Hvað veldur þunglyndi ?
Þunglyndi er gríðarlega flókið fyrirbæri sem vísindamenn og læknar eru mjög ósammála um. Það eru til margar kenningar um orsakir þunglyndis.
Frá því á 6. og 7. áratugnum hafa verið hugmyndir uppi um það að þunglyndi sé vegna ójafnvægi efna í heilanum (seratonin og dópamín, aðallega). Þetta hefur aftur á móti aldrei verið fyllilega sannað.
Það er vissulega rétt að ákveðin efnaskipti einkenna heila fólks sem á við þunglyndi að stríða, en það er möguleiki að þessi efnaskipti komist á vegna þess hvernig fólk meðhöndlar umhverfi sitt, en ekki öfugt. Það er því mögulega viðhorf til lífsins sem býr til ójafnvægi í efnaskiptum í heilanum. Annar möguleiki er að það fólk sem á við þessi ójöfnu efnaskipti að stríða sé einungis líklegra til þess að verða þunglynt og að aðrar ástæður séu fyrir þunglyndinu sjálfu.
Þetta snýst að einhverju leyti um orsök og afleiðingu. Það má líkja þessu við hlátur. Við hlæjum af því okkur finnst eitthvað fyndið. Vegna þess að við hlæjum flæðir endorfín um heilann. Við hlæjum ekki af því endorfín flæðir um heilann. Það hefur ekki verið sannað að efnaójafnvægi sé ástæða þunglyndis.
Efni í heilanum sem heitir seratónín ber með sér skilaboð milli heilastöðva. Læknar og vísindamenn vita að ef það er of lítið af þessu efni í heilanum getur það leitt til breytinga í skapi, matar- og svefnvenjum. Það er þó enn þá óvíst hvaða áhrif þetta efni hefur á þunglyndi eða hvort það hefur yfirleitt einhver áhrif. Skjaldkirtilsvandamál geta líka haft svipuð áhrif á fólk, að minnsta kosti hvað matarlyst varðar. Skjaldkirtillinn er staðsettur í hálsinum hjá raddböndunum og gefur frá sér hormón sem hafa áhrif á efnaskiptil líkamans og ónæmiskerfið.
Hver eru einkenni þunglyndis ?
Allir finna öðru hvoru fyrir depurð. Einkenni þunglyndis eru í eðli sínu þau sömu og einkenni depurðar, nema hvað þau eru alvarlegri og langvinnari og hafa viðtæk áhrif á daglegt líf viðkomandi.
Helstu einkenni þunglyndis eru eftirfarandi:
- að vera döpur eða dapur í meira en 2 vikur
- að missa áhugann á því sem þér fannst skemmtilegt
- að finnast ekkert skemmtilegt sem þú tekur þér fyrir hendur
- lítið sjálfstraust
- að finnast eins og þú sért ekki nógu góð/ur, engum líki við þig eða að finna fyrir mikilli sektarkennd
- að finnast tóm/ur að innan
- að finnast eins og þú getir ekki tekist á við lífið
- að leiðast í sífellu
- að finna fyrir meiri og meiri kvíða
- að finnast eins og þú eigir enga framtíð
- að finnast allt tilgangslaust
- að hugsa mikið um dauða eða sjálfsmorð
- að vilja fara að sofa og vakna aldrei aftur
- að líða sérstaklega illa á morgnana
- að vera pirruð/pirraður eða árásargjörn/gjarn af litlu sem engu tilefni
- að eiga erfitt með að einbeita sér og eiga erfitt með að muna hluti
Öll þessi einkenni þurfa ekki að vera til staðar, heldur einungis 4 eða 5 á sama tíma.
Þunglyndi leiðir einnig af sér önnur merki sem hafa líka verið tengd við þunglyndi:
- orkuleysi og síþreyta
- svefnleysi, martraðir og breyting á svefnvenjum: Að vakna mun fyrr eða sofa mun meira en áður.
- að eyða minni tíma með vinum sínum
- minni kynhvöt
- breyttar matarvenjur – mun minni matarlyst eða mun meiri
- að hafa miklar áhyggjur af alls kyns alvarlegum veikindum sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum
- Að finna fyrir fleiri verkjum en áður – þetta geta til dæmis verið bak-, maga- og höfuðverkir
- Að snúa sér að áfengi eða eiturlyfjum til þess að láta sér líða betur
Hvað er hægt að gera við þunglyndi?
Það er hægt að vinna gegn þunglyndi með því að taka þunglyndislyf, fara til sálfræðings eða mögulega bæði. Sálfræðimeðferð gegn þunglyndi snýst aðallega um að komast til rótar á vandanum. Þunglyndislyf eiga aftur á móti að jafna efnaskipti heilans.
Nánari upplýsingar um úrræði við þunglyndi má finna hér.
Hvað gera þunglyndislyf?
Mörg þunglyndislyf hækka magnið af seratónini í heilanum. Það þýðir þó ekki að þunglyndi stafi einungis af seratóninskorti. Það er til dæmis aspirín í TREO en það þýðir ekki að höfuðverkur stafi að aspirínskorti í líkamanum. Þessi þunglyndislyf hækka líka seratóninmagnið í heilanum á nokkrum klukkustundum en það tekur marga mánuði að lækna þunglyndi.
Þeir sem aðhyllast náttúrulækningar trúa því að þunglyndislyf hjálpi fólki einungis að meðhöndla slæmar aðstæður. Þeim finnst að í staðinn fyrir að breyta því hvernig fólk meðhöndlar aðstæðurnar ætti að breyta aðstæðunum. Þessar aðstæður gætu verið slæmt ástarsamband, leiðinleg vinna eða hvers kyns sorg. Það er aftur á móti varasamt að setja allar manneskjur undir einn hatt. Þunglyndislyf hafa hjálpað mörgum að lifa lífum sínum án vandræða. Öðrum hefur fundist þunglyndislyf deyfa sig of mikið. Fólk bregst misvel við þunglyndislyfjum eins og öllum lyfjum. Það á hvorki að afskrifa lyfin algjörlega né líta á þau sem hina einu sönnu lausn.
Ef þú upplifir þunglyndi er best að hafa samband við lækni, jafnvel þó þú upplifir núna að öll von sé úti skaltu hafa það hugfast að þunglyndi er sjúkdómur sem er hægt að meðhöndla og ná fullum bata af.
Nánari upplýsingar:
- Landlæknir – Þjóð gegn þunglyndi
- Orsakast þunglyndi af ójafnvægi í líkamanum?
- Hvað er hægt að gera við þunglyndi?
- Heilsutorg
- Hvernig virka sálfræðimeðferðir?
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?