Hlutirnir eru ekki að ganga neitt sérstaklega vel á milli ykkar. Eruði kannski búin að vaxa í sundur? Þurfiði bæði að læra að gera málamiðlanir? Eða þurfið þið aðstoð sérfræðings til að greiða úr ykkar málum? Hér eru nokkur vandamál sem algengt er að komi upp í samböndum og nokkur ráð sem gætu hjálpað til við að leysa þau.

Fyrstu sambandsslitin

Það er algengt að fólk haldi að fyrsta sambandið sé það samband sem muni endast að eilífu. Allt verður svo einstakt og töfrandi. Og jafnvel þó þú gerir þér grein fyrir að tölfræðilega er ekki mjög líklegt að fyrsta sambandið sé það sem muni endast að eilífu, þá getur það verið mikið áfall þegar því lýkur. Það er því mikilvægt að muna, að þrátt fyrir að sambandið muni hugsanlega enda, þá getur þú varðveitt minningarnar og góðu stundirnar. Reynslan mun líka hjálpa þér að halda áfram og finna eitthvað jafnvel betra í framtíðinni.

Ég elska hann/hana en ég er ekki ástfangin(n) lengur

Kannski snúa vandamálin að spennunni í sambandinu. Sú breyting sem á sér stað eftir ákveðinn tíma í sambandi er eðlileg en veldur fólki oft áhyggjum. Þér finnst kannski eins og sambandið sé ekki nógu gott vegna þess að þú ert ekki stanslaust að hugsa um kærastann eða kærustuna. Það sem þarf að hafa hugfast hér er að fyrstu stig þess að vera ástfangin eru oft svo þrúgandi að það getur verið erfitt að einbeita sér að hinu raunverulega lífi á sama tíma. Eftir smá tíma muntu vilja einbeita þér að vinnunni og hitta vini þína oftar. Þetta þýðir þó ekki að sambandið sé komið yfir síðasta söludag, þvert á móti er þetta eðlilegt þróun – nema þá hugsanlega ef mikið er um önnur vandamál.

Fyrsta barn

Rannsóknir sýna að erfiðasta tímabil sambanda er um það leyti þegar fyrsta barnið kemur í heiminn og að jafnvel þó að sambandið endist í 20 ár til viðbótar þá megi rekja ýmis vandamál þess allt aftur að því þegar fyrsta barnið kom í heiminn. Að sjálfsögðu er þó hellingur af foreldrum sem eru hamingjusamir og gengur vel með sitt fyrsta barn. Það er samt gott að vera vel undirbúin(n) og gera sér grein fyrir því að þetta er erfiður tími og því mikilvægt að nýta sér þá hjálp sem í boði er, til dæmis frá ráðgjafa eða ljósmóður eða hjúkrunarfræðingum á heilsugæslustöð.

Ertu viss um að þetta snúist ekki um kynlíf?

Það er mikilvægt að pör geti rætt opinskátt sín á milli um kynlíf. Ef að annað ykkar hefur mun meiri löngun í kynlíf en hitt eða annað ykkar fær ekki fullnægingu, væri kannski fín hugmynd að leita til kynlífsráðgjafa. Ef að annað hvort ykkar finnur til við samfarir, þá er ráðlegt að fara til læknis.

Góð ráð til að hjálpa sambandinu

Eru samskiptin ykkar slæm? Ef að þið stríðið við einhver vandamál í sambandinu er gott að líta á þessi ráð áður en gengið er alla leið og leitað til ráðgjafa:

  • Ekki eiga mikilvægar samræður eða rökræður seint á kvöldin ef þið eruð þreytt, þá er betra að leysa málin morguninn eftir.
  • Ef að annar aðilinn í sambandinu á erfitt með að opna sig tilfinningalega, á erfitt með að tala eða líður eins og hann sé alltaf truflaður þegar hann talar er góð hugmynd að nota 10 mínútna regluna. Það þýðir að þið setjist niður og ræðið hlutina á rólegu nótunum og hvort um sig fær 10 mínútur til að tjá sig án þess að hinn grípi fram í. Á meðan einn talar hlustar hinn og segir ekkert, heldur gefur manneskjunni frið til þess að tjá sig – og fær svo tækifæri þegar þessar 10 mínútur eru liðnar. Góð hugmynd er að setja sér tímamörk fyrir samtöl af þessu tagi þannig að þau dragist ekki fram úr öllu hófi. Til dæmis er hægt að setja 30 mínútur samtals í samræðurnar og eiga rólega samverustund saman eftir á, horfa á mynd eða gera eitthvað sem þið njótið bæði.
  • Þegar hlutirnir virðast ekki vera alveg að ganga upp er mikilvægt að sýna manneskjunni sem þú elskar virðingu og þolinmæði. Það getur gert mikið að brosa og sýna þakklæti.

Hvenær þarftu pottþétt á sambandsráðgjöf að halda?

Oft dregst það á langinn að leita til ráðgjafa. Þó er oft betra að grípa snemma í taumanna þegar vandamálin virðast hrannast upp. Það er engin skömm af því að leita til ráðgjafar og það sakar aldrei, jafnvel þó að sambandið gangi vel.

  • Annað ykkar er mjög óöruggt, þurfandi eða afbrýðisamt og þessir þættir eru að hafa alvarleg áhrif á sambandið.
  • Þið eruð bæði uppstökk og fýld í samskiptum ykkar á milli.
  • Ykkur báðum eða öðru hvoru ykkar líður eins og þið getið ekki rætt tilfinningar við hvort annað.
  • Samræður verða alltaf að rökræðum eða þrætum.
  • Annað ykkar er óhamingjusamt mest allan tíman.
  • Þið eruð hætt að stunda kynlíf.

Hvað kostar sambandsráðgjöf?

Hægt er að fara ýmsar leiðir í sambandráðgjöf en hér að neðan bendum við á nokkrar þeirra.

Ókeypis:

Önnur ráðgjöf: 

Heimildir:

Grein þýdd og staðfærð frá TheSite.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar