Geðklofalík persónuleikaröskun er ekki það sama og geðklofi þó einkennin séu lík að mörgu leiti. Rannsókn sem framkvæmd var á höfuðborgarsvæðinu bendir til þess að röskunin hafi áhrif á rúmlega 3% einstaklinga hér á landi. Karlmenn á Íslandi eru líklegri til að þjást af röskuninni en konur. Það kemur heim og saman við algengi röskunarinnar í öðrum löndum.

Helstu einkenni

Geðklofalík persónuleikaröskun einkennist af hamlandi kvíða í nánum samskiptum og erfiðleikum í að mynda og viðhalda tengslum við aðra. Einstaklingur með geðklofalíka persónuleikaröskun getur verið óhefðbundinn í tali og jafnvel átt í samræðum við sjálfan sig. Önnur einkenni eru m.a:

  • Aðsóknar (e. paranoid) hugmyndir sem eiga oft ekki stoð í raunveruleikanum.
  • Ofurtrú á eigin hæfileika.
  • Tortryggni gagnvart öðrum.
  • Félagsfælni.
  • Hegðun sem telst óeðlileg í samfélaginu.
  • Tilfinningalaus eða köld viðbrögð.

Orsakir

Eins og með aðrar persónuleikaraskanir getur verið erfitt að benda á einhverja eina ákveðna orsök. Gen geta haft áhrif ef andleg veikindi eru fyrir í fjölskyldunni, sér í lagi geðklofi. Uppeldi getur einnig haft sitt að segja, þá sérstaklega ef einstaklingurinn varð fyrir vanrækslu sem ungabarn. Vanrækt börn geta átt erfitt með félagslegan þroska og þróað með sér óeðlilega hegðun eða viðbrögð í félagslegum aðstæðum sem er einkennandi fyrir einstaklinga með geðklofalíka persónuleikaröskun.

Meðferð

Lyfjameðferðir og hópmeðferðir eru algengastar. Lyfjameðferð verður að sníða að einstaklingnum hverju sinni, það gengur ekki eitt fyrir alla. Sem dæmi getur einstaklingur sem ber mikið af ranghugmyndum fengið lyf sem notuð eru við geðklofa, ef áráttukennd hegðun er helsta röskunin getur hann fengið önnur lyf.

Hópmeðferð virkar einnig vel fyrir suma, þar geta einstaklingar rætt á öruggan hátt um persónuleikaröskunina við aðra sem einnig hafa reynslu af henni. Einstaklingsviðtöl geta reynst erfið vegna þess að einstaklingar geta þar gert minna úr röskuninni, jafnvel talið hana sérvisku sem hamlar þeim ekki.

Athugið að í þessari grein er stiklað á stóru um geðklofalíka persónuleikaröskun. Mikilvægt er að hafa í huga að enginn á að þurfa að standa einn í bataferlinu. Fyrsta skrefið gæti verið að tala um vandamál sín við náinn vin, fjölskyldumeðlum eða annan aðila sem þú treystir. Á sal.is er hægt að fá lista yfir starfandi sálfræðinga á Íslandi þó listinn sé ekki tæmandi. Ef vandamálið er áríðandi er hægt að leita til bráðaþjónustu geðsviðs landspítalans án þess að eiga pantaðan tíma, eða hreinlega hringja í 112. Persónuleikaröskunum er hægt að halda í skefjum og er alls enginn dauðadómur.

Hér má finna ýmsar greinar um geðheilsu

Heimildir
Læknablaðið
Wikipedia
Wikipedia

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar