Það getur verið erfitt að vita allt um þær vörur sem við kaupum okkur. Yfirleitt vitum við lítið sem ekkert um það hvernig þær eru framleiddar, hvaðan þær nákvæmlega koma eða hverjir komu henni á staðinn sem við kaupum hana.

Fyrirtæki geta sóst eftir því sérstaklega að fá hina ýmsu gæðastimpla á vöruna sína. Þetta er til dæmis gert til þess að auðvelda neytendum valið á milli vara. Fyrir þau sem vilja velja umhverfisvænar vörur, getur verið gott að þekkja helstu umhverfismerkingarnar og vita hvað þær þýða um merktar vörur.

Svanurinn

Lógó svansins

Svanurinn er norrænt umhverfismerki. Allar Svansmerktar vörur þurfa að uppfylla strangar kröfur um efnainnihald og lágmörkun á notkun hættulegra efna við þjónustu og framleiðslu vöru.

Svansmerktar vörur:

  • Uppfylla strangar kröfur um efnainnihald þar sem notkun hættulegra efna er lágmörkuð. Svansmerktar snyrtivörur innihalda ekki ofnæmisvaldandi ilmefni né hormónatruflandi eða krabbameinsvaldandi efni.
  • Þurfa að uppfylla staðla um efnainnihald, framleiðslu, neyslu og förgun = þær eru vottaðar með allan lífsferil í huga.

Evrópublómið

Lógó evrópublómsins

Evrópublómið er merki sem notaðer í allri Evrópu. Það svipar til Svansmerkisins og stuðlar að hringlaga hagkerfi.

Bíddu, afsakið? Hvað er hringlaga hagkerfi?

Hugtakið hringlaga hagkerfi kann að hljóma framandi en það þýðir að það sem við kaupum, geti verið endurnýtt og notað aftur að sem mestu leyti. Til þess að það geti orðið að veruleika, þurfa vörur að vera gerðar með það í huga að hægt sé að endurvinna þær.

Myndskýring á hringlaga hagkerfi.

Green Seal

Lógó green seal

Green Seal er bandarískt umhverfismerki. Margar bandarískar vörur á markaði hérlendis eru merktar þessu merki. Hér má lesa nánar um staðla Green Seal.

Fairtrade merkið

Fairtrade lógóið

Fairtrade felur í sér sanngjörn viðskipti og tryggir þér að varan sem þú verslar sé sjálfbær og sanngjörn. Það finnast ennþá framleiðendur sem undirborga starfsfólki sínu verulega, þar sem starfsfólk hefur engin tryggð réttindi og þarf að lifa á svakalega litlu eða engu kaupi. Þegar vara er Fairtrade er búið að tryggja starfsfólki réttmætar lágmarkstekjur.

FSC merkið

Lógó FSC og Forest for all Forever

Merkingin felur í sér að ekki hafi verið felld fleiri tré en skógurinn nær að endurnýja. Það er einnig tryggt að dýra- og plöntulíf er verndað og starfsmenn skógræktarinnar fá nauðsynlegan öryggisbúnað ásamt sæmilegum launum. Markmið merkisins er að framleiðendur taki meiri ábyrgð á umhverfislegum- félagslegum- og hagrænum þáttum í skógrækt.

Regnskógarfroskurinn

Lógó regnskógarfrosksins

Regnskógarfroskinn má finna á ýmsum vörum út íbúð. Merkið gerir kröfur til félagslegrar-, efnahagslegrar- og umhverfislegrar sjálfbærni. Áhersla er lögð á varðveislu náttúrunnar og þeim fjölbreytileika sem í henni býr.

Heimildir

Myndina af hringlaga hagkerfi teiknaði Katla Rúnarsdóttir

Við greinaskrifin var stuðst mikið við síðu Umhverfisstofnunar

Hringlaga hagkerfi

Er hægt að aðlaga fataiðnaðinn að hringlaga hagkerfi?

Nánari upplýsingar um Green Seal merkið

Nánari upplýsingar um Evrópublómið

Nánari upplýsingar um Fairtrade

Nánari upplýsingar um Regnskógarfroskinn

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar