint teljast umhverfisvænn kostur, þó svo hann gangi ekki fyrir jarðeldsneyti. Það má ekki gleyma því að það mengar einnig að framleiða bíla. Lítum aðeins á muninn á þeim helstu vistvænni samgönguleiðum sem standa okkur til boða:
Göngu- eða hjólatúrar
Að fara leiða sinna á tveimur jafnfljótum er auðvitað umhverfisvænasti kosturinn. Það að hjóla er bæði umhverfisvænn og heilsusamlegur fararmáti. Hægt er að hjóla allan ársins hring ef réttur búnaður er fyrir hendi (t.d. nagladekk) og ekki má gleyma því að löglegt er að taka hjólið með í Strætó á Íslandi! Við bendum einnig á Samtök um bíllausan lífsstíl fyrir alla sem hafa áhuga á fjölbreytni í samgöngumálum.
Hér á Áttavitanum eru ýmsar greinar tengdar hjólreiðum. Til dæmis um það hvernig á að hjóla í kringum aðra. Þar að auki er heilsueflandi að fara gangandi eða hjólandi leiða sinna, líkaminn mun þakka okkur. Í mörgum tilfellum gefur það okkur líka tækifærið á því að sjá meira af umhverfi okkar og njóta náttúrunnar 🙂
Almenningssamgöngur
Almennt er hægt að segja að því fleiri sem nýta farartækið, því minni er mengunin hlutfallslega á hvern einstakling. Það er því umhverfisvænna að nota almenningssamgöngur þegar færi gefst, þar kemur Borgarlínan sterk inn. Þar að auki hefur Strætó markvisst verið að skipta olíuknúnum vögnum yfir í rafmagns vagna og því er mengunin enn minni.
Rafmagnsbílar
Hér á landi eigum við nóg til af rafmagni sem framleitt er úr endurnýjanlegri orku. Þar með minnkar enn frekar sú mengun sem fylgir því að flytja annars eldsneytið inn að utan. Rafmagnsbílar losa ekki gróðurhúsalofttegundir í andrúmsloftið við notkun en það verður þó að hafa í huga að framleiðsluferli þeirra er mengandi. Förgun rafmagnsbíla og sér í lagi rafhlöðu bílsins gæti einnig verið vandamál fyrir umhverfið.
Rafmagnsbílar hafa verið vinsælir hér á landi og sækja enn í sig veðrið hvort sem þeir ganga eingöngu á rafmagni eða eru svokallaðir tengiltvinnbílar sem ganga hvoru tveggja á olíu og rafmagni. Bílar sem ganga að einhverju leiti á rafmagni eru auðvitað umhverfisvænni kostur en þeir sem brenna olíu eða bensíni. Hleðslustöðvar má nú finna alls staðar á landinu en hér má sjá kort af staðsetningu þeirra.
Metanbílar
Metan er framleitt úr lífrænum úrgangi og hefur víða um heim verið notað m.a. til húshitunar, eldunar og rafmagnsframleiðslu. Metan getur einnig knúið áfram bíla en árið 2019 eru um 1500 metanbílar í notkun á Íslandi. Metan er einkar hentugt hér á landi því við framleiðum það sjálf og þarf því ekki að flytja það til landsins líkt og olíu. Losun útblástursefna er um 20% minni hjá metanbílum en hjá venjulegum bílum.
Þar sem metan er unnið úr lífrænum úrgangi sem þegar er til staðar þá er heildaraukning útblástursins í andrúmslofti engin.
Athugið að margir metanbílar eru líka með bensínvél og menga auðvitað þegar hún er virk. Metanbílar eru umhverfisvænni kostur en bílar sem brenna olíu eða bensíni. Við treystum okkur hins vegar ekki til að taka afstöðu til þess hvort sé umhverfisvænna að nota rafmagnsbíl eða metanbíl.
Vetnisbílar
Vetni er lofttegund sem finnst m.a. í vatni og í lífrænum efnasamböndum. Algengt er að vetni er framleitt með því að skilja það frá súrefni í vatnssameindum. Vetnisbílar hafa rafmótor sem knýr bílinn áfram en mótorinn gengur fyrir vetni. Það stendur til að stórauka framboð af vetnisstöðvum á landinu á næstu árum.
Við getum ekki ætlast til þess að sama lausnin henti öllum en aukin meðvitund um umhverfisvænni kosti hjálpar alltaf til. Þá getur hver og einn tekið upplýsta ákvörðun um hvernig hann getur hjálpað umhverfinu.
Heimildir
Metan.is
Umhverfisstofnun
Attitudes of Europeans Towards Urban Mobility
Árbók bílgreina 2018
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?