Geðklofi (schizophrenia) er einn alvarlegasti geðsjúkdómur sem um getur. Hann felur í sér mikla breytingu á hegðun, hugsunum og tilfinningum. Hann er líklega einnig sá sjúkdómur sem flestir misskilja eða hafa ranghugmyndir um, enda er hann algengt umfjöllunarefni í bókum og kvikmyndum (t.d. Englar alheimsins og A Beautiful Mind). Geðklofi getur hrjáð hvern sem er, af hvoru kyni sem er, á hvaða aldri sem er, í hvaða samfélagsaðstæðum sem er. Algengast er að fá einkenni á unglingsárum og fram að 35 ára aldri, en karlar greinast yfirleitt mun yngri en konur.

Hver eru einkenni geðklofa?

Geðklofi lýsir sér sem mjög alvarleg röskun á veruleikaskynjun og rökrænni hugsun sjúklingsins. Helstu einkenni eru þessi:
  • Ranghugmyndir
  • Ofskynjanir
  • Samhengislaust tal
  • Verulega trufluð og óskipulögð hegðun
  • Sjúklingur á erfitt með að mynda heilar hugsanir eða setja hluti í samhengi
  • Vöntun á rökhugsun
  • Tilfinningadeyfð, metnaðarleysi, tómleg andlits- og líkamstjáning
  • Félagsleg vanhæfni
Fáir geðklofasjúklingar hafa öll þessi einkenni. Til þess að hljóta geðklofagreiningu þurfa einkenni að vera langvarandi. Hliðarverkanir geðklofa eru m.a. óhreinlæti og lyfjamisnotkun.

Hverjar eru helstu tegundir geðklofa?

Til eru nokkrar undirtegundir af geðklofa þar sem nokkur einkenni til viðbótar koma til sögunnar. Algengustu undirtegundirnar eru:
  • Ofsóknargeðklofi (Paranoid): Sjúklingurinn er nokkuð virkur og fær um að tjá sig í samhengi við félagslegar aðstæður, en er haldinn ofsóknarhugsunum, þ.e. hann heldur að einhver sé „á eftir honum“ eða vilji honum illt. Oft er sjúklingurinn sannfærður um fráleit samsæri og hræddur um svindl og skaða. Sjúklingur getur fengið mikilmennskubrjálæði, orðið mjög trúhneigður eða öfundsjúkur.
  • Stjarfageðklofi (Catatonic): Sjúklingurinn fær ýmis líkamleg einkenni, s.s. stífar hreyfingar, algert hreyfingarleysi eða slæma kippi um allan líkamann.
  • Óreiðugeðklofi (Disorganized): Sjúklingurinn hefur barnalegar hugsanir, mjög alvarlegar ranghugmyndir og ofskynjanir eða er algjörlega samhengislaus í tali og hegðunum.

Hvað veldur geðklofa?

Ekki er vitað hvað veldur geðklofa, en ýmsar kenningar eru á lofti. Vitað er að geðklofi er að einhverju leiti arfgengur. Þeir sem eiga nána ættingja með geðklofa eiga mun meiri líkur á að hrjást sjálfir af geðklofa en aðrir. Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á byggingu og efnaskiptum heilans. Til að mynda telja sumir að ójafnvægi taugaboðefnanna dópamíns og glútamats eigi einhvern þátt í geðklofa. Þá hefur líka komið í ljós að heilar geðklofasjúklinga eru eilítið öðruvísi í laginu en heilbrigðir heilar, og sumar heilastöðvarnar minna þroskaðar. Enn er þó óljóst hvað það er nákvæmlega sem veldur sjúkdómnum.
Talið er að geðklofasjúklingar beri sjúkdóminn með sér frá barnsaldri, en fyrstu einkenni koma yfirleitt ekki fram fyrr en á unglingsárum og fram að 35 ára aldri. Sjaldgæft er að börn og gamalmenni greinist með sjúkdóminn, en þó ekki ómögulegt. Fyrstu slæmu einkennin koma yfirleitt í ljós þegar sjúklingurinn upplifir mikla streitu og andlegt ójafnvægi, t.d. við dauða ástvinar, sambandsslit eða alvarleg slys.

Hvað er til ráða gegn geðklofa?

Ef þig grunar að þú eða einhver þér nákominn hrjáist af geðklofa þarftu að tala við sálfræðing eða geðlækni án tafar. Það er enginn skömm í því að leita sér hjálpar. Þar sem orsakir geðklofa eru lítt skildar er flókið að meðhöndla geðklofa. Það er ekki hægt að lækna geðklofa, en það er hægt að halda einkennunum í skefjum.
Geðklofi er t.d. meðhöndlaður með lyfjameðferð. Flestir sjúklingar græða á lyfjameðferð, en mismikið. Alls ekki má afskrifa lyfjameðferð, en það má heldur ekki líta á hana sem töfralausn. Geðlyfin virka yfirleitt vel á ofskynjanir, hugsanatruflanir og ranghugmyndir, en þegar kemur að félagslega þætti geðklofa þarf yfirleitt að beita sálfélagslegum meðferðum og samtalsmeðferðum hjá geðlækni eða sálfræðingi. Í mjög alvarlegum tilfellum þegar aðrar meðferðir hafa ekki gefið góða raun, fara sjúklingar stundum í raflostsmeðferð.
Mikilvægt er að fjölskylda og ástvinir geðklofasjúklings veiti honum stuðning til þess að hjálpa honum að halda reglu á lífi sínu. Fjölskyldumeðferð og uppbyggjandi umhverfi eru mikilvægir þættir í meðferð geðklofasúklinga.

Algengur misskilningur um geðklofa

Nafnið „geðklofi“ er ef til vill nokkuð villandi, og margir halda að geðklofi sé það sama og klofinn persónuleiki. Klofinn persónuleiki er það að hafa tvo eða fleiri mismunandi persónuleika í einum og sama líkamanum (Þau sem hafa séð myndina Me, myself and Irene kannast við þetta.) Geðklofi á ekki neitt skylt við klofinn persónuleika.
Stundum er talað um að fólk hafi lesið yfir sig. Þá er átt við að það hafi verið svo duglegt og metnaðarfullt í námi að það skemmdi geðheilsuna sína. Þetta er mýta, það er ekkert sem heitir að lesa yfir sig. Ástæðan fyrir þessum misskilningi er sú að þeir sem þjást af geðklofa byrja oft að fá einkenni á þrítugsaldrinum, en þá er algengt að fólk sé í háksólanámi. Þar að auki fá geðklofasjúklingar oft slæm köst þegar þeir eru undir miklu álagi, t.d. í lokaprófum. Þá lítur það stundum út eins og fólk hafi „lesið yfir sig.“ Lesturinn eða álagið er samt ekki orsök sjúkdómsins, enda fyrirfinnst geðklofi í öllum samfélögum og stéttum, hjá hámenntuðum jafnt sem öðrum.
Í kvikmyndum og munnmælasögum eru geðklofasjúklingar oft sagðir ofbeldishneigðir og hættulegir. Sannleikurinn er sá að þeir eru oftar en ekki mjög hlédrægir og eru ekki líklegir til að vera ofbeldishneigðari frekar en meðalmaðurinn, nema um sé að ræða lyfjamisnotkun eða mjög alvarlegan ofsóknargeðklofa.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar