Hitt Húsið óskar eftir metnaðarfullum einstaklingum í mjög skemmtileg sumarstörf. Í boði eru stöður innan Götuleikhússins, í Jafningjafræðslunni og í Listhópum þar sem sköpunarfrelsi ræður ríkjum.

Götuleikhúsið

Á hverju sumri býðst ungmennum á aldrinum 17 til 25 ára að sækja um að starfa með Götuleikhúsinu. Árlega er leikstjóri fenginn til liðs við Götuleikhúsið, ásamt búningahönnuði sem hannar búninga og leikmyndir í samvinnu við hópinn. Meðlimir Götuleikhússins fá því þjálfun í öllu því helsta sem tengist starfi götuleikhúss, þar sem leikararnir koma að öllum undirbúningi sem viðkemur sýningunum.

Götuleikhúsið er vel þekkt á meðal borgarbúa, enda hefur leikhúsið verið starfrækt yfir sumartímann frá árinu 1994. Síðan þá hefur leikhúsið fóstrað stóran hóp ungs fólks,  sem mörg hver starfa í dag sem þekktir listamenn á ýmsum sviðum.

Götuleikhúsið er starfrækt í 8 vikur yfir sumartímann. Athugið að umsækjendur sem sækja um starf við Götuleikhúsið þurfa að hafa lögheimili í Reykjavík.

Yfir vetrartímann vinna fyrrum Götuleikhúsmeðlimir oft sjálfstætt og taka að sér verkefni fyrir ýmsa aðila.

Sækja um hér.

Jafningjafræðslan

Hópurinn býður upp á fræðslu þar sem fram koma rök sem mæla með heilbrigðum lífsstíl og gegn skaðlegri hegðun. Hugmyndafræði Jafningjafræðslunnar er í stuttu máli sú að  „ungur fræðir unga.“ Það sem felst í þessu er að forvarnir eru unnar af ungu fólki fyrir ungt fólk.

Fræðsla Jafningjafræðslunnar er gagnvirk og unnin á jafnréttisgrundvelli af ungmennum sem sjálf eru á aldrinum 16-19 ára (fædd 2004, 2005 og 2006). Jafningjafræðarar eru á svipaðri bylgjulengd og hafa svipaðan reynsluheim og ungmennin sem þau eru að fræða.

Jafningjafræðslan býður ungmennum upp á góða og hnitmiðaða fræðslu í félagsmiðstöðvum, grunnskólum, framhaldsskólum og í vinnuskólum ásamt því að skipuleggja vímulausar uppákomur af ýmsu tagi. Ungmennin eru frædd um margvísleg málefni, spurningum þeirra er svarað og farið er í skemmtilega og fræðandi hópeflisleiki

Sækja um hér

Listhópar

Listhópar Hins Hússins eru löngu orðnir ómissandi partur af iðandi sumarlífi Reykjavíkur.

Ungu fólki gefst kostur á að sækja um og koma með hugmyndir að skapandi verkefnum fyrir Listhópa Hins Hússins.  Valdir hópar eða einstaklingar úr hópi umsækjenda fá síðan tækifæri til að vinna að hugmyndum sínum í átta vikur yfir sumartímann.  Þessi verkefni eru afar fjölbreytt, skapandi og skemmtileg og eru sýnileg víða í Reykjavíkurborg.

Verkefni hópanna eru fjölbreytt og einkennast af miklum metnaði og sköpunargleði. Starf þeirra gefur okkur tilefni til að líta upp frá amstri hversdagsins og upplifa óvænt stefnumót við listagyðjuna.

Mikið af ungu og efnilegu listafólki stígur sín fyrstu skref á listabrautinni með starfi sínu í hópunum og hafa margir af okkar fremstu listamönnum tekið sín fyrstu skref í Listhópum Hins Hússins. Ekki amalegt það.

Fólki á aldrinum 17-25 ára með lögheimili í Reykjavík gefst kostur á að sækja um starfið.

Skila þarf inn umsókn þar sem fram kemur:

  • Greinagóð lýsing á verkefninu, umfangi þess og markmiðum.
  • Tíma- og verkáætlun verkefnisins.
  • Fjárhagsáætlun.
  • Upplýsingar um umsækjendur verkefnisins og tilnefning á einum aðila sem tengilið verkefnisins.

Nánari upplýsingar veitir Menningardeild í síma 411-5526.

Sækja um hér.

Atvinnuráðgjöf

Í Hinu Húsinu er atvinnumáladeild sem býður upp á ókeypis atvinnuráðgjöf. Atvinnuráðgjafar okkar leitast við að hjálpa ungu fólki (16-25 ára) í atvinnuleitinni.

Hægt er að panta tíma og koma til okkar og fá aðstoð með allt sem viðkemur atvinnuleit. Atvinnuráðgjöfin getur tekið frá einu skipti og upp í fjögur skipti – allt eftir hvað hentar hverjum og einum.

Deildin býður einnig upp á atvinnuráðgjöf í gegnum síma eða Skype, yfirferð á ferilskrám og gagnlegar ábendingar til að bæta hana ásamt góðum ráðum um hvernig á að gera ferilskrá til að byrja með og undirbúa sig fyrir atvinnuviðtal. Einnig er hægt að fá send dæmi um ferilskrá og kynningarbréf.

Atvinnuráðgjafarnir okkar eru alltaf tilbúnir að svara fyrirspurnum. Hægt er að hringja í síma 411-5500 eða senda póst á atvinnumal@hitthusid.is.

Umsóknarfrestur er til og með 13. mars!

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar