Hvað get ég gert?

Þunglyndi og kvíði er eitthvað sem allir finna fyrir á lífsleiðinni. Ef það er ástand verður regla verður fremur en undantekning er þó mikilvægt að leita sér astoðar. Þá er meðal annars hægt að vinna gegn þunglyndi og kvíða með því að fara til sálfræðings eða taka lyf, oft virkar vel að gera þetta samhliða. Sálfræðimeðferð gegn þunglyndi snýst aðallega um að komast til rótar á vandanum. Þá er til svokölluð hugræn atferlismeðferð (e. cognitive behaviour therapy) sem snýst um að breyta hugsun og/eða hegðun til að hafa áhrif á líðan. Lyfin eiga aftur á móti að jafna efnaskipti heilans.

Þekking á kvíða og þunglyndi getur verið ágætis forvörn og úrvinnsla á þessu ástandi. Hér er ókeypis rafræn bók um hugræna atferlismeðferð. Hana er hægt að nýta í meðferð og til sjálfshjálpar. Bókin er einnig aðgengileg sem hljóðbók.

Að sofa rétt, borða rétt og að stunda líkamsrækt getur hjálpað til í baráttunni við þunglyndi og kvíða. Vandamálið er aftur á móti að þunglyndi gerir þeim sem þjást af því mjög erfitt fyrir að sofa, borða og að fara upp úr rúminu á morgnana, hvað þá að skokka í hálftíma. Sumir kjósa því að nota þunglyndislyf til þess að koma rútínu á líf sitt og hætta síðan á þeim seinna. Þetta er gert í samráði við lækna og/eða sálfræðinga þegar önnur úrræði hafa verið reynd.

Ekki má hér gleyma því sem oft er mikilvægast, það er að ræða um vanlíðan sína við nána ættingja og/eða vini.

Hvar fæ ég aðstoð?

Ef þú telur þig þjást af þunglyndi eða kvíða skaltu tala við heimilislækninn þinn, eða panta tíma hjá sálfræðingi. Þá má leita ráða í gegnum eftirfarandi aðila:

  • Námsráðgjafar, prestar og félagsráðgjafar veita iðulega ráð við andlegri vanlíðan.
  • Pieta samtökin halda úti sjálfsvígs- og sjálfskaðamiðstöð (frá og með páskum árið 2018). Þar getur fólk fengið 15 ókeypis tíma hjá sálfræðingi eða geðhjúkrunarfræðingi, glími það við sjálfsvígshugsanir eða sjálfsskaða.
  • Geðhjálp heldur úti allskyns úrræðum fyrir fólk sem þjáist af kvíða, geðhvörfum og ýmsu öðru. Hér má nálgast nánari upplýsingar.
  • Hjálparsími Rauða krossins, 1717 er alltaf opinn. Þá er einnig hægt að senda skilaboð í netspjalli hjálparsímans.
  • Bráðaþjónusta geðsviðs á Landspítalanum. Fólk getur leitað til bráðamóttöku með áríðandi mál af geðrænum toga án þess að eiga pantaðan tíma. Opnunartími bráðaþjónustunnar er á milli 12:00 og 19:00. Síminn hjá þeim er 543-1000. Utan þess tíma er hægt að leita til bráðamóttökunnar á Landspítala Fossvogi (sími: 543-1000).
  • Félagasamtökin Hugarafl veita stuðning í bataferli sem byggir á að efla geðheilsu og tækifæri í daglegu lífi. Í samtökunum kynnist fólk bæði faglegum stuðningi og þekkingu annarra einstaklinga með geðraskanir.
  • Kvíðameðferðarstöðin er sérhæfð meðferðarstöð þar sem áhersla er lögð á að veita aðstoð við kvíða og skyldum vandkvæðum. Kvíðameðferðarstöðin heldur einnig úti fjarþjónustu en upplýsingar um hana má nálgast hér.

Nánari upplýsingar:

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar