Sjálfsskaði eða sjálfsskaðandi hegðun er þegar einstaklingur meiðir sig viljandi til þess að takast á við tilfinninganlegan sársauka eða kvíða. Þó að sjálfsskaði geti virst lina þjáningar tímabundið fylgir oft skömm og eftirsjá.  Sjálfsskaðandi hegðun er yfirleitt ekki komin til vegna sjálfsvígshugsana, en sjálfsskaðinn getur þó farið úr böndunum og orðið lífshættulegur.

Sjálfsskaðandi hegðun er ekki heilbrigð og viðkomandi þarf að leita sér hjálpar, sem og annarra leiða til að takast á við sársaukann og líðanina.
Einstaklingar byrja oft ungir að skera sig, á milli 12 og 15 ára, en þetta getur leitt af sér sterka fíkn sem erfitt er að losna undan. Það er nauðsynlegt að fá faglega hjálp til að takast á við þennan vanda.

Dæmi um sjálfsskaða

Sjálfsskaðandi hegðun fer yfirleitt fram í einrúmi og skilur oft eftir sig ör eða líkamleg meiðsl.  Dæmi um sjálfsskaðandi hegðun eru meðal annars:

  • Að skera sig (skurðir eða slæmar rispur eftir beitt tól).
  • Að klóra sig til blóðs.
  • Að brenna sig (með sígarettum, eldspýtum eða heitum, beittum hlutum).
  • Að skera út orð eða tákn í húðina.
  • Líkamsgötun eða að stinga sig með nálum eða beittum hlutum.
  • Að rífa hár með rótum.
  • Að rífa upp sár sem eru að gróa.
  • Að kýla eða slá höfði í vegg.
  • Yfirleitt er sjálfsskaðinn framkvæmdur á höndum, fótum eða framan á búk.  Fólk sem stundar sjálfsskaða notar oft fleiri en eina aðferð.

Einkenni

Einstaklingar sem valda sér sjálfsskaða reyna oft að fela það, til dæmis með því að vera í langerma eða síðum fötum og/eða gera lítið úr sárunum.  “Það var köttur sem klóraði mig” er algeng afsökun hjá einstaklingum sem vilja leyna aðra sjálfsskaða og þó að kettir klóri vissulega eru sárin yfirleitt ekki eins djúp og útbreidd.
Ef þú heldur að vinur þinn eða vinkona stundi sjálfsskaðandi hegðun gætu þetta verið dæmi um einkenni:

  • Ör.
  • Nýlegir skurðir, marblettir eða önnur sár.
  • Nuddsár sem viðkomandi hefur valdið sjálfur.
  • Varsla á beittum tólum, eins og nálum og rakvélablöðum.
  • Að klæðast langerma fötum, jafnvel þegar mjög heitt er.
  • Sögur sem ganga ekki upp; útskýra kannski eitt ör en ekki öll.
  • Armbönd, stór úr og annað sem felur úlnliði og einstaklingurinn er alltaf með.
  • Plástrar og sárabönd.
  • Erfiðleikar í samskiptum.
  • Tilfinningalegt ójafnvægi, hvatvísi og óáræðanleiki.
  • Yfirlýsingar um vonleysi, gagnsleysi eða bjargarleysi.
  • Einstaklingurinn neitar að taka þátt í athöfnum þar sem að hann þarf að bera sig, svo sem sundferðum.

Hvað veldur því að fólk skaðar sig?

Það er engin ein ástæða fyrir því að fólk kýs að valda sér skaða en hér eru dæmi:

  • Sjálfsskaði sem er ekki ætlaður til sjálfsvígs er oft form þess að einstaklingurinn getur ekki dílað við tilfinninganlegan sársauka á heilbrigðan máta.
  • Einstaklingurinn á erfitt með að tjá eða skilja tilfinningar sínar. Blanda tilfinninga sem triggerar sjálfsskaða er flókin.  Það geta til dæmis verið tilfinningar á borð við einmanaleika, örvæntingu, að finnast maður gagnslaus, erfirsjá, samviskubit eða sjálfshatur.
  • Einstaklingurinn gæti verið að leita leiða til þess að:
  • Stjórna eða minnka streitu eða kvíða og búa til léttistilfinningu.
  • Reyna að draga athyglina frá sárskaukafullum tilfinningum með því að valda sér líkamlegum sársauka í staðinn.
  • Öðlast vald yfir líkamanum, tilfinningu eða aðstæðum.
  • Reyna að finna einhverja tilfinningu, jafnvel líkamlegan sársauka, þegar einstaklingnum finnst hann vera andlega tómur.
  • Að tjá innri tilfinningar útvortis.
  • Að tjá þunglyndi eða kvíða til sinna nánustu.
  • Refsa sjálfum sér fyrir galla sína.

Afleiðingar

Sjálfsskaði getur valdið ýmsum fylgikvillum, svo sem:

  • Aukin sektarkennd, samviskubit eða lækkað sjálfsálit.
  • Sýkingar, frá sárum eða eftir að hafa deilt skurðartólum.
  • Varanleg ör eða afmyndun líkamsparta.
  • Mikill, jafnvel lífshættulegur skaði.
  • Undirliggjandi vandamál versna, ef þau eru ekki meðhöndluð.

Sjálfsvígshætta

Þó að sjálfsskaði sé yfirleitt ekki sjálfsvígstilraun getur hann aukið hættuna á sjálfsvígi, vegna þeirra undirliggjandi tilfinningalegu þátta sem hvetja til sjálfsskaða.

Að leita sér hjálpar

Ef þú ert að meiða þig viljandi, jafnvel bara lítið og sjaldan, er það merki um að þú þurfir að leita þér hjálpar.  Hvers kyns sjálfsskaði er merki um stærri vandamál sem þarf að takast á við.
Talaðu við einhvern sem þú treystir, til dæmis vin, foreldra, maka, skólahjúkrunarfræðing, kennara, námsráðgjafa, heimilislækni eða annan sem þú berð traust til.  Viðkomandi getur svo hjálpað þér að taka fyrstu skrefin í að sækja hjálp.  Jafnvel þó þú skammist þín, þá getur þú fundið stuðning og hlýju hjá þeim sem þú leitar til.

Hvert get ég leitað?

Þú getur leitað til skólahjúkrunarfræðings eða heimilislæknis sem vísar þér áfram eða hringt í hjálparsíma Rauða krossins í síma 1717. Það er ókeypis að hringja í hjálparsímann og það sést ekki á símreikningnum að þú hafir hringt í hann.

Þessir aðilar hjálpa þér svo að finna viðeigandi meðferð, hvort sem það er hjá BUGL eða annarsstaðar.

Hér má finna nánari upplýsingar um hvar er hægt að leita aðstoðar.

Ef þú hefur meitt þig meira en þú ætlaðir þér og þú telur að þú sért í lífshættu skaltu hringja strax í 112.

Heimildir:

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar