Kjörþögli er kvíðaröskun sem lýsir sér svo að einstaklingur sem kann að tala og skilur mælt mál gerir það ekki í ákveðnum aðstæðum. Einstaklingur með kjörþögli getur verið fullfær um að tjá sig þar sem honum líður vel, oftar en ekki heima fyrir. Þegar einstaklingurinn er í öðrum félagslegum aðstæðum og verður óöruggur tjáir hann sig ekki þó hann sé spurður.
Það er ólíkt í hvaða félagslegu aðstæðum einstaklinga með kjörþögli tjá sig, sem dæmi tjá sumir sig ekki við jafnaldra sína en aðrir tjá sig nær einungis við jafnaldra.
Helstu einkenni
- Einstaklingurinn tjáir sig ekki í ákveðnum aðstæðum þar sem ætlast er til að hann tjái sig, t.d. í skóla.
- Einkennin hafa áhrif á getu hans til að sinna námi, vinnu og eiga í félagslegum samskiptum.
- Skortur á tjáningu er ekki tilkominn vegna þekkingarleysis. Viðkomandi kann að tala tungumálið og getur það.
- Einkenni eru ekki tilkomin vegna annarra greininga líkt og einhverfu eða geðklofa.
- Eikenna hefur verið vart í meira en mánuð. Undantekning er þegar börn tjá sig ekki fyrsta mánuðinn í byrjun skólagöngu, þó ber að fylgjast með slíku.
Ýmis önnur einkenni geta einnig gefið til kynna hvort einstaklingur sé með kjörþögli þó ekki sé endilega farið eftir þeim varðandi greiningu.
- Félagsfælni.
- Feimni.
- Einstaklingurinn forðast að mynda augnsamband við aðra.
- Skortur á svipbrigðum. Dæmi; einstaklingurinn brosir lítið sem ekkert.
- Erfiðleikar með að tjá tilfinningar sínar, jafnvel til þeirra sem hann treystir.
- Áhyggjusemi.
- Einstakligurinn forðast hávaða og margmenni.
Frekari upplýsingar
Kjörþögli er mun þekktari meðal barna en fullorðinna. Í raun er ekki mikið vitað um kjörþögli meðal unglinga og fullorðinna, þó er vitað að barn getur borið kjörþögli með sér á fullorðinsár. Þegar einstaklingur með kjörþögli er á unglingsárum er hætt við því að hann búi við félagslega einangrun og geti þróað með sér þunglyndi í kjölfarið. Því er mikilvægt að hefja meðferð sem fyrst.
Áður fyrr var talið að kjörþögli væri að mestu tímabundið ástand sem eldist af barninu en nú þykir mikilvægt að hefja meðferð við fyrsta tækifæri. Algengt er að í meðferð sé reynt að draga úr kvíða einstaklingsins og félagsfælni. Atferlismeðferð og hugrænni atferlismeðferð er oft beitt í meðhöndlun á kvíða og þar af leiðandi kjörþögli.
Um 90% einstaklinga sem eru greindir með kjörþögli eru einnig greindir með félagsfælni. Félagsfælni er líkt og kjörþögli, kvíðaröskun. Meðferð við kjörþögli hjá ungmennum tekur því oftast á kvíðanum sem er rót vandans. Börn með kjörþögli enda oft hjá talmeinafræðing, í raun er ekki óalgengt að talmeinafræðingur greini kjörþögli eftir að barn kemur til hans vegna málþroska.
Þegar ljóst er að það sé ekki skilningur á tungumálinu sem heftir einstaklinginn til að tjá sig þá er leitað annað. Heimilislæknir, sem dæmi, vísar einstaklingnum í rétt úrræði, algengt er að það sé til geðlæknis. Litla kvíðameðferðarstöðin getur einnig veitt upplýsingar og aðstoð til barna og unglinga með kjörþögli.
Þegar við lítum á björtu hliðarnar þá eru margir einstaklingar með kjörþögli mjög gáfaðir og geta verið næmir á tilfinningar annarra. Margir eru með sterka réttlætiskennd og taka tillit til líðan þeirra í kring um sig.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?