Margir hafa misst vinnuna undanfarna mánuði vegna COVID-19 eða þurft að fara á skert starfshlutfall. Gríðarlegt álag hefur verið á Vinnumálastofnun (VMST) síðustu mánuði og mun það ekki minnka á næstunni, sérstaklega þegar fjöldi fólks er að klára uppsagnarfrestinn sinn.

Biðtíminn á umsóknum til atvinnuleysisbóta hjá VMST er kominn upp í 8 vikur og því er mikilvægt að sækja um sem fyrst ef þú ætlar að nýta það úrræði.

Hægt er að fá allar nánari upplýsingar á heimasíðu VMST.

Hvert á ég að leita varðandi fjárhagsaðstoð yfir þennan biðtíma?

Eins og áður kom fram getur biðtími á atvinnuleysisbótum hjá VMST verið allt að tveir mánuðir. Einstaklingar sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum geta leitað til þjónustumiðstöðva í sínu hverfi ef bið er á afgreiðslu frá VMST. Aðstoð er veitt í formi láns sem endurgreiðist þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar. Allar tekjur sem einstaklingur er með koma til frádráttar framfærslulánsins, horft er til tekna mánaðarins á undan í því sambandi.

Tekjur og eignir hafa áhrif á rétt til fjárhagsaðstoðar og er hvert mál skoðað sérstaklega. Nánari upplýsingar ásamt lista yfir þjónustustöðvarnar má finna hér.

En ef ég uppfylli ekki skilyrði fyrir atvinnuleysisbætur?

Þeir sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum hjá VMST geta sótt um fjárhagsaðstoð hjá Félagsþjónustunni, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Einstaklingar sem hafa engar tekjur geta átt rétt á fjárhagsaðstoð. Einstaklingar eru annaðhvort vinnufærir eða óvinnufærir.

Vinnufærir einstaklingar þurfa að skila inn staðfestingu á að minnsta kosti fjórum störfum sem þeir hafa sótt um í hverjum mánuði og skrá sig hjá Vinnumálastofnun.

Óvinnufærir einstaklingar þurfa að skila inn læknisvottorði sem staðfestir óvinnufærni þeirra.

Allir sem sækja um fjárhagsaðstoð er gert að skila inn staðfestingu á því að þeir eigi ekki rétt í öðrum kerfum, svo sem atvinnuleysisbótum frá Vinnumálastofnun, sjúkradagspeningum frá stéttarfélagi og Sjúkratryggingum Íslands.

Tekjur og eignir hafa áhrif á rétt til fjárhagsaðstoðar. Hvert mál er skoðað sérstaklega.

Hægt er að sækja um rafrænt hér. Einnig er hægt að hafa samband við ráðgjafa á viðeigandi þjónustumiðstöð.

Yfirvofandi breytingar hjá Vinnumálastofnun

Það verða líklegast einhverjar breytingar hjá VMST á næstunni til að bregðast við auknu atvinnuleysi. Frumvarp er á leiðinni í gegnum þingið og bundnar eru vonir við að það gefi fleiri úrræði til að takast á við núverandi aðstæður.

Áttavitinn mun taka þessar breytingar fyrir þegar þær liggja fyrir, en við hvetjum fólk einnig til að fylgjast vel með heimasíðu VMST og öðrum fréttum varðandi þróun þessara mála.

Viltu fá frekari aðstoð í atvinnuleitinni?

Í Hinu Húsinu starfa sérfræðingar í atvinnumálum sem aðstoða ungmenni á aldrinum 16 til 25 ára við að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

Öll þjónusta er ókeypis!

Þar getur þú meðal annars fengið markvissa ráðgjöf í atvinnuleitinni og öllu sem henni tengist, eins og t.d.:

  • Gerð ferilskráar.
  • Fengið upplýsingar um hvar hægt sé að sækja um vinnu.
  • Hvernig eigi að gera kynningarbréf með atvinnuumsókn.
  • Undirbúningur fyrir atvinnuviðtöl,
  • Aðstoð við að finna út þitt áhugasvið og hvernig þú setur þér markmið.
  • Skoða leiðir til þess að ná markmiðum þínum.

Þú getur pantað ráðgjöf á atvinnumal.hitthusid@reykjavik.is, á heimasíðu Hins Hússins eða í síma 411-5500.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar