Jaðarpersónuleikaröskun einnig þekkt sem hambrigðapersónuleikaröskun eða borderline personality disorder er geðröskun sem hefur kannski ekki fengið eins mikið umtal og aðrar persónuleikaraskanir. Röskunin hefur slæmt orð á sér vegna þess hversu skaðleg hún getur verið nánustu aðstandendum þess sem er með röskunina. Þar að auki hefur jaðarpersónuleikaröskun verið túlkuð frjálslega í kvikmyndum, það er því ekki úr vegi að rýna betur í helstu einkenni hennar.

Jaðarpersónuleikaröskun einkennist af lítilli stjórn á tilfinningum, stormasömum samböndum og tilhneigingu til svart-hvítrar hugsunar. Með svart-hvítri hugsun er átt við að einstaklingurinn upplifir að hlutirnir séu annað hvort mjög góðir eða alslæmir.

Talið er að rúmlega 1% einstaklinga þjáist af jaðarpersónuleikaröskun á heimsvísu en hlutfallið gæti verið hærra hér á landi.

Helstu einkenni

  • Óljós sjálfsmynd
  • Lítil stjórn á tilfinningum
  • Erfiðleikar í mannlegum samskiptum
  • Hvatvísi
  • Sjálfsskaðandi hegðun
  • Sjálfsvígstilraunir eða hótanir um sjálfsvíg
  • Svarthvít hugsun
  • Lamandi ótti um að verða hafnað

Orsakir

Orsakirnar gætu verið margar og því er erfitt að benda á eitthvað eitt. Talið er að áfall í æsku; misnotkun eða sinnuleysi gæti haft varanleg áhrif á einstaklinga og orðið til þess að þeir þrói með sér jaðarpersónuleikaröskun.

Jaðarpersónuleikaröskun gæti einnig verið tilkomin vegna vandamála í boðleiðum heilans, að efnaskiptin í heilanum séu frábrugðin því sem eðlilegt getur talist. Að lokum er ekki útilokað að jaðarpersónuleikaröskun gangi í erfðir, þó engar sannanir séu fyrir því.

Meðferð

Ólíklegt er að hægt sé að „laga“ jaðarpersónuleikaröskun. Meðferð getur hins vegar hjálpað einstaklingum að halda einkennum í skefjum og jafnvel að lifa lífi þar sem sjúkdómurinn hefur ekki heljargrip á þeim. Sú meðferð sem einna helst hefur gefið góða raun er hugræn atferlismeðferð, hvort sem það er einstaklings eða hópmeðferð. Hugræn atferlismeðferð getur þjálfað einstaklinginn í því að átta sig á því hvenær hann sér veruleikan með svarthvítu sjónarhorni sem getur leitt hann til skaðandi hugsana og hegðunar.

Athugið að í þessari grein er stiklað á stóru um jaðarpersónuleikaröskun. Mikilvægt er að hafa í huga að enginn á að þurfa að standa einn í bataferlinu. Fyrsta skrefið gæti verið að tala um vandamál sín við náinn vin eða fjölskyldumeðlim. Á sal.is er hægt að fá lista yfir starfandi sálfræðinga á Íslandi þó listinn sé ekki tæmandi. Ef vandamálið er áríðandi er hægt að leita til bráðamóttöku geðþjónustu Landspítalans án þess að eiga pantaðan tíma, eða hreinlega hringja í 112.

Heimildir
Persona.is
Læknablaðið
TheMix
Doktor.is

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar