Flughræðsla er einn algengasti ótti meðal fólks og er talið að um 6,5% af öllu mannkyninu finni fyrir einhverskonar flughræðslu eða jafnvel flugfælni. Flughræðsla getur verið tilkomin vegna annarskonar þátta á borð við innilokunarkennd, lofthræðslu, sýklafóbíu og félagskvíða.
Flughræðsla vs. flugfælni
Flughræðsla er óttinn við að ferðast í flugvél. Hræðslan getur verið væg, fólk finnur þá aðeins til óþæginda í flugi við vissar aðstæður eins og í ókyrrð, yfir í að vera yfirþyrmandi ótti tengdur flugi þannig að allra bragða er beitt til að forðast þennan ferðamáta. Þegar óttinn er orðinn svo mikill er talað um flugfælni.
Líkamleg einkenni flughræðslu
Einkenni flughræðslu eru sem dæmi:
- Ógleði
- Skjálfti
- Andþyngsli
- Ör hjartsláttur
- Sviti
- Lystarleysi
- Roði í húð
- Meltingartruflanir
- Óskýr hugsun
- Köfnunartilfinning
- Svimi
- Húðerting
Ásamt öðrum einkennum kvíða.
„Sjálfshjálp“?
Fyrsta skrefið er að viðurkenna óttann fyrir sjálfum/sjálfri sér. Þú ert langt í frá ein/n sem upplifir kvíða í flugi og er engin ástæða til að skammast sín fyrir hann.
Að vera upplýstur er mjög mikilvægt þegar kemur að því að minnka kvíðaeinkennin. Hljóðin í flugvélinni eru oft mikill trigger hjá fólki og eru til sjónvarpsþættir, heimildarmyndir og ógrynni af myndböndum á netinu þar sem farið er yfir öll þessi hljóð sem við heyrum og þau útskýrð. Þetta eitt og sér hefur komið mörgum að góðum notum.
Kynntu þér hvernig flugvélar virka, það mun róa þig á endanum þó það gæti verið kvíðavaldandi fyrst um sinn.
Hugleiðsla og öndunaræfingar. Einbeittu þér að öndun og veltu fyrir þér hvort að óttinn þinn eigi við rök að styðjast.
Að hafa eitthvað fyrir stafni er mjög mikilvægt fyrir flughrædda ferðalanga. Það er gott að vera búin/n að undirbúa afþreyingu um borð: eitthvað til að lesa, krossgátubók, tónlist, leikir í síma, þættir, bíómyndir o.s.frv.
Öruggasti ferðamátinn
Þetta höfum við öll heyrt og er mikill sannleikur í þessu. Við hvað erum við þá hrædd?
Flugvélar eru taldar öruggasti ferðamátinn á eftir lyftum og rúllustigum.
Hafa ekki allir annars heyrt: „Þú ert líklegri til að lenda í slysi á leiðinni út á flugvöll heldur en í fluginu sjálfu.“ Það er nefnilega bara þannig.
Talið er að fréttir af flugslysum spili stórt hlutverk í afhverju svona mörgum þykir óþægilegt að fljúga. Við fáum alltaf að vita af flugslysum en önnur slys fá yfir höfuð ekki eins mikla athygli í fjölmiðlum.
Algengasta ástæðan afhverju svona margir upplifa kvíða um borð er stjórnleysið sem farþegarnir finna fyrir, að líf þeirra séu í höndum ókunnugra flugmanna.
Það er munur á því að sitja í bíl og hugsa að ef eitthvað fer úrskeiðis er auðvelt að grípa í stýrið og redda málunum. Það er svo sannarlega ekki staðan í háloftunum. Margir hverjir nefna valdaleysið sem sökudólg hræðslunnar, að vita að þú sért í raun hjálparlaus ef eitthvað fer úrskeiðis og þarft að treysa á einhvern annan.
Því lengri tími sem líður á milli fluga því líklegra er að óttinn aukist.
Ekki láta of langan tíma líða á milli fluga. Þetta er þjálfun.
Flugmenn og flugvélin
Flugmenn hafa nefnt að besta leiðin til að losna við flughræðslu sé að læra að fljúga sjálf/ur, þá veistu nákvæmlega út í hvað þú ert að fara.
En afhverju ætli það sé? Jú, við höldum að þetta sé flókið en sagan segir að það sé auðveldara að fjúga flugvél en að keyra bíl.
Flugmenn eru þrautþjálfaðir og skyldaðir til að sitja reglulega námskeið svo þekkingin er alltaf upp á 100.
Flugvélar fara svo reglulega í skoðun og ef það er minnsti grunur að ekki sé allt með felldu eru vélarnar kyrrsettar. Flugmenn fara yfir öll atriði vélarinnar áður en lagt er af stað í háloftin.
Ýmislegt getur komið upp á og í langflestum tilfellum er það ekkert til að hafa áhyggjur af. Minnstu hlutir geta valdið því að vélar séu kyrrsettar, t.d. ljós í borði sem hefur enga þýðingu í rauninni er ekki að virka. Ef þú færð skilaboð sem segja „delay due to technical…“ þá er það yfirhöfuð lítilsháttar viðhald svo reyndu að anda inn og út.
„Ókyrrð í lofti er eins og bíll að keyra á malarvegi„
Ókyrrð er aldrei þægileg en það er þó ekkert til að óttast.
Farþegar hræðast mest ókyrrðina en flugvélar eru þannig byggðar í dag að ókyrrð ein og sér getur ómögulega grandað vélinni.
Ókyrrð hefur aldrei grandað flugvél og er fullkomlega eðlilegur partur af flugi. Sumir tala um loftbólur sem flogið er í gegnum á meðan aðrir líkja þessu við að aka bíl á malarvegi.
Flest slys sem verða vegna ókyrrðar eru ýmist vegna sætisbeltaleysis eða vegna farangurs sem fer af stað. Þá erum við að tala um marbletti og möguleg beinbrot.
Hvað er til ráða?
Vertu upplýstur farþegi
Veistu hvað hljóðin þýða sem þú heyrir, en ef það slokknar allt í einu á einhverju hljóði… drap vélin á sér? Jesús!
Hvernig virka flugvélar? Hvernig getur þessi níðþunga áldós haldið sér í loftinu? Sjálfstýring og hvað? Er enginn að fylgjast með? Hér er t.d. stutt myndband sem útskýrir hverng flugvélar virka á mjög auðveldan hátt.
Flugvélin er meirihluta tímans stillt á sjálfstýringu og er hún mjög örugg. Sjálfstýringin getur t.a.m. ráðið við nánast hvaða veðurtruflanir sem er.
Jákvæðar hugsanir
Ekki mála skrattann á vegginn. Flugslys eru mjög sjaldgæf og sérstaklega þegar kemur að farþegaþotum. Það eru um 8.000-12.000 flugvélar í loftinu á hverri stundu í heiminum. Með þessum tölum er hægt að setja betur í samhengi hversu sjaldgæf slysin eru í háloftunum.
Mættu tímanlega til að forðast óþarfa stress
Ef þú ert nú þegar í stressi er ólíklegt að það minnki við að vera loksins sest/ur inn í vél. Farðu tímanlega af stað út á völl til að forðast óþarfa álag.
Veldu þér sæti
Sumir vilja gang, aðrir glugga. Talað er um að þægilegustu sætin fyrir flughrædda séu fyrir miðju og framar. Það er meiri hávaði því aftar sem þú ferð og getur innilokunarkenndin einnig orðið meiri því aftar sem þú ert. Það virðist meiri stöðugleiki fyrir miðju vélar þar sem vængirnir eru staðsettir og einnig framar.
Öruggustu sætin eru þó oftast talin vera aftast ef eitthvað skyldi koma upp á, sem eru þó litlar líkur á.
Láttu crewið vita
Þegar þú stígur um borð er sniðugt að láta flugliða vita að þér sé illa við að fljúga. Flugliðarnir eru duglegir að láta vita ef það er spáð ókyrrð á leiðinni og eru snillingar í að hughreysta stressaða farþega.
Áfengi og kvíðalyf
Margir læknar mæla með vægum kvíðastillandi lyfjum til að róa taugarnar.
Vinsælt er að fólk drekki í sig kjark eða kæruleysi. Það er ekki sniðugt, slepptu því.
Talaðu við heimilislækninn þinn ef þú telur þig þurfa kvíðastillandi fyrir flug.
Sturlaðar staðreyndir
- Farþegaþota getur flogið með aðeins einn starfandi hreyfil og lent án beggja!
- Það er rautt ljós á vinstri væng og grænt á hægri. Þetta er til að auðvelda flugmönnum að sjá í hvaða átt aðrar flugvélar eru að fara í myrkrinu.
- Líkurnar á að lenda í flugslysi eru 1 á móti 11.000.000 og er líklegra að verða fyrir eldingu.
- Konur eru líklegri til að finna fyrir flughræðslu en karlar.
- Líkurnar á að lifa af flugslys eru 95%.
- Farþegaþota fellur ekki af himnum ef hún missir vélarafl. Venjuleg farþegaþota getur svifið 160 km án afls.
- Flugvélar geta lent á öruggan hátt þrátt fyrir að hjólabúnaður virki ekki.
- Flugvélar geta líka lent á vatni áfallalaust þó svo að farþegar myndu líklegast vera í smá áfalli.
- Flugvélar þola að fá í sig eldingar.
Námskeið við flugfælni
Icelandair í samvinnu við Sálfræðistöðina býður upp á námskeið við flugfælni sem vert er að kynna sér.
Námskeiðin eru 12 – 14 tímar í heild og skiptast á fjögur kvöld.
Einnig er hægt að finna námskeið á netinu eins og t.d. námskeiðið Fear of flying help course sem hefur komið mörgum að góðum notum.
Heimildir:
Medical News Today
Smarter Travel
Heilsan.is
Adventure.com
Quartz
Nbcnews.com
Thrillist
Escape
Buzzfeed
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?