Hvað er einmanaleiki?

Einmanaleiki er óþægileg tilfinning sem getur komið upp þegar við upplifum skort á félagslegum tengslum. Við getum verið með ákveðnar hugmyndir um þau félagslegu tengsl sem við viljum eiga en í raunveruleikanum eru þau kannski ekki til staðar.

Er ég ein/n eða er ég einmana?

Það er ákveðinn munur á því að vera einn og að upplifa einmanleika. Það að eyða miklum tíma með sjálfum sér þarf ekki að haldast í hendur við einmanaleika. Margt fólk kýs t.d. að búa einsamalt en upplifir samt sem áður ekki einmanaleika. Geðheilbriðgissamtökin “Charity Mind” útskýra einmanaleika sem þá tilfinningu að tilheyra ekki samfélaginu. Einmanaleiki helst oft í hendur við félagslega einangrun, erfiðleika við að tengjast fólki og þá tilfinningu að tilheyra ekki fólkinu í kringum í þig.

Þú ert ekki ein/n um að upplifa einmanaleika

Samkvæmt breska upplýsingamiðlinum the Mix upplifa 9 milljónir Breta einmanaleika, stundum eða oft. Þar sem það er staðreynd að margt fólk upplifir einmanaleika er mikilvægt að við viðurkennum þá tilfinningu og tölum um hana upphátt til þess að koma í veg fyrir skömmina í tengslum við hana. Einmanaleika tilfinning getur komið upp hvenær sem er á lífsskeiðinu. Hinsvegar má hafa það í huga að ákveðin og endurtekin hegðun getur leitt til einmanaleika, t.d. að forðast félagslegar aðstæður og hittinga með vinum, ættingjum og fleira. Einmanaleika má nefnilega líkja við hungur og þorsta, við þurfum að næra okkur félagslega rétt eins og við þurfum að næra líkamann með mat og drykk.

Hvers vegna upplifi ég einmanaleika?

Einmanaleiki getur komið fyrir hvern sem er og hvenær sem er, en það geta verið forboðar á einmanaleika sem gott er að hafa í huga. Eins og sjá má eru margar ástæður fyrir því hvers vegna þú gætir upplifað einmanaleika. Sumar af þeim innihalda eftirfarandi:

    • Flutningur til nýrrar borgar eða nýs lands,
    • Að hefja háskólanám,
    • Að detta út úr vinahóp eða jafnvel bara að vaxa í sundur frá vinum,
    • Ástvinamissir,

    • Að þurfa að hugsa mikið um ástvin sem er t.d. veikur.

Samfélagsmiðlar og tæknin sem umlykur okkur í dag getur einnig ýtt undir einmanaleika. Stundum geta samfélagsmiðlar hjálpað okkur við ferlið að eignast nýja vini og tengsl og að finna fólk sem deilir sömu áhugamálum og ástríðu og við. Hins vegar geta samfélagsmiðlar ekki fyllt upp í þá félagslegu þörf sem við þurfum á að halda og fáum með mannlegum samskiptum.

Hvernig getur einmanaleiki haft áhrif á heilsuna mína?

Manneskjur eru í grunnin gerðar fyrir félagslíf og mannleg samskipti, svo það að vera einmana er ekki hollt fyrir neinn. Einmanaleiki getur haldist í hendur við tilfinningar á borð við kvíða, stress og þunglyndi og haft neikvæð áhrif á andlega heilsu okkar. Það að upplifa einmanaleika og félagslega einangrun hefur áhrif á sjálfsmyndina okkar og við gætum farið að trúa því að fólk vilji ekki tala við okkur eða hafi ekki áhuga á okkur sem manneskjum, þó svo að ekkert sé til í því.

Hvað get ég gert til að koma í veg fyrir einmanaleika?

Hugsaðu um það sem þig langar til að gera meira af. Kannski viltu eyða meiri tíma með fjölskyldu og vinum? Eigðu frumkvæði af hittingum, bjóddu fjölskyldu eða vinum í heimsókn.

Gefðu af þér og deildu hæfileikum þínum með öðrum, það hefur t.d. reynst vel að prófa sjálfboðaliðastarf. Rauði Krossinn býður upp á mörg sniðug sjálfboðaliðastörf. Prófaðu nýja íþrótt, rækt, sund eða jafnvel bókasafn.

Ef að einmanaleikinn er virkilega að draga þig niður og þú átt erfitt með að framkvæma þær gjörðir sem voru nefndar hér á undan er gott að tala við einhvern sem getur hjálpað. Það gæti verið gott að leita til sálfræðings eða jafnvel heyra í Hjálparsíma Rauða Krossins. Hann er bæði hægt að nálgast símleiðis (1717) eða í gegnum netspjallið þeirra. Símtölin eru gjaldfrjáls.  

Þýtt og staðfært af theMix

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar