Hvað eru Píeta samtökin?
Píeta eru samtök gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða. Fyrirmyndin er sótt til Pieta House á Írlandi en starfsemin hófst hér á landi árið 2017. Pieta hús er staðsett á Baldursgötu 7 í Reykjavík og nær til rúmlega 80% landsmanna en stefnt er að opnun fleiri Pieta athvarfa víðsvegar um landið. Píeta samtökin eru góðgerðasamtök rekin af sjálfboðaliðum, enginn hagnast fjárhagslega á samtökunum.
Hvað gera Píeta samtökin?
Píeta býður upp á úrræði fyrir einstaklinga í sjálfsvígshugleiðingum og þá sem stunda sjálfsskaða. Á vegum Píeta samtakanna er haldið úti nokkurskonar griðarstað þar sem aðilar í sjálfsvígsvanda og aðstandendur þeirra sem hafa tekið eigið líf eiga greiðan aðgang að ókeypis ráðgjöf innan 24 stunda eftir að þeir hafa samband.
Píeta samtökin unnu nýverið að auglýsingaherferðinni #segðuþaðupphátt en herferðinni er ætlað að minna á mikilvægi þess að geta talað opinskátt um erfiðleika sína og að leita til vina eða fagaðila ef þér líður illa. Það er ekki síður mikilvægt að láta þá sem eiga í erfiðleikum vita að við erum til staðar og ætlum ekki að sitja aðgerðarlaus hjá. Jafnframt standa samtökin árlega fyrir göngunni „Úr myrkri í ljósið“ á vorin og „Vetrarsólstöðugöngu“ í desember.
Hvers vegna?
Málefnið snertir flestar stórfjölskyldur en talið er að um 5000 einstaklingar íhugi sjálfsvíg árlega á Íslandi, jafnframt glíma um 8000 einstaklingar við alvarlegt þunglyndi, þar af um 2000 einstaklingar með alvarlegar sjálfsvígshugsanir. Sjálfsskaði og sjálfsvíg eru raunveruleg vandamál sem nauðsynlegt er að tala um.
Hvernig hef ég samband?
Heimasíða: pieta.is
Facebook: Pieta samtökin
Sími: 552-2218
Heimilisfang: Baldursgata 7
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?