Nám erlendis

Að stunda nám erlendis getur verið góður kostur. Vinsælt er hjá Íslendingum að skoða Háskóla Íslands eða Háskólann í Reykjavík en þar sem Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EEA) stendur Íslendingum til boða að greiða sömu skólagjöld og heimamenn í öðrum löndum innan EEA. Nám í Hollandi er því góður og skemmtilegur kostur vegna þess að þar er möguleiki að upplifa það að búa erlendis og á sama tíma stunda nám.

Þegar flutt er erlendis er margt sem þarf að huga að. Þessi grein er tvískipt og verður farið yfir hvað er skynsamlegt að gera áður en flutt er erlendis og hvað skal gera eftir að komið er út.

Áður en komið er út

Til þess að komast inn í kerfið í Hollandi er mikilvægt að vera með citizen service number (BSN), eða kennitölu. Nauðsynlegt er að hafa meðferðis fæðingarvottorð en ef þú hefur það ekki við höndina er hægt að sækja um nýtt eintak hjá Þjóðskrá Íslands. Ef eitthvað skildi koma fyrir er mikilvægt að taka með Evrópska sjúkratryggingakortið eða sækja um nýtt. Einnig er hægt að sækja um rafræna útgáfu af því inn á island.is. Það borgar sig að fara yfir rafrænu skilríkin og mögulega láta útbúa rafræn skilríki númer tvö.

Eftir að komið er út

Þegar komið er út þarf að huga að skráningu í Hollandi. Til þess að fá skráningu þarf að bóka tíma hjá borgarskrifstofunni. Þegar kemur að tímanum þarf að mæta með vegabréf, fæðingarvottorð, en einnig er gott að taka með leigusamning ef hann er til staðar.

Að fá bankareikning

Nokkuð margar hollenskar verslanir taka bara við debit kortum eins og þeir kalla það en það eru kort frá Maestro eða V-Pay. Til þess að fá bankareikning þarftu að vera með BSN númer. Þegar BSN númerið er komið er hægt að hafa samband við bankann og sækja um bankareikning. Hjá stórum bönkum eins og ABN amro eða ING þá fer ferlið fram á netinu. Hafa þarf í huga að til þess að millifæra af íslenska bankareikningnum yfir á hollenska reikninginn þarf að gera það á opnunartíma bankanna á Íslandi, sem sagt á virkum dögum á milli kl 9-16.

Húsnæðismarkaðurinn í Hollandi

Húsnæðismarkaðurinn í Hollandi er erfiður þessar stundirnar. Eftirspurn er mikil og ekki nógu mikið framboð. Í sumum tilfellum geta skólarnir útvegað húsnæði til eins árs. Hinsvegar er ekki hægt að stóla á það svo góð regla er að byrja að leita að húsnæði eins snemma og hægt er. Mín reynsla er sú að besta leiðin til að finna íbúð er að nota síður á borð við Kamernet.nl, Househunting.nl eða findallrentals.com.

Skólar í Hollandi

Skólakerfið í Hollandi er svipað því íslenska hvað varðar að kennararnir eru alltaf opnir fyrir spurningum og er ekki mikil stéttarskipting milli kennara og nemenda. Margt er líka öðruvísi, þú þarft t.d. að skrá þig sérstaklega í lokapróf þrátt fyrir að vera skráð/ur í áfangann.

Að ferðast í Hollandi

Holland er þekkt fyrir mikla hjólamenningu. Það eru hjólastígar meðfram öllum götum og hjól eiga forgang í umferðinni. Það er mikið framboð af notuðum hjólum í Hollandi en einnig er hægt að taka hjól á langtímaleigu. Þá mæli ég með fyrirtækjum eins og Swapfiets. Kosturinn við að taka hjól á langtímaleigu er að þá færðu nýlegt hjól. Ef hjólinu er stolið þarftu einungis að greiða trygginguna og færðu þá nýtt hjól.

Lestakerfið í Hollandi

Lestakerfið í Hollandi er nokkuð gott en það getur verið dýrt að borga fyrir stakar ferðir svo ef þú ferðast með lest í skólann t.d þá er hægt að fá nemendakort sem veitir þér fríar ferðir annað hvort á virkum dögum eða um helgar. Ef þú færð ekki fría ferð færðu samt afslátt af fargjaldinu. Til þess að fá þessa afslætti þarftu að sækju um OV-chipkaart.

Holland er góður kostur til náms erlendis en það er að mörgu að huga og vona ég að þessi grein verði einhverjum til gagns.

Höfundur stundar nám í Hollandi.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar