Að takast á við sambandsslit

Skilnaður og sambandsslit geta verið eitt það erfiðasta sem fólk gengur í gegnum. Getur slíkt sett allt lífið úr skorðum og hrundið af stað fjölmörgum erfiðum hugsunum og tilfinningum. Venjur í daglegu lífi taka skyndilega miklum stakkaskiptum og öll rútína getur riðlast til. Hugsanir á borð við þær hvernig lífið verði án hins aðilans, hvort maður finni einhvern annan eða hvort maður verði alla tíð einn geta jafnvel verið erfiðari en tilhugsunin um að halda áfram í erfiðu sambandi. Þegar fólk gengur í gegnum sambandsslit er mikilvægt að það hlúi vel að sér og geri allt sem það getur til að láta bataferlið ganga sem best.

Gott er að hafa eftirfarandi í huga . . .

 • Að hugsa um tilfinningar sínar og gefa þeim gaum, frekar en að loka á þær. Stundum er gott að leyfa sér að vera reiður, leiður, sorgmæddur, hræddur og óöruggur með sig. Allar slíkar tilfinningar eru eðlilegar. Líka höfnun og afbrýðisemi. Með tímanum eiga þessar upplifanir það til að dofna.
 • Allra fyrstu dagarnir eru erfiðastir og þetta getur tekið mikla orku. Fólk getur upplifað mikla þreytu. Mikilvægt er að hlúa vel að sér.
 • Ekki er ráðlagt að ganga í gegnum þetta einsamall eða loka sig af. Að minnsta kosti ekki til langs tíma. Gott er að ræða tilfinningar sínar við vini og fjölskyldu, eða fagmann, t.d. sálfræðing.
 • Sorg er eðlilegt viðbragð við missi og við sambandsslit getur orðið margskonar missir. Maður missir ekki aðeins félagsskap ástvinar síns, heldur einnig stuðning; tilfinningalegan, félagslegan og jafnvel fjárhagslegan. Oft missir maður líka samband við fólk sem maður þekkti í gegnum viðkomandi. Þá breyta sambandsslit oft framtíðarsýn fólks, en það þarf alls ekki að vera slæmt.

Öl er böl

Það hjálpar ekki að drekka sorgum sínum í áfengi. Gott er að hugsa vel um heilsuna, sofa vel, næra sig og hreyfa sig. Mikilvægt er að minna sjálfan sig á að framtíðin er enn fyrir höndum og hún ber margt spennandi í skauti sér.

„Rebound“ getur verið varasamt

Sumir henda sér út í nýtt samband, eða mikið kynlíf, þegar þau eru að vinna sig út úr sambandsslitum. Hafa skal í huga að það er mjög ósanngjarnt gagnvart „nýja fólkinu“ að nota það í þeim tilgangi að jafna sig á sambandi við einhvern annan.

Að brjóta upp daginn

Á þessum tímapunkti í lífi fólks er um að gera að prófa eitthvað nýtt. Það getur verið hvað sem er, t.d. að fara á eitthvað spennandi námskeið, nú eða bara prófa nýjan veitingastað í bænum með einhverjum félaga. Einnig getur verið gagnlegt að hitta nýtt fólk og vera í aðstæðum sem minna mann ekki endilega á sambandið.

Koma hlutum í verk

Á tímum sem þessum er gott að vera dálítið framtakssamur og gera hluti sem maður getur verið stoltur af. Þó er ekki átt við að maður eigi að sökkva sér í vinnu og verkefni til að forðast það að horfast í augu við tilfinningar sínar. Heldur er átt við að reyna að leyfa lífinu að ganga sinn vanagang: einbeita sér að nýjum verkefnum og dvelja ekki of mikið við liðna tíma.

Síðar meir…

Þegar smá tími er liðinn og maður hefur komist yfir sambandið að mestu er mikilvægt að gera dálitla sjálfsskoðun; horfa til baka og vita hvort maður geti lært eitthvað af reynslunni. Maður þarf að horfast í augu við sinn þátt í sambandsslitunum og vita hvort maður sé nokkuð að endurtaka sömu mistökin aftur og aftur.

Hér eru nokkrar spurningar sem gagnlegt gæti verið að velta fyrir sér:

 •  Eiga fyrrverandi sambönd eitthvað sameiginlegt?
 •  Eiga fyrrverandi makar eitthvað sameiginlegt?
 •  Er ég að endurtaka einhverja hegðun sem leitt hefur endurtekið til sambandsslita?
 •  Tek ég fólki eins og það er, eða er maður sífellt að reyna að breyta því?
 •  Hvernig tekst ég á við erfið samskipti?
 •  Hvernig tekst ég á við streitu, kvíða og erfiðleika?
 •  Hvernig er sjálfsmyndin mín og sjálfsvirðingin?
 •  Hverju get ég breytt til batnaðar?
 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar