Hvað er streita?

Það má segja að streita, eða stress, séu viðbrögð fólks við allskyns álagi og áreiti. Streita er ekki beint sjúkdómur, heldur fremur andlegt og líkamlegt ástand sem skapast við ákveðnar aðstæður. Oft er talað um að þrjár gerðir séu til af streitu, þ.e.a.s.:

  • „stressið í bænum“ – það er, utanaðkomandi þættir sem valda streitu hjá fólki;
  • innri streita – tilfinningar sem einkennist af stressi, kvíða, pirringi og jafnvel reiði;
  • álagsstreita – streita sem myndast vegna uppsafnaðrar þreytu, spennu og vinnuálags.

Hver eru einkenni streitu?

Einkenni streitu geta verið ólík eftir einstaklingum. Fólk upplifir þó oft að:

  • það borðar minna eða meira en vanalega;
  • það sefur minna eða meira en vanalega;
  • það einangrar sig frá öðrum;
  • það frestar hlutum eða vanrækir skyldur sínar;
  • það notar áfengi, tóbak eða önnur lyf til að slaka á;
  • það kemur sér upp ávana sem bendir til taugaveiklunar, eins og að naga neglur eða kroppa húð.

Streita getur stundum verið gagnleg

Hún heldur fólki vakandi, einbeittu og hefur áhrif á afköst, s.s. í vinnu og námi. En í of miklu magni getur hún haft mjög skaðleg áhrif á heilsu fólks, bæði andlega og líkamlega. Streita getur orðið grafalvarlegt vandamál og jafnvel leitt til dauða. Fólk upplifir streitu á ólíkan hátt og því er erfitt er að segja til um hve mikil streita er of mikil streita. Sumir eru mjög viðkvæmir fyrir streitu á meðan aðrir beinlínis sækja í spennu og streituvaldandi aðstæður. Mikil streita er þó ávallt óholl heilsunni, jafnvel þótt fólk njóti spennunnar.

Hvað veldur streitu?

Talað er um tvennskonar streituvalda þ.e. utanaðkomandi áhrif og innri þætti.

Utanaðkomandi streituvaldar geta verið:

  • stórar breytingar í lífinu, s.s. ástvinamissir, skilnaður, búferlaflutningar eða að byrja í nýju starfi eða námi;
  • álag í vinnu og námi;
  • sambands- og samskiptaörðugleikar, s.s. við vini, vinnufélaga, maka eða fjölskyldu;
  • fjárhags- og húsnæðisvandamál;
  • að hafa of mikið á sinni könnu.

Innri streituvaldar geta verið:

  • óvissa og óöryggi,
  • svartsýni og neikvæðni,
  • lítið sjálfsálit og óraunhæfar væntingar til sjálfs sín,
  • fullkomnunarárátta,
  • ósveigjanleiki og þvermóðska.

Hver eru andleg áhrif streitu?

Eftirfarandi þættir geta gert vart við sig hjá fólki sem haldið er mikilli streitu:

  • Minnistruflanir.
  • Skortur á einbeitingu.
  • Dómgreindarleysi.
  • Neikvæðni.
  • Stöðugar áhyggjur.
  • Ótti og örvænting.
  • Skapvonska.
  • Pirringur og „stuttur þráður“.
  • Óróleiki og erfiðleikar með að slaka á.
  • Einmanaleiki og einangrun.
  • Vanmáttarkennd og að finnast maður ekki hafa stjórn á hlutunum.
  • Þunglyndi og óhamingja.
  • Árásargirni og reiði.

Streita hefur líka líkamleg áhrif

Þau geta verið mismikil – en dæmi eru um að fólk hreinlega ofreyni líkama sinn með streitu. Eftirfarandi líkamleg einkenni geta gert vart við sig hjá fólki sem haldið er mikilli streitu:

  • Ýmis konar verkir í líkama og vöðvabólga.
  • Meltingartruflanir og niðurgangur.
  • Flökurleiki og svimi.
  • Verkir og þyngsli fyrir brjósti.
  • Öndunarerfiðleikar.
  • Minni kynhvöt.
  • Kuldi, t.d. á höndum og fótum.
  • Hjartsláttaróregla.
  • Vökvasöfnun og bjúgur.

Auk þess getur langvarandi streita aukið hættu á:

  • blóðþrýstingsvandamálum;
  • truflunum í ónæmiskerfi;
  • hjartaáfalli;
  • ófrjósemi;
  • sjálfsofnæmi;
  • hraðari öldrun;
  • geðröskunum, t.d. kvíða og þunglyndi;
  • offitu;
  • meltingarvandamálum;
  • húðvandamálum.

Hvernig má takast á við streitu?

Streituvaldandi atburður og aðstæður eru hluti af lífinu og líklega er aldrei hægt að forðast streituna alveg. Hinsvegar eru til ýmis ráð til að höndla hana og afleiðingarnar betur. Meðal þess sem hægt er að gera er að:

  • leggja stund á heilbrigðan lífsstíl með góðum svefn- og matarvenjum. Hreyfa sig reglulega;
  • forðast hugbreytandi efni á borð við áfengi, tóbak, vímuefni, koffín, sykur og fleira;
  • læra að þekkja streituvalda, s.s. aðstæður, samskipti og umræðuefni;
  • forðast streituvalda eða taka á þeim á heilbrigðan og yfirvegaðan hátt;
  • stunda útiveru, s.s. að vera úti í náttúrunni eða taka til hendinni í garðinum;
  • eiga góðar stundir með vinum og fjölskyldu;
  • halda úti dagbók eða hugsanabók;
  • skrifa, teikna, mála, spila á hljóðfæri, stunda hannyrðir eða gera eitthvað annað skapandi;
  • ná stjórn á eigin hugsunum, beita rökum og skynsemi;
  • læra að róa sig niður, s.s. með hugleiðslu eða áhugamálum sem hafa róandi áhrif;
  • skipuleggja sjálfan sig og tíma sinn betur;
  • drekka heita og koffínlausa drykki, t.d. grænt te eða kamillute;
  • lesa góða bók, horfa á gamanmynd eða hlusta á tónlist;
  • setja sjálfum sér og öðrum mörk;
  • vinna í að breyta viðhorfum; til manns sjálfs, annarra og ýmissa hluta;
  • efla sjálfstraustið;
  • hætta að fresta hlutum eða sofa of mikið;
  • stunda slökun, jóga, hugleiðslu og öndunaræfingar;
  • reyna að vera jákvæður.

Á heimasíðunni Persóna.is má nálgast góða grein um streitu, orsakir hennar, afleiðingar og úrræði.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar