Flestir hugsa til afreksfólks í íþróttum þegar talað erum ísböð enda hafa þau lengi verið stunduð af íþróttafólki eftir mikla áreynslu. Hugmyndin er sú að kæling dregur úr bólgumyndun og blæðingum eftir áverka, þess vegna eru fyrstu viðbrögð eftir álag eða meiðsli oft kæling. Undanfarin ár hafa ísböð þó orðið mun algengari meðal almennings, sem dæmi er nú algengt að finna ísböð eða kalda potta í mörgum æfingarstöðvum og sundlaugum landsins. Áttavitinn hefur einmitt tekið saman lista yfir þær sundlaugar sem bjóða gestum sínum upp á kalda potta á landsvísu.
Ísböð og æfingar
Rannsakendur eru ekki á eitt sáttir varðandi kosti þess að stunda ísböð eftir æfingar. Rannsóknir hafa bent til þess að ef vöðvar eru kældir eða settir í ísbað í um 10 mínútur eftir áreynslu eru þeir fljótari að ná sér. Það ætti að skila sér í minni harðsperrum og því að vöðvar ná fyrr fullum styrk aftur. Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að ákveðin bólgumyndun sem er óhjákvæmileg eftir áreynslu gæti hjálpað vöðvunum að jafna sig, þannig gæti ísbaðið seinkað endurhæfingu. Því hafa sumir rannsakendur tekið eins konar milliveg í ráðleggingum sínum varðandi ísböð: Þau gætu nýst vel hafi viðkomandi reynt verulega á sig og hafi stuttan tíma fram að næstu keppni/æfingu en sé markmiðið að verða sterkari til lengri tíma eru ísböð kannski ekki besti kosturinn. Einnig hefur lengi verið talað um ágæti þess að víxla á köldum og heitum böðum fyrir endurnýjun líkamans eftir áreynslu en takmarkaðar rannsóknir eru til um það.
Kostir ísbaða
Líkamlegir:
- Hárnæring – Hárið heldur betur í sína náttúrulegu fitu eftir ísbað og verður hraustlegra.
- Húðin lokar svitaholum sínum svo óhreinindi komast ekki inn.
- Aukið blóðflæði – Þegar þú ferð í kaldan pott þá fær líkaminn vægt sjokk. Líkaminn pumpar blóðinu á áhrifaríkari hátt sem hjálpar til við að halda hjartanu heilbrigðu.
- Hraðar fyrir uppbyggingu vöðva – Athugið að þetta er ekki hægt að fullyrða í öllum tilvikum.
- Styrkir ónæmiskerfið.
- Eykur efnaskipti.
- Betri svefn – Vegna þess að vöðvar og taugar róast að ísbaði loknu þá hjálpar það mörgum að sofna betur þegar að kvöldi kemur.
- Eykur framleiðslu kynhormóna – Kuldabað eykur framleiðslu á testósterón hormónum og eykur jafnframt framleiðslu á sæðisfrumum.
- Verkjastillandi – Ísböð draga úr bólgum og verkjum.
- Geta hjálpað fólki með fótapirring.
Andlegir:
- Aukin orka – Hjartað pumpar hraðar og taugaendarnir þenjast út sem skilar sér í að þér líður eins og þú sért orkumeiri. Virkar betur en jafnvel hinn sterkasti kaffibolla fyrir marga.
- Minnkar streitu, endurtekin ísböð auka jafnframt þol gegn streitu.
- Vinnur gegn þunglyndi – Serótónín framleiðsla eykst eftir ísbaðið en serótónín jafnar skapsveiflur og eykur gleði.
Hvað ber að varast
Það er mikilvægt að vita að kæling deyfir skynfæri í vöðvum og liðamótum. Kæling getur þannig deyft sársauka en hefur einnig áhrif á hreyfistjórn og jafnvægisskyn. Þess vegna ættir þú alltaf að gæta þín þegar þú stígur upp úr ísbaði. Það ber einnig að hafa í huga að ef þú stundar líkamlega áreynslu stuttu eftir að þú laukst ísbaðinu þá getur það aukið líkurnar á meiðslum. Ísbað, eins og svo margt annað ætti að nota í hófi. Dæmi eru um að öfgafull notkun hafi jafnvel leitt til taugaskaða meðal íþróttafólks.
Þegar að líkaminn hitar sig aftur þá notar hann mikla orku til þess. Ef þú hefur lágan blóðsykur og ert lítið eða ekkert búinn að borða þá finnur þú mikið fyrir því. Þú getur fengið einkenni blóðsykurfalls; svima og skjálfta. Ekki ósvipað því sem gerist ef þú æfir mikið á fastandi maga. Ef þetta gerist er lykilráð að fá sér ávaxtasafa, gosdrykk, banana eða eitthvað orkuríkt sem jafnar blóðsykurinn.
Athugaðu að ekki er sérstaklega mælt með kuldaböðum fyrir ófrískar konur, hjartveika eða fólk með háan blóðþrýsting. Fólk með æðakölkun og veikburða einstaklingar ættu einnig að forðast að liggja í ísbaði.
Eins og sjá má eru skiptar skoðanir um ágæti ísbaða, í raun er ágóði þeirra mjög einstaklingsbundinn. Ef þér líður vel eftir ísbað gæti það hentað þér en annars er engin ástæða til þess að pína sig.
Heimildir:
Vísindavefurinn
BBC
Heilsan.is
Ráðleggingar hjúkrunarfræðings
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?