Hversu oft ræðir þú við makann um kynlífið? Ert þú kannski öruggari með að stunda kynlíf með makanum en að ræða það? Að tala um kynlífið er mjög mikilvægt og ætti að vera eðlilegur þáttur sambandsins, án þess að vera vandræðalegt.

Hvað felur það í sér?

Það er fullkomlega eðlilegt að velta því fyrir sér hvað felst í því að tala við makann um kynlíf. Er það gert fyrir eða eftir að þið sofið saman? Tala ég hreint út eða reyni ég að tjá mig á aðra vegu? Tek ég saman lista af umræðuefnum og held þrumuræðu? Þetta hefur sennilega allt verið gert. Að ræða um kynlífið getur tekið á sig margar myndir og verið allt frá því að ræða hvað þú fílar í rúminu yfir í alvarlegri umræðu um samþykki og getnað.

En það er vandræðalegt að tala um kynlíf…

Ef þú getur deilt líkama þínum með öðrum þá ættir þú að geta deilt huga þínum líka. Kynlífið er jafnan best þegar einstaklingarnir geta talað um það hreinskilnislega og opinskátt. Að geta talað opinskátt um kynlífið getur komið í veg fyrir neikvæða upplifun þína eða makans.

Það er skiljanlegt að þér þyki óþægilegt að tala um kynlífið. Það getur verið erfitt að opna sig um eitthvað eins persónulegt en æfingin skapar meistarann og það það skilar sér í betri upplifun og styrkir þig um leið.

Hvernig hef ég samtalið?

Hvernig þú ræðir við maka þinn um kynlífið veltur á því hvernig samband ykkar er og hvað það er sem þú vilt ræða. Hér eru nokkrar ráðleggingar sem er gott að taka mið af ef þú ert óviss hvernig á að hefja samtalið:

  • Ákveddu fyrir fram hvað þú vilt segja, það getur hjálpað að skrifa það niður á blað. Áttaðu þig á þínum eigin tilfinningum og hugsunum áður en þú biður maka þinn um að gera það
  • Byrjaðu samtalið út frá einhverju öðru. Það gæti verið eitthvað sem þú last eða sást í sjónvarpinu.
  • Haltu samtalinu á léttu nótunum. Að ræða kynlíf þarf ekki að vera alvarlegt, passaðu þig þó að tala ekki ógætilega og taktu mið af tilfinningum makans. Reyndu að hafa andrúmsloftið afslappað.
  • Eigið samræðurnar utan veggja svefnherbergisins. Það gæti hjálpað ykkur að líða ekki berskjölduðum þegar viðkvæm málefni eru rædd.
  • Talaðu um tilfinningar þínar. Reyndu að segja frekar hvernig þér líður fremur en að leggja alla sökina á makann. Dæmi: „Mér líður ekki vel þegar þetta gerist“ fremur en „Þegar þú gerir þetta þá líður mér illa“

Ef að maki þinn hefur eitthvað til málanna að leggja, hlustaðu þá af virðingu, maki þinn gæti einnig verið óöruggur um að ræða þessi mál og það tekur hugrekki til. Maki þinn gæti viljað reyna eitthvað sem að þú hefur engann áhuga á en leyfðu honum að klára og útskýrðu svo þína afstöðu. Ekki gera neitt sem þig langar ekki en það er gott að virða tilfinningar maka síns líka.

Hvernig tjái ég mig án þess að láta makanum líða illa?

Ábendingar eru ekki slæmar ef þær eru orðaðar rétt og á uppbyggilegan hátt.

  • Hrósaðu einhverju sem þér líkar við áður en þú gagnrýnir eitthvað sem betur mætti fara, þá líður maka þínum ekki eins og hann geti ekki gert neitt rétt.
  • Bíddu þar til eftir á. Það hjálpar engum að gagnrýna frammistöðuna í miðjum klíðum.
  • Ekki birgja tilfinningarnar innra með þér og henda því öllu yfir á maka þinn á einu augnabliki. Stöðugt samtal er betra en ein sprengja.

Hvernig tjái ég mig í miðjum klíðum án þess að drepa stemninguna?

Samskipti ykkar á milli í miðjum kynmökum ættu ekki að einskorðast við dirty talk. Þú ert ekki einungis bundin við orðin heldur getur þú einnig gefið í skyn hvað þú fílar og fílar ekki með líkamstjáningu og stunum. Þú gætir prófað að leiðbeina makanum í rétta stellingu með líkamanum eða gefa það til kynna þegar hann er að gera eitthvað rétt með annarskonar tjáningu en orðum.

Ef þér líður betur með að nota orðin getur þú sagt á uppbyggilegan hátt að þér líki við eitthvað sem maki þinn er að gera. Það er ekkert að því að biðja líka um að eitthvað sé gert á annan hátt eða spyrja hvort makinn sé tilbúinn að prófa eitthvað nýtt.

Það er einnig mikilvægt að taka tillit til makans, spurðu hann hvernig honum líður og hvað hann fílar áður en þú prófar eitthvað nýtt. Virðing ykkar á milli leiðir til þess að þið finnið að þið eruð örugg. Öryggi er lykilatriði, aldrei láta öryggi þitt sitja á hakanum af því að þú óttast að „eyðileggja stemmninguna“.

Hvað á ég að gera ef ég vil ekki stunda kynlíf með honum lengur?

Samþykki er það mikilvægasta þegar það kemur að kynlífi. Samþykki á að vera skýrt áður en eitthvað kynferðislegt á sér stað og á meðan á því stendur líka. Ef þú hefur verið í kynferðislegu sambandi lengi getur verið erfitt að koma því til skila að þú viljir ekki stunda kynlíf með makanum lengur. Það breytir því ekki að ef þér líður þannig, þá verður þú að gera það ljóst. Veldu stað sem þér líður vel á og segðu hreinskilnislega hvað þér liggur á hjarta. Reyndu að vera ekki ónærgætin/n gagnvart tilfinningum makans. Öll sambönd, rómantísk, vina og kynferðisleg geta endað. Ef viðkomandi er nokkuð heilbrigð manneskja þá mun hann skilja það.

Greinin er þýdd og staðfærð af TheMix

Í greinaflokknum Sambönd og Kynlíf má finna fjölda greina sem fjalla um kynlíf og sambönd einstaklinga.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar