Það má ekki fróa sér!

Nei hættu nú alveg. Það er ekkert rangt við sjálfsfróun svo lengi sem þú ert ekki að skaða sjálfa/n þig eða aðra.

Þú skemmir kynfæri þín

Uuu… nei, ekki nema þú nuddir þau með sandpappír eða álíka. Typpi og píkur hafa mjög gott af sjálfsfróun hvort sem hendur eða hjálpartæki ástarlífsins eru notuð við verknaðinn. Ef þú finnur fyrir einhverjum sársauka á meðan þú stundar sjálfsfróun getur verið að þú þurfir að breyta aðferðinni eða jafnvel bæta við sleipiefni. Ekki flókið.

Það skemmir kynlíf með öðrum

Þvert á móti! Þú kynnist sjálfri/sjálfum þér með því að stunda sjálfsfróun sem er í raun nauðsynlegt fyrir gott kynlíf. Ef þú missir áhuga á að stunda kynlíf með öðrum vegna mikillar sjálfsfróunar þarftu kannski að endurskoða málin og ræða við maka þinn um það. Þó svo að þú sért í sambandi er mjög eðlilegt og heilbrigt að fróa sér. Maður lærir ansi margt á því að fitla við sjálfa/n sig svo þetta er ekkert annað en lærdómur sem þú getur miðlað til framtíðar rekkjunauta hvernig á að fullnægja þér. Enginn veit það betur en þú.

Það er hægt að fróa sér of mikið

Þú getur fitlað við þig eins mikið og þú vilt svo lengi sem það hefur ekki áhrif á daglegt líf. Það eru engin mörk sem hægt er að fara yfir og þú þarft ekki að stoppa eftir x margar fullnægingar. Mundu bara að gera það innan skynsamlegra marka, kannski sleppa því að vippa félaganum eða vinkonunni út við matarborðið fyrir framan ömmu þína.

Konur fróa sér ekki

Haugalygi! Hvernig sem þú skilgreinir þig og hvaða kynfæri þú hefur milli lappanna geturðu og mátt fróa þér. Sjálfsfróun er fyrir alla og geta allir notið hennar. Það má leika alveg jafn mikið við typpi og píkur. Ekki mismuna.

Ef þú ert í sambandi þarftu ekki að fróa þér

Mjööööög ósammála. Það er nefnilega alls ekki eins að fróa sér og að stunda kynlíf með öðrum og þú mátt svo sannarlega njóta ein/n með sjálfri/sjálfum þér. Svo má auðvitað fróa sér saman sem getur verið stórskemmtilegt krydd í svefnherbergið.

Þú getur ekki fróað þér þegar þú ert á túr

Ef eitthvað er þá getur sjálfsfróun minnkað túrverki og svo má ekki gleyma að maður getur orðið svo fjandi graður á túr svo hví ekki. Mana þig að prófa.

Það er til rétt leið að fróa sér

Þú getur horft á eins mikið klám og þig lystir og gúglað aðferðir, en hvernig þú fróar þér er alfarið þín ákvörðun. Það er engin rétt leið. Þú getur því miður ekki fengið IKEA leiðbeiningar hvernig á að fara að. Möguleikarnir eru endalausir. Prófaðu þig áfram, það er lykillinn að því að finna út hvað það er sem þú fílar best.

Þú þarft að horfa á klám á meðan og klám er siðferðislega rangt svo það þýðir að þú ert siðlaus

Nei haaaa… Það þarf ekki að horfa á klám, það er hægt að nota ímyndunaraflið. Klám er ekki allt siðlaust þó svo að eitthvað klám sé það. Það er til fullt af góðu og lærdómsríku klámefni þarna úti, vertu bara viss um að vita muninn á góðu og slæmu.

Njóttu þín, gerðu það sem þú vilt, skoðaðu millifótakonfektið þitt, lærðu á þig í guðanna bænum.

Heimild: The Mix

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar