Hvernig virka bindingar (e. bondage)?

Einfaldasta skilgreiningin á bindingum er að hefta hreyfingar einhvers með einhverju móti. Margir hafa prófað smá lostaleiki með böndum. Það getur verið góð leið til að krydda kynlífið.
Mikilvægasta hlið bindinga er traust. Annar aðilinn er bundinn og þar með berskjaldaður og varnarlaus. Þið verðið að geta treyst hvoru öðru algjörlega, annars ættuð þið ekki að leika ykkur með bindingar. Virki þátttakandinn, sá sem bindur, má aldrei nota leikinn til þess að fullnægja sinni þörf eingöngu, heldur verður að vera meðvitaður um þarfir og óskir hins bundna.

Lestu meira um BDSM undir greininni Hvað er BDSM?

Af hverju heillast fólk að bindingum?

Fólk getur heillast af bindingum af alls kyns ástæðum. Að vera bundinn gefur þér frelsi til þess að slaka á og njóta atlota hins aðilans, án þess að þurfa að hugsa um að fullnægja þörfum hins aðilans á meðan. Að vera þiggjandi í bindingum er líkamleg birtingarmynd þess að færa öðrum völdin, sem er mikil traustsyfirlýsing. Aðrir lýsa adrenalínkikki. Að hafa bundið fyrir augun getur aukið skynjun hinna skynfæranna. Virka manneskjan, sú sem bindur, getur fundið fyrir aukinni valdatilfinningu, en hana má að sjálfsögðu aldrei misnota. Sumir eru að eltast við bjargarleysi. Sumir vilja alls ekki geta losað sig á meðan aðrir verða að finna að þeir geti það.

Samskipti eru lykilatriði

Ræðið saman fyrirfram um hvað þið hafið í huga og ætlið ykkur að gera.  Ræðið um hvað þið séuð til í og hvað þið eruð ekki til í. Þessi mörk eru heilög og má ekki fara yfir í leiknum. Farið yfir hvers konar orku þið viljið hafa í ástarleiknum; létt kitl og kelerí með bindingum eða meiri hörku.  Báðir (eða allir) aðilar þurfa að vera sammála og meðvitaðir um væntingar hinna og á sömu blaðsíðu áður en leikurinn er hafinn.
Umræðan fyrir leikinn er mjög mikilvæg og getur verið hluti af forleiknum.  Spyrjið ítarlegra spurninga. Það færir ykkur nær og hjálpar mótleikaranum við að skilja ykkar mörk og langanir.

Hvað þarf ég til að prófa bindingar?

Byrjum á því sem þú þarft ekki:

 • Þú þarft ekki að eiga Skátahandbókina til að læra alla hnútana.
 • Þú þarft ekki að vera búin(n) að rækta með þér ástríðu fyrir japönsku Shibari-líkamsbindingalistinni.
 • Þú þarft ekki að eiga fullan skáp af leðurfötum eða búnaði.
 • Þú þarft engan sérstakan búnað.
 • Þú þarft ekki einu sinni reipi!

Bindingar snúast ekki endilega um flókna hnúta og löng reipi. Það er hægt að nota bindi, belti af náttsloppi, sokkabuxur eða hálsklúta. Það þarf bara að vera nógu langt til að hægt sé að binda einfaldan hnút og nógu ómerkilegt til að virki þátttakandinn hiki ekki við að klippa bindiefnið ef eitthvað fer úrskeiðis.

Það sem þú þarft hinsvegar er:

 • Eitthvað sem heftir hreyfingar leikfélagans.
 • Sköpunargáfu.
 • Traust.
 • Uppátækjasemi.
 • Ævintýraþrá.
 • Þörf fyrir að skemmta þér.

Byrjið smátt

Byrjendur ættu að prófa sig áframí litlum skrefum. Hér eru hugmyndir:

 • Skiptist á að binda hvort annað með silkiklútum og kitla hvort annað eða erta með strokum, kossum, fjöðrum eða öðru. Athugið að hnútarnir herst og orðið óleysanlegir. Þá er mikilvægt að hafa oddlaus skæri við hönd.
 • Bindið leikfélagann með kreppappír eða öðru sem er auðvelt að brjótast út úr. Þá getur hann alltaf brotist úr fjötrunum þegar hann fær nóg. Þegar fullt traust hefur verið unnið getið þið fært ykkur í sterkari fjötra (samt alltaf eitthvað sem hægt er að klippa).
 • Bindið fyrir augu annars aðilans og stundið kynlíf, gefið nudd eða einfaldlega kelið.
 • Notið loðin handjárn. Loðin handjárn er hægt að fá í hjálpartækjaverslunum og eru mjúk þannig að þau meiða ekki og þrengja ekki of mikið að úlnliðunum (þannig að blóðflæði helst gott).
 • Þið getið leikið ykkur með kynlífsleikföng. Það getur verið ansi æsandi að vera með bundið fyrir augun og láta snerta sig með munum með mismunandi áferð. Kynlífsleikföng þurfa ekki að vera dýr sérleikföng úr Rómeó og Júlíu. Það er hægt að nota hluti sem eru til á heimilinu; gardínukögur, sílíkonmatarpensil, ísmola, sturtuhanska og fleira. Ekki samt nota sama matarpensil til að pensla kalkúninn og eiginmanninn.  Það er subbulegt.
 • Matur getur verið mjög æsandi. Ef þú ert bundinn og með bundið fyrir augu getur verið spennandi að vera mataður með ávöxtum, svo sem jarðaberjum, kíví eða mandarínum og svo má vel nota súkkulaðisósu eða karamellusíróp til að sleikja af hvoru öðru. Það kyndir undir skilningarvitunum að neyta matar blindandi. Munið bara að virða mörk leikfélagans. Það þykir kannski ekki mörgum sexý að tyggja á sardínum þegar þeir bjuggust við sætum ávöxtum.

Öryggisreglur

Það eru nokkur mál varðandi öryggi sem varða bindingar.  Ef þér finnst öryggið skorta, skaltu sleppa því að taka þátt.

 • Bindingar eru ekki eitthvað sem þú prófar með einhverjum sem þú ert að hitta í fyrsta skipti. Það er mikilvægt að þú þekkir aðilann og getir treyst honum, hversu sjarmerandi sem hann kann að vera við fyrstu sýn.
 • Aldrei láta maka eða leikfélaga þvinga þig eða neyða í nokkurs konar ástarleik sem þig langar ekki að taka þátt í. Það er í góðu lagi að segja nei. Allir makar eiga að sýna því skilning.
 • Talið ykkur saman um öryggisorð áður en þið hefjið leikinn. Öryggisorð er orð sem hvor aðili um sig getur notað hvenær sem er til þess að stöðva leikinn og leysa þann bundna. Besta öryggisorðið er einfaldlega “stopp”, en ef að leikurinn krefst þess að ekki er hægt að nota “stopp” sem öryggisorð þá er hægt að finna annað. Athugið að það er ekkert sniðugt að nota erfið eða óminnistæð öryggisorð eins og kemur stundum fram í kvikmyndum.  Supercalifragilisticexpialidoceous er ekki sniðugt öryggisorð. Algeng öryggisorð eru t.d. rautt fyrir stopp, gult fyrir smá pásu og grænt fyrir: “Ég vil miklu meira!”.
 • Öryggisorð gildir fyrir alla. Bæði bindarar og bandingjar hafa mörk sem ber að virða á báða bóga. Það hafa allir rétt á að stöðva leik í miðju kafi ef eitthvað er ekki að virka rétt eða ef upplifunin er óþægileg.
 • Það er á ábyrð þess sem bindur að fylgjast með vellíðan þess sem er bundinn.
 • Það er á ábyrð þess sem er bundinn að láta vita ef eitthvað er að.
 • Verið alltaf með skæri við höndina, sem ekki eru með beittum oddi.  Það er hægt að fá góð skæri með rúnuðum könntum í næsta apóteki eða hjá BDSM á Íslandi.
 • Aldrei binda utan um háls neins, nema það sé með öruggri hálsól sem er sérstaklega gerð fyrir slíkar athafnir. Hættan á vefjaskemmdum, kæfingu eða banvænni köfnun er mikil. Keflingar geta einnig verið varasamar, svo farið varlega.
 • Athugið að handjárn, loðin eða ekki eru hættuleg. Þau sem fást í hjálpartækjaverslununum eru ódýr framleiðsla sem eru ekki búin öryggislás sem kemur í veg fyrir að þau herðist meira þegar leikurinn er hafinn. Aðalgallinn við handjárn er hætta á taugaskemmdum.  Leður eða nælon fjötrar eru mun öruggari en málmhandjárn.
 • Ef einhver er bundinn má aldrei skilja hann einan eftir.  Virki þátttakandinn verður að ganga úr skugga um að hinum bundna líði vel, geti andað vel og að ekkert stöðvi blóðflæði.
 • Ekki stunda bindingar langt frá mannabyggðum, því að ef að slys gerist verður að vera hægt að ná í hjálp.
 • Ef þú hefur aldrei prófað bindingar áður, ekki skella þér strax í bindingar með flóknum búnaði. Það er fyrir reynt fólk sem hefur góða yfirsýn yfir öll öryggisatriði.
 • Öruggt kynlíf er alltaf nauðsynlegt. Notið smokkinn. Alkóhól og eiturlyf geta valdið því að þú vanmetur öryggisáhættur. Ekki vera undir áhrifum.

Heimildir:

 • Mynd: Forynja
 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar