Hægt er að gera mjög mikið í frítímanum sínum. Það er mikið í boði hér á Íslandi af námskeiðum og tómstundum af ýmsu tagi. Hér á eftir koma nokkrar góðar hugmyndir um það sem hægt er að gera.

Ungmennahús

Á höfuðborgarsvæðinu eru þrjú ungmennahús fyrir 16-25 ára fólk. Eitt þeirra er í Hafnarfirði og heitir Hamarinn, annað er í Kópavogi og heitir Molinn og þriðja og síðasta heitir Hitt Húsið og er staðsett í Reykjavík. Ungmennahúsin eru öll með allskonar starfsemi í gangi. Í öllum ungmennahúsunum er neysla áfengis, tóbaks og annara vímuefna bönnuð.

Hamarinn í Hafnarfirði er opinn alla virka daga frá klukkan 13:00-22:00, en á fimmtudögum frá kl 17-22 bjóða þau upp á spunaspil. Hamarinn er staðsettur á Suðurgötu 14, Hafnarfirði. Í Hamrinum er hægt að fara í pool, spila á gítar, horfa á þætti og margt fleira.

Molinn í Kópavogi er opinn mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga frá klukkan 14:00-22:00 en á fimmtudögum til klukkan 23:00. Hægt er að gera samning við Molann við nýtingu á húsinu utan opnunartíma. Molinn er staðsettur að Hábraut 2, Kópavogi. Í Molanum er hægt að fara í Pool, spila fússball, spjalla og læra ásamt mörgu öðru.

Hitt Húsið í Reykjavík er opið alla virka daga frá klukkan 9-22. Hitt Húsið er staðsett á Rafstöðvarvegi 7-9. Í Hinu Húsinu stendur ýmislegt til boða. Hægt er að panta stúdíó til að æfa eða taka upp tónlist og er mestmegnis allt til alls í því. Einnig er hægt að bóka hin ýmsu svæði í húsinu fyrir viðburði eða fundi. Þá er hægt að koma og spila borðtennis, pílu, Playstation 5, horfa á þætti, læra eða bara spjalla saman.

Gagnlegar síður

Hægt er að finna allskonar skemmtileg námskeið fyrir 16 ára og eldri á síðum eins og fristund.is en þar eru námskeið sem Myndlistaskóli Reykjavíkur býður uppá eins og til dæmis námskeið í Grafík, málun, leir og fleira. Einnig býður Garðabær upp á ýmisskonar spennandi listanámskeið.

Þá bjóða Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Grindavík og Vogar upp á hinar ýmsu tómstundir fyrir 16 ára og eldri og eru frekari upplýsingar um það á síðunni fristundir.is. Þar má finna námskeið í tónlist, íþróttum og margt fleira.

Hafnarfjarðarbær býður einnig upp á allskonar námskeið. Sem dæmi má nefna dans, bogfimi, siglingar, reiðmennsku, fjallahjólaæfingar og hjólabrettaæfingar. Frekari upplýsingar um það má finna á síðu Hafnarfjarðar.

Einnig eru nokkrar björgunarsveitir starfrækar á og í kringum höfuðborgarsvæðið. Björgunarsveitirnar halda nýliðanámskeið og fleira til að undirbúa fólk undir björgunarsveitarstarf. Þá eru einnig nokkrar unglingadeildir starfrækar á Íslandi fyrir 15-17 ára. Hér er grein um það hvernig maður byrjar í björgunarsveit.

Í Kramhúsinu er boðið upp á allskonar dansnámskeið fyrir allan aldur, til dæmis Break, Afro og Musical theater. Kramhúsið er staðsett á Skólavörðustíg 12 í miðbæ Reykjavíkur. Kramhúsið fagnar fjölbreytileikanum og býður öll velkomin.

Margir fara í líkamsrækt á eigin vegum og eru fjölmargar líkamsræktarstöðvar víðsvegar um höfuðborgarsvæðið. Einhverjar líkamsræktarstöðvar bjóða upp á námskeið og opna tíma sem hægt er að skrá sig í.

Hvernig get ég nýtt frítímann vel án þess að vera í tómstund eða á námskeiðum?

Þó að hér að ofan séu nokkrar hugmyndir af hinum ýmsu námskeiðum er vel hægt að nýta frítímann í að sinna áhugamálunum sínum á annan veg. Til dæmis ef þér finnst skemmtilegt að fara út í fjallgöngu er tilvalið að draga einn eða fleiri vin með sér og spjalla um daginn og veginn.

Möguleikarnir eru fjölmargir og skiptir máli hvað þú hefur áhuga á og skemmtilegt að gera. Það er líka mikilvægt að finna jafnvægi milli þess að slaka á, virða þarfir þínar og heilsuna og að nýta frítímann í eitthvað sem þér þykir skemmtilegt að gera.

Aðalmálið er að vera hugmyndaríkur og framkvæma án þess að pæla of mikið í því.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar