Internetið og samfélagsmiðlar sér í lagi hafa gjörbreytt því hvernig við eigum í samskiptum á tiltölulega stuttum tíma. Samfélagsmiðlum fylgja fjölmörg tækifæri en það er einnig mikilvægt að staldra við og íhuga hvernig ofnotkun á samfélagsmiðlum getur haft áhrif á andlega heilsu okkar.

Ert þú háð/ur lækum?

Okkur líður öllum vel þegar einhver líkar við færslu eða mynd sem við setjum inn en það er einnig varhugavert ef við verðum háð jákvæðri athygli annara. Að leita sífellt að nýjum færslum, skilaboðum og lækum getur verið streituvaldandi og ýtt undir þunglyndi. Líkt og með aðra ávanabindandi hegðun þá þarf að takast á við hegðunina þegar að hún er farin að hafa áhrif á daglegt líf. Hér að neðan eru nokkrar tillögur sem þú getur nýtt þér til þess að átta þig á áhrifum internet notkunar á andlega heilsu þína:

Prófaðu af og til að taka pásu frá samfélagsmiðlum. Þú getur sett þér einhvern ákveðinn tíma sem þú ætlar ekki að skoða samfélagsmiðla, sótt app sem lokar á samfélagsmiðla eða eytt samfélagsmiðlum út af símanum tímabundið. Það hjálpar þér að meta hversu miklum tíma þú vilt eyða í samfélagsmiðla.

Hugsaðu um hvort þú sért einnig að sinna félagslífinu og vinum þínum í persónu.

Ef þér líður eins og þú sért að mestu leiti í samskiptum við vini þína í síma eða á internetinu, skipuleggðu hitting með þeim og gerið eitthvað skemmtilegt saman.

Mundu að ef þér líður illa eða finnur fyrir streitu þá liggur líklega eitthvað fleira að baki en internet notkun þó hún geti vissulega haft áhrif. Í slíkum aðstæðum er gott að ræða hlutina við vin, fjölskyldu eða lækni. Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að sú mynd sem við höfum af öðrum á samfélagsmiðlum og á netinu er bjöguð. Á samfélagsmiðlum birta flestir það besta úr lífi sínu, við sjáum ekki alltaf lægðirnar sem við verðum öll fyrir. Það eiga allir bæði góða og slæma daga.

Þó svo að samfélagsmiðlar geti látið líta út fyrir að lífið sé áreynslulaust og fullkomið þá er það sjaldnast raunin.

Það kann ekki góðri lukku að stýra að bera sig saman við ímynd annarra á samfélagsmiðlum, það fer mun betur með geðheilsuna að minna sjálfa/n sig á það góða í eigin fari.

Hverju ert þú að pósta á netið?

Smá rifrildi á netinu gæti virst saklaust en hafðu í huga að það gæti komið í bakið á þér seinna meir. Það er góð regla að ganga út frá því að það sem þú setur á netið sé komið til að vera. Ágætt er að hugsa um eftirfarandi atriði áður en þú sendir eitthvað frá þér á netið:

 • Er ég að fremja lögbrot? Ef þú sendir eitthvað sem getur verið túlkað sem ógnandi, áreiti eða ærumeiðandi, þá gætir þú verið sótt/ur til saka.
 • Vil ég að fólk sjái eftir fimm ár það sem ég er að senda núna? Hvernig mun nethegðun mín í dag hafa áhrif á mig seinna meir?
 • Myndi ég segja þetta við viðkomandi í „raunheimum“? Á internetinu erum við jafnan ekki eins meðvituð um tilfinningar þeirra sem við eigum í samskiptum við. Kannski hafa skilaboðin meiri áhrif en við áttum okkur á.
 • Gefa skilaboðin rétta mynd af þeirri manneskju sem ég er? Ef ekki, þá er gott að spyrja sig „af hverju er ég að skrifa þetta?“
 • Mundu að þú getur beðið um að láta henda út gömlum færslum ef þú vilt ekki hafa þær inni á samfélagsmiðlum.

Hvernig vernda ég mig gegn stuðandi efni?

Ef þú ert að sjá mikið af efni sem kemur illa við þig þá getur það haft áhrif á andlega líðan þína. Mundu að:

 • Á flestum samfélagsmiðlum getur þú blokkað þá aðganga sem stuða þig.
 • Ef einhver er að áreita þig á netinu talaðu þá um það við einhvern sem þú treystir, þú þarft ekki að standa í þessu ein/n. Það gæti verið vinur, námsráðgjafi, skólastjóri, einhver úr mannauðsdeild vinnustaðar þíns eða jafnvel lögreglan ef svo á við. Áreiti er aldrei eðlileg hegðun og hún er ekki þér að kenna.

Einbeittu þér að því jákvæða við internetið

Þrátt fyrir að þessi grein gæti látið það líta svo út að internetið sé myrkur og hættulegur staður þá er mikilvægt að minna sig á allt það jákvæða við netið. Samfélagsmiðlar geta líka látið okkur líða vel, það veldur á því hvernig við notum þá.

 • Reyndu að nota internetið til þess að tengjast fólki sem lætur þér líða vel. Hugsaðu jafnvel um að takmarka aðgang þeirra sem láta þér ekki líða vel að sjálfum þér.
 • Finndu það sem lætur þér líða vel á internetinu, hver elskar ekki góð meme, ketti og kökur?
 • Komdu fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig.
 • Haltu áfram að skapa og deila því sem þér þykir skemmtilegt.

Heimildir:

Grein þýdd og staðfærð frá TheMix

How to protect your mental health online? – theMix

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar