Flest höfum við lent í því að vera boðið í partý þar sem við þekkjum ekki marga. Einstaklingar eru misöruggir í þessum aðstæðum en eftirfarandi ráðleggingar geta hjálpað öllum, hvort sem þú mætir til að sýna lit eða gagngert til að kynnast nýju fólki.
Hugsaðu út í hvenær þú vilt mæta.
Ef þú mætir snemma gætir þú lent í því að það verða ekki margir komnir sem þú getur talað við. Þar að auki gætir þú hreinlega verið fyrir ef það er ekki búið að setja allt upp, nema náttúrulega þú hjálpir til 😉
Talandi um að hjálpa til…
Það er góð leið til að kynnast nýju fólki. Það verða jafnvel fleiri en þú sem hafa boðið fram hjálparhönd og þú getur kynnst þeim aðeins áður en restin mætir.
Farðu úr yfirhöfninni þegar þú kemur inn.
Þá lítur þú út fyrir að vera rólegri og gefur til kynna að þú ætlir að eyða einhverjum tíma í partýinu.
Reyndu að brosa og heilsa fólki.
Þrátt fyrir það að það sé kannski svolítið stress í þér. Kurteisisleg heilsa og bros er alltaf betra en að gefa sig ekki að fólki, jafnvel þó eitthvað fari úrskeiðis. Fólk fær þá á tilfinninguna að þú takir þig ekki of alvarlega og sért til í að spjalla síðar meir.
Spyrðu frekar opinna spurninga en já/nei spurninga.
Flestu fólki finnst gaman að tala um sjálft sig og útskýra sín sjónarmið. Passaðu þig samt að samtalið verði ekki að yfirheyrslu, þú verður að leggja eitthvað til málanna líka. Það er frábært ef það næst flæði í samtalinu þar sem einstaklingarnir geta gefið af sér og hlustað og samtalið fer áreynslulaust úr einu yfir í annað.
Ekki festa þig á eina manneskju.
Það getur verið þægilegra að halda sig við einhvern sem þú þekkir en það er líka gott fyrir ykkur að taka smá pásu. Það gefur ykkur báðum tækifæri til þess að eiga fjölbreyttari samskipti og kynnast fleirum. Það er ekki þar með sagt að þú getir ekki fundið viðkomandi aftur síðar um kvöldið.
Fleiri ráð:
- Mundu að mörg finna fyrir stressi í partýi og fólk verður ánægt ef þú spjallar við það að fyrra bragði, það tekur pressuna af þeim.
- Reyndu að muna nöfn þeirra sem þú ert að tala við.
- Ef þú kynntist frábærri manneskju sem þig langar að hanga oftar með, ekki gleyma að skiptast á símanúmerum, Facebook, Instagram eða hvað sem hjálpar þér að vera í sambandi við viðkomandi aftur.
Athugið að þrátt fyrir að vera langur þá er listinn ekki tæmandi! Hér er líka um ráðleggingar að ræða þrátt fyrir að listinn sé skrifaður í boðhætti.
Mundu að:
Æfingin skapar meistarann. Að blanda geði við fólk er ekki ósvipað því að þjálfa vöðva, þetta kemur allt með æfingunni og verður áreynslulausara því oftar sem það er gert.
Heimildir:
The Mix
Reynsla starfsmanna Áttavitans
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?