Flestir eru sammála um að almenningssalerni séu ekki ofarlega á vinsældarlistanum þegar það kemur að því að gera þarfir sínar. Engu að síður þurfa langflestir að nota almenningssalerni endrum og sinnum, almenningssalerni eru þáttur í lífi okkar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er þó munur á því hversu illa hugsunin um að nota almenningssalerni kemur við okkur og hjá sumum einstaklingum er það raunverulegt vandamál. Þegar staðan er slík er hægt að tala um Afmarkaða fælni (e. phobia) sem er tegund af kvíðaröskun. Parcopresis eða ótti við að kúka á almannafæri er viðurkennd fóbía, sömuleiðis Paruresis eða óttinn við að pissa á almannafæri. Einstaklingar geta einnig þróað með sér fælni gagnvart öllum öðrum salernum en þeirra eigin.
Er ég með klósettfælni?
Eins og með aðrar fóbíur á óttinn sjaldnast við rök að styðjast en er nægilega raunverulegur fyrir einstaklingnum að óttinn hefur mikil áhrif á daglegt líf viðkomandi. Flestir láta sig hafa það að skreppa á almenningssalerni ef ekkert annað er í boði og hugsa lítið út í það. Einstaklingur sem er með fóbíu fyrir almenningssalernum getur ekki hugsað sér að lenda í þeirri aðstöðu og er farinn að breyta daglegu lífi svo hann þurfi ekki að nota almenningssalerni. Meðal annars með því að passa sig á því að fara á eigin salerni áður en farið er að heiman, þrátt fyrir að þurfa kannski ekki að nota það. Þegar einstaklingurinn er að heiman er hann jafnframt kvíðinn því að þurfa mögulega að nota almenningssalerni. Þá er jafnvel haldið í sér þar til heim er komið en það getur haft slæmar afleiðingar á meltingarkerfið.
Líkamleg einkenni
Einstaklingar með fóbíu fyrir almenningssalernum geta upplifað líkamleg einkenni, samskonar einkenni og koma frá kvíðakasti. Sem dæmi:
- Ör hjartsláttur
- Sviti
- Svimi
- Grátur
- Ógleði
- Þurrkur í munni
Athugið að líkamleg einkenni geta komið út frá því einu að hugsa um að létta af sér á almenningssalerni.
Hvaðan kemur klósettfælni?
Eins og með aðrar fóbíur er líklegt að hún sé komin frá slæmri upplifun eða reynslu áður fyrr, líklegast í bernsku. Í þessu tilfelli getur fóbían einnig verið tengd andlegum kvillum svo sem áráttu- og þráhyggjuröskun eða kvíðaröskun.
Hvað get ég gert?
Það er mikilvægt að átta sig á því að þú ert ekki ein/n og það er ekki þér að kenna að þú sért að glíma við klósettfælni. Þér ætti aldrei að líða eins og að þú sért verri manneskja vegna þessa, það er fyrsta skrefið. Finndu einhvern til þess að ræða við um vandamálið, það getur verið foreldri, vinur, læknir, þjálfari, námsráðgjafi, bara einhver sem að þú treystir og er tilbúinn að hlusta á þig. Það getur einnig verið gagnlegt að kynna sér kvíða og fóbíur og hvaða aðferðir hafa gagnast einstaklingum sem glíma við þá kvilla. Kvíðameðferðarstöðin hefur að markmiði að veita eins árangursríka meðferð við kvíða fyrir fullorðna og völ er á. Þar er tekið við símtölum frá kl 9-12 alla virka daga og opið frá 9-17. Kvíðameðferðarstöðin er á Suðurlandsbraut 4.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?