Hvað er Kvíði?

Kvíði er náttúrulegt viðbragð líkamans við álagi og erfiðum aðstæðum í lífinu. Þessi viðbrögð hjálpa líkamanum að takast á við erfiðar aðstæður t.d. í vinnuni, við að halda ræðu, undirbúningi fyrir próf o.fl.
Kvíði getur þó orðið vandamál þegar hann er orðin of mikill eða kemur oft upp án röklegs samhengis og getur þá orðið hamlandi. Þá er talað um kvíðaröskun. 
Sumir halda því fram að kvíði sé viðbragð sem hélt í okkur lífinu þegar tilvist okkar var ógnað af ytri aðstæðum í sífellu. Við látum það liggja milli hluta.

Hvað einkennir kvíðaröskun ?

Einkenni kvíða eru margþætt og birtast í tilfinningum, líkamlegum einkennum og hugsunum. Kvíði hefur einnig áhrif á spennu, athygli, einbeitingu og minni.
Almenn einkenni eru

  • tilfinningar á borð við hræðslu, ótta og áhyggjur.
  • líkamleg einkenni eru t.d. vöðvaspenna, sviti, skjálfti, hröð öndun, flökurleiki, niðurgangur, svimi og óreglulegur eða hraður hjartsláttur.
  • hugsanir sem tengjast kvíða eru til dæmis að búast við hinu versta, óttast að eitthvað slæmt muni gerast eða að okkur muni mistakast. Kvíðahugsanir eru oft tengdar því sem á eftir að gerast í framtíðinni og frekar er búist við að illa fari.

Einkennin eru mismunandi eftir flokkun kvíðaraskana

Hér má finna lista yfir staði sem hægt er að leita til vegna kvíða.

Flokkun kvíðaraskana

Kvíðaröskun er fjölbreytt og af mörgum toga. Samkvæmt DMS-handbókinni sem er helsta handbók um geðsjúkdóma er kvíðaröskun flokkuð í 10 gerðir:

1. Almenn kvíðaröskun

Almenn kvíðaröskun lýsir sér í því að einstaklingar finna fyrir kvíða til lengri tíma sem er ekki tengdur einum einstökum atburði eða hlut. Einkennin eru stanslaus ótti og óþarfa áhyggjur af hversdagslegum hlutum. 

2. Fælni

Fælni er algengasta kvíðaröskunin og flokkast allar tegundir fælni þar undir. Meðal annars fælni við ákveðnar dýrategundir, staði, líkamsvessa eða ákveðnar aðstæður. Þolendur fælni eru meðvitaðir um að ótti þeirra er ekki í réttu hlutfalli við þá raunverulegu ógn sem þolandanum finnst yfirþyrmandi.

3. Felmtursröskun/kvíðaköst

Felmtursröskun/kvíðaköst lýsir sér í því að einstaklingar upplifa snöggar og ákafar ótta- og hæðslutilfinningar sem lýsa sér í ótta, hræðslu, ruglingi, svima, flökurleika og/eða erfiðleika með andardrátt. Ástandið getur varað allt frá undir 10 mínútum upp í nokkrar klukkustundir. Orsök kvíðakastanna getur verið stress, ótti og þrekæfingar. Þó er orsökin ekki altaf skýr eða áþreifanleg.

4. Víðáttufælni

Víðáttufælni er kvíði við að vera á ákveðnum stað eða í aðstæðum sem erfitt eða vandræðalegt er að yfirgefa. Víðáttufælni hefur sterk tengsl við felmtur/kvíðaköst. Algeng birtingarmynd er t.d. að þurfa ætíð að vera í sjónlínu við hurð eða aðrar útgönguleiðir.

5. Félagsfælni

Félagsfælni lýsir sér í miklum ótta við neikvæða athygli á almannafæri, að verða sér til skammar á almannafæri eða félagsleg samskipti. Félagsfælni getur átt við sérstaka félagslega atburði eins og að halda ræðu eða sem algengara er, að forðast flest (eða öll) samskipti við annað fólk. Birtingarmynd félagsfælni eru yfirleitt líkamleg einkenni á borð við roða í kinnum, svita og erfiðleika með tal.  Eins og með aðarar kvíðaraskanir leitast þolendur oft við að forðast aðstæður sem kalla á einkennin. Það sem er sérstaklega varhugavert við einstaklinga sem þjást af félagsfælni er að það getur leitt til félagslegrar einangrunar.

6. Áráttu- og þráhyggjuröskun

Áráttu- og þráhyggjuröskun er tegund kvíðaröskunar sem einkennist af endurtekinni þráhyggju (stressandi, viðvarandi og uppáþrengjandi hugsanir eða ímyndun) og áráttu (hvetur til að framkvæma tilteknar aðgerðir og hefðir). Líkja má áráttu- og þráhyggjuhegðun við hjátrú þar sem einstaklingur trúir á orsakasamband aðgerða sem er ekki til í raunveruleikanum. Oft er ferlið algerlega órökrétt, t.d. að halda það að göngulag eftir ákveðnu mynstri (árátta) sporni við einhvers konar skaða (þráhyggja). Í minni hluta tilfella þjást einstaklingar eingöngu af þráhyggju, án augljósrar áráttu og enn minni hluti upplifir eingöngu áráttu.

7. Áfallastreituröskun

Áfallastreituröskun orsakast af áfalli sem einstaklingur upplifir, t.d. bardaga, náttúruhamförum, nauðgun, misnotkun, einelti eða alvarlegu slysi. Áfallaröskun getur orsakast af langvarandi streitandi aðstæðum, t.d. hjá hermönnum sem höndla ekki sífellda bardaga. Algeng einkenni eru óeðlilega mikil árverkni (aðgát), endurupplifanir, flóttahegðun (að forðast aðstæður sem það óttast), áráttuhegðun, kvíði, reiði og þunglyndi.

8. Aðskilnaðarkvíði

Aðskilnaðarkvíði er það að finna fyrir miklum og óviðeigandi kvíða yfir því að vera aðskilinn frá einstaklingi eða stað. Aðskilnaðarkvíði er eðlilegur í þroska barna. Þegar tilfinningin er mjög mikil eða óviðeigandi má líta á aðskilnaðarkvíða sem vandamál.

9. Aðstæðubundinn kvíði

Aðstæðubundinn kvíði orsakast af nýjum aðstæðum eða breyttum atburðum. Það er einnig mjög algengt að hann orsakist af ýmsum atburðum sem valda því að einstaklingnum líður óþæginlega. Oft finna einstaklingar fyrir kvíðakasti eða miklum kvíða í ákveðnum aðstæðum. Ekkert ákveðið veldur aðstæðubundnum kvíða í öllum og er það því afar fjölbreytt. T.d. getur mannfjöldi, mannþröng eða biðraðir valdið kvíðakasti hjá sumum, á meðan aðrir geta fundið til kvíða þegar miklar breytingar í lífinu eiga sér stað t.d. að byrja í háskóla, gifting, barneignir o.s.frv.

10. Kvíðaraskanir barna

Kvíðaraskanir barna (Childhood anxiety disorders). Börn, líkt og fullorðnir, upplifa kvíða, áhyggjur og ótta í mismunandi aðstæðum, sérstaklega í nýjum aðstæðum. Ef kvíði er ekki lengur tímabundinn og byrjar að hafa áhrif á eðlilega hegðun barns eða er farinn að hafa áhrif á lærdómsgetu gæti vandamálið vera meira en venjulegur órói í barni.

Meðferð við kvíðaröskun

Meðferð við kvíða þarf að velja með tilliti til einstaklinga og hvers eðlis kvíðinn er. Því er best að leita hjálpar í næstu heilsugæslustöð, á geðdeild Landsspítalans eða hjá sálfræðingi sem veitir ráðgjöf um hvaða meðferð henti hverjum og einum. Kvíðameðferðarstöðin veitir sérhæfða þjónustu gegn kvíða. Í dag er fyrst og fremst 4 aðferðum beitt.

1. Samtalsmeðferð

Samtalsmeðferð gefur oft góða raun hjá fólki sem hefur gott innsæi um eigið sálarlíf.  Meðferðin fer þannig fram að sá sem þjáist af kvíðaröskun talar um vandamál sín. Það bætir oft líðan þegar einstaklingur getur fundið fyrir samúð og skilningi. Meðferðin beinist að því að öðlast skilning á orsökum og undirrót kvíðans, sem gerir einstaklinginn færari um að takast á við hann.

2. Hugræn meðferð.

Hugræn meðferð. Þá er einstaklingum hjálpað við að skoða tilfinningar sínar og hugsanir í raunsæju ljósi og þær mátaðar við veruleikan. Kvíði er í eðli sínu óraunsær, en með því að draga hann fram í dagsljósið og mynda ný hugsanatengsl er hægt að stöðva hann eða „aftengja,“ eins og oft er að orði komist.

3. Kvíðastjórnun

Kvíðastjórnun. Sálfræðingar hafa haldið námskeið fyrir fólk sem vill læra aðferðir til þess að ná tökum á kvíða sínum og hafa þau gefið góðan árangur fyrir marga. Námskeiðin felast bæði í fræðslu um kvíða, orsök hans og eðli, og aðferðum til þess að minnka hann, svo sem spennuslökun og hagnýt ráð til þess að bregðast við kvíðanum þegar hann vaknar.

4. Lyf

Lyf eru líklega algengasta aðferðin til að takast á við kvíða. Aðferðin er fljótvirk og árangursrík og getur rofið þann vítahring sem einstaklingar sem þjást af kvíða upplifa. Þannig má ná tökum á kvíðanum og einstaklingurinn getur hætt lyfjameðferð. Stundum er þó kvíðinn langvinnari og einstaklingar þurfa vera á lyfjum til lengri tíma sem er þá beitt samhliða öðrum aðferðum.

Góð ráð við kvíða.

Það getur verið erfitt að viðurkenna þær sterku og yfirþyrmandi tilfinningar sem geta fylgt kvíða. Stundum liggur orsök kvíðans í fortíðinni; einhverjar aðstæður eða jafnvel löngu liðinn atburður.

  • Viðurkenndu kvíðann og talaðu um líðan þína við einhvern sem þú treystir. Það er tilgangslaust að reyna að fela líðan sína, finna til sektar eða skammast sín.
  • Það getur reynst vel að draga úr álagi og streitu eins og hægt er. Það er þó mikilvægt að draga sig ekki í hlé heldur halda sig við daglega iðju eins og áður. Það getur reynst erfitt en er nauðsynlegt, bæði til að koma í veg fyrir einangrun og til að auka ekki líkur á meiri kvíða.
  • Nægur svefn er mikilvægur. Hann verður oft óreglulegur við kvíða en það lagast yfirleitt með almennum ráðum við svefnvandamálum; reglulegum svefntíma, róandi aðstæðum fyrir svefn, slökun o.fl.
  • Markviss slökun hjálpar. Það eru til bækur, geisladiskar og margvíslegt efni um slökun. Þeir sem ná góðum tökum á slökun geta yfirleitt stjórnað kvíðanum og dregið úr einkennum eins og spennu og höfuðverk.
  • Reglubundin hreyfing og líkamsrækt eru til bóta. Reglulegar gönguferðir, e.t.v. með góðum vini, bæta líðan og auka getu til að takast á við vandann.
  • Dragðu úr koffeinneyslu og nikótínneyslu, því þessi efni geta gert kvíðann verri og aukið á svefnvandamál. Ekki er ráðlagt að drekka meira en sem nemur 1-2 bollum af kaffi á dag eða 3-4 bollum af tei.

Heimildir og frekari upplýsingar

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar