Hvað er líkamsskynjunarröskun?
Líkamsskynjunarröskun (e. body dysmorphic disorder) er kvíðaröskun sem einkennist af þráhyggju um ímyndaðan galla í útliti sínu. Þeir sem þjást af líkamsskynjunarröskun eyða oft mörgum tímum á dag í að huga að útliti sínu. Þeir hafa áhyggjur af útlitsgöllum og bera sig saman við aðra. Algengt er að ímyndaðir útlitsgallar tengist andliti eða hári einstaklingsins en það er ekki algilt.
Röskunin kemur yfirleitt fram á unglingsárum og kynjahlutfall er nokkuð jafnt. Rannsóknir benda til þess að hlutfall þeirra sem glíma við líkamsskynjunarröskun á vesturlöndum sé tæplega 2%. Hlutfallið er jafnvel enn hærra hér á landi. Erfitt er að segja hvað veldur röskuninni en talið er að hún tengist slæmu sjálfsáliti eða getur verið tilkomin vegna eineltis og stríðni. Einstaklingar sem þjást af röskuninni eru líklegri til að vera einhleypir, atvinnulausir eða öryrkjar og eru jafnframt í meiri sjálfsvígshættu en fólk almennt. Þeir sem þjást af röskuninni skammast sín fyrir útlit sitt og kjósa oft einveru frekar en að vera innan um annað fólk. Það leiðir til félagslegrar einangrunar sem hefur slæm áhrif á lífsgæði einstaklingsins.
Helstu einkenni:
- Miklar áhyggjur af eigin útliti, jafnvel svo miklar að þær hafa áhrif á daglegt líf viðkomandi.
- Áráttukennd hegðun sem er tilkomin vegna stöðugra áhyggja af eigin útliti, svo sem að plokka hár eða naga neglur.
- Kvíði og skömm.
- Einvera.
- Sjálfsskaði og jafnvel sjálfsvígshugsanir.
- Að leita í áfengi og aðra vímugjafa.
Hvað er til ráða?
Þegar að líkamsskynjunarröskun hefur áhrif á daglegt líf viðkomandi þá er kominn tími á inngrip. Eðli málsins samkvæmt er ekki óalgengt að einstaklingar gætu viljað „laga“ útlitsgallann en sýnt hefur verið fram á að fegrunaraðgerðir bera lítinn sem engan árangur. Fegrunaraðgerðir gera jafnvel vandamálið verra hjá þessum einstaklingum. Ef þú tengir við þessa líðan og telur þig líklega/n til þess að vera með líkamsskynjunarröskun þá er mun áhrifaríkara að fara til sálfræðings. Sálfræðingur getur hjálpað þér að skilja af hverju þér líður svona og veitt þér verkfæri til þess að bæta líðan þína. Kvíðameðferðarstöðin heldur einnig úti sálfræðiþjónustu á netinu sem vert er að skoða. Hugræn atferlismeðferð og lyfjameðferð hafa sýnt sig að beri góðan árangur en það er mat sálfræðings hvaða meðferð hentar hverju sinni.
Heimildir:
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?