Hvað er sjálfboðavinna?

Sjálfboðavinna felur í sér ólaunað starf sem einstaklingur velur sjálfur að sinna. Almenningur nýtur góðs af starfi sjálfboðaliða. Sjálfboðaliðastörf eru oft unnin af frjálsum félagasamtökum í kringum ákveðinn málstað.

Af hverju að gerast sjálfboðaliði?

Fólk fer í sjálfboðaliðastörf af ýmsum ástæðum. Mörgum finnst starfið áhugavert og gefandi, aðrir vilja láta gott af sér leiða og enn aðrir kjósa frekar að vinna ólaunaða vinnu en að sitja heima iðjulausir. Flestir eru þó með það á bak við eyrað að afla sér reynslu og bæta við ferilskrána. Sjálfboðaliðastarf getur nefnilega verið lærdómsríkt og þroskandi.

Hvar er hægt að gerast sjálfboðaliði?

Fjöldamörg félög og samtök reiða sig á þátttöku sjálfboðaliða í starfi sínu. Hér að neðan má finna dæmi um nokkur slík:

  • Rauði Kross Íslands býður upp á fjölbreytilegt sjálfboðaliðastarf. Um 3000 manns starfa á vegum félagsins við ýmis konar störf, allt frá því að vinna með innflytjendum og félagslega einangruðu fólki og yfir í að prjóna og hekla. Upplýsingar má nálgast á heimasíðu samtakanna.
  • Alþjóðleg hjálparsamtök á Íslandi þurfa oft á sjálfboðaliðum að halda. Til að mynda er hægt er að hafa samband við Amnesty International og UNICEF og sjá hvort sjálfboðaliða vantar í tiltekin verkefni hjá þeim.
  • Björgunarsveitirnar byggja allt sitt starf á sjálfboðaliðum. Starfið er krefjandi en skemmtilegt. Best er að hafa samband við Slysavarnafélagið Landsbjörg og fá þaðan upplýsingar um hvernig hægt er að gerast meðlimur í björgunarsveit.
  • Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands þurfa oft á starfskröftum að halda. Best er að hafa samband í gegnum síma.
  • Dýrahjálp Íslands þarf reglulega á sjálfboðaliðum að halda. Hægt er að skrá sig sem sjálfboðaliða í atburðahóp á vefsíðu samtakanna.
  • Samhjálp veitir aðstoð til einstaklinga sem hafa farið út af sporinu í lífinu. Best er að hafa samband við skrifstofu félagsins og sjá hvort sjálfboðaliða vantar í einhver verkefni.
  • Hjálparstarf kirkjunnar þarf reglulega að leita til sjálfboðaliða í starfi sínu. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu félagsins.
  • ABC-barnahjálp nýtir oft sjálfboðaliða í starfi sínu. Hægt er að hafa samband í gegnum síma eða tölvupóst.
  • Krabbameinsfélagið þarfnast oft sjálfboðaliða í verkefnum sínum. Best er að hafa samband við skrifstofu samtakanna og athuga hvernig hægt sé að taka þátt.
  • Hjálpræðisherinn er kristilegt félag sem byggir starf sitt á sjálfboðaliðum. Upplýsingar má nálgast á Facebook síðu Hersins.

Annað félagsstarf

Fjöldi félagasamtaka í kringum áhugamennsku, málstaði og hugsjónir af ýmsu tagi eru starfrækt hér á landi. Áttavitinn hefur safnað félögunum saman í vitanum „Samfélagið“.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar