Erfitt getur verið að slíta ástarsambandi
Sambandsslit eru erfið, bæði fyrir þann sem slítur sambandinu og þann sem sagt er upp. Tilhugsunin um að slíta sambandi getur meira að segja verið svo erfið að fólk dregur það út í hið óendanlega að gera það. Sumum finnst svo erfitt að segja manneskju upp, að þeir gera jafnvel allt sem þeir geta til að fá hana til að slíta sambandinu. Slíkt er þó aldrei heillavænlegt. Mun betra er að sýna kjark og ganga hreint og örugglega til verks.
Gott er að hafa nokkur atriði í huga, áður en maður slítur sambandi:
- Er ákvörðunin vel ígrunduð? Ekki er gott að rjúka til og slíta sambandinu um leið og eitthvað bjátar á. Ef búið er að gera allt til að vinna í vandamálum, án þess að viðunandi lausn hafi fundist, er þó sennilega réttast að hvor haldi sína leið.
- Er ástæða til að slíta sambandinu? Hefur t.a.m. hinn aðilinn ítrekað lofað bót og betrun en ekki staðið við orð sín? Eru tilfinningarnar ekki lengur gagnkvæmar? Er maður ekki í sambandinu af heilum hug? Það er aldrei ráðlegt að halda sambandi gangandi til að þóknast hinum aðilanum.
- Drífa þá í því. Því lengur sem maður dregur það að slíta sambandinu, því verra verður það fyrir báða aðila.
Ekki er til nein rétt leið til að segja einhverjum upp
Mikilvægast er að fólk sé heiðarlegt og hreinskilið. Fólk verður að hittast undir tvö augu, fá tóm til að ræða málin og segja hvernig því líður. Hinn aðilinn gæti orðið reiður eða sár, en þær tilfinningar verður hann/hún að takast á við sjálf/ur.
Gott er að hafa í huga að . . .
- ef manneskjan grátbiður eða stendur í hótunum þýðir ekki að láta eftir. Hver ber ábyrgð á eigin vellíðan og hamingju;
- mikilvægt er að makinn sé fyrstur til að fá fréttirnar. Ekki láta það hvissast út í vinahópnum að sambandsslit séu í vændum. Þetta eru fréttir sem maður vill ekki fá utan úr bæ (þó er auðvitað annað mál að tala við trúnaðarvin/konu um slíkt);
- best er að gera þetta í eigin persónu. Bréf, tölvupóstur, sms eða símtal eru ekki bestu aðferðirnar til að slíta sambandi;
- velja skal staðsetningu vandlega. Gott er að hittast og spjalla saman á hlutlausum stað. Það er verra fyrir þann sem fær uppsögnina að vera gestkomandi heima hjá hinum aðilanum, skárra er að vera staddur heima hjá sér. Best er samt að vera á einhverjum hlutlausum stað, þar sem ekki eru margir áhorfendur. Sumir velja að fara í bíltúr eða eitthvert út í náttúruna til að ræða svona mál;
- tímasetningin skiptir máli. Ef miklir erfiðleikar eða álagstímar eru í gangi hjá viðkomandi má kannski draga þetta í fáeina daga. Gæta skal þess að hinn aðilinn hafi ekki einhverjum erfiðum skyldum að gegna næstu klukkustundirnar eftir sambandsslitin og hafi einhvern að leita til;
- búast má við því að viðkomandi vilji fá skýringar á hversvegna þetta sé að gerast. Þá er best að vera eins fullkomlega heiðarlegur og maður mögulega getur. Þó þarf að reyna að forðast að særa manneskjuna óþarflega, s.s. með því að segja ljóta og niðrandi hluti;
- mikilvægt er að vera rólegur og hafa stjórn á tilfinningum sínum. Best er að reyna láta þetta ekki snúast upp í einhverja sápuóperu;
- hinn aðilinn gæti verið vís til að vilja semja um hluti, lofa og gera nánast hvað sem er, til að telja manni hughvarf og ríghalda í sambandið. Því er mikilvægt að vera staðfastur og vera með það alveg á hreinu að það sem maður raunverulega vill sé að slíta sambandinu. Og gera það þá í alvöru.
Allt bú! – eftir sambandsslitin . . .
- Forðast skal samskipti við hinn aðilann eftir fremsta megni, að minnsta kosti fyrst um sinn. Það gerir ástandið léttbærara fyrir báða aðila. Það er líka sjálfsögð tillitssemi við manneskjuna sem sagt var upp.
- Sérhvert samband færir manni eitthvað sem maður getur lært af og verið þakklátur fyrir. Því er óþarfi að vera með leiðindi, tala illa um hinn aðilann eftir á eða láta kjaftasögur ganga á milli fólks. Það gerir allt miklu erfiðara fyrir báða aðila.
munið að það eru fleiri fiskar í sjónum.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?