Hvað eru húsnæðisbætur?

Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur til leigjenda á leigumarkaði Húsnæðisbætur eru að hámarki 32.460 krónur fyrir einstakling og eru skattfrjálsar. Þær hækka ef fleiri búa á heimilinu en skerðast við hærri samanlagðar tekjur og eignir heimilisfólks. Reiknivél til að sjá hversu háa upphæð þú átt rétt á er hér.

Hvernig er sótt um húsnæðisbætur?

Sótt er um húsnæðisbætur rafrænt á mínum síðum inn á Ísland.is Til þess að eiga rétt á húsnæðisbótum þarf umsækjandi að vera 18 ára og aðili að þinglýstum húsaleigusamning til minnst þriggja mánaða. Sá sem sækir um bætur þarf að hafa lögheimili í leiguhúsnæðinu og búa þar.

Undantekning á þessu er leiga á húsnæði vegna náms, veikinda, dvalar á áfangaheimili eða tímabundinnar vinnu fjarri lögheimili. Leigusamningur þarf ekki að vera þinglýstur ef um er að ræða heimavist, stúdentagarða eða húsnæði í eigu ríkis eða sveitarfélags. Þó þarf alltaf að vera skriflegur leigusamningur til staðar.

Húsnæðisbætur hétu áður húsaleigubætur, þær hafa hækkað og nú er sótt um rafrænt hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Leighúsnæðið þarf að hafa sér svefnherbergi, sér eldhús og sér baðherbergi. Undantekningar á þessum skilyrðum eru t.d. þegar námsmenn leigja á heimavistum og stúdentagörðum.

Aðrir íbúar þurfa ekki að vera 18 ára en þurfa að hafa búsetu og lögheimili í leiguhúsnæðinu. Börn geta talist til heimilis hjá báðum foreldrum eða forsjáraðilum.
Íbúar 18 ára og eldri þurfa að gefa samþykki sitt til upplýsingaöflunar frá stofnunum eins og Ríkisskattstjóra, sveitarfélögum og Þjóðskrá svo hægt sé að reikna út rétta upphæð.

Húsnæðisbætur eru ekki greiddar ef:

  • Ef umsækjandi eða aðrir heimilismenn sem umsókn tekur til eru á sama tíma skráðir til heimilis í öðru íbúðarhúsnæði í annarri umsókn um húsnæðisbætur sem hefur verið samþykkt.
  • Ef leiguhúsnæði er ætlað til annarra nota en íbúðar eins og t.d. atvinnuhúsnæði.
  • Vegna leigu á hluta úr íbúð eða einstökum herbergjum. Þetta á ekki við um sambýli námsmanna á heimavistum eða námsgörðum.
  • Ef einhver heimilismanna á rétt á vaxtabótum.
  • Ef einhver heimilismanna er eigandi að leiguíbúðinni eða á ráðandi hlut í félagi sem á viðkomandi íbúð.
  • Þegar húsnæðisbætur eru þegar greiddar vegna sama íbúðarhúsnæðis.

Skiptir máli hvað ég er með miklar tekjur?

Húsnæðisbætur eru bæði tekju- og eignatengdar og geta að hámarki numið 75% af leiguupphæð. Húsnæðisbætur skerðast um 9% af samanlögðum tekjum umfram frítekjumörk. Bæði upphæð húsnæðisbótanna og frítekjumörkin hækka eftir því sem heimilismenn eru fleiri.
Grunnfjárhæð húsnæðisbóta lækkar um upphæð sem nemur hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna 18 ára og eldri sem fara umfram 8.000.000 kr. þangað til bæturnar falla niður þegar eignir nema samanlagt hærri upphæð en 12.800.000 kr.

Þessi reiknivél sýnir þér þá upphæð sem þú átt rétt á.

Hvenær og hvernig fæ ég húsnæðisbætur greiddar?

Húsnæðisbætur eru greiddar út næsta mánuð eftir að umsókn hefur verið samþykkt. Húsnæðisbætur eru greiddar út fyrsta dag hvers mánaðar og eru greiddar fyrir leigutímabil síðasta mánaðar. Ef umsókn er móttekin 15. janúar 2022, en leigusamningur er frá 1. janúar 2022, þá er greitt fyrir allan janúar.
Húsnæðisbætur eru ekki greiddar lengra aftur í tímann en þann mánuð sem umsóknin er móttekin.

Húsnæðisbætur eru lagðar inn á uppgefinn reikning umsækjanda fyrsta dag hvers mánaðar eftir að umsókn hefur verið samþykkt. Einnig er hægt að gefa upp bankareikning leigusala en þá fara bæturnar beint inn á þann reikning.

Þarf að sækja um aftur ef flutt er í nýtt húsnæði?

Já. Umsækjandi með gilda umsókn um húsnæðisbætur þarf að sækja um aftur ef hann flytur í nýtt húsnæði. Heimilisfólk sem flytja í nýtt húsnæði þurfa jafnframt að tilkynna um breytingar til Vinnumálastofnunar þegar þeir flytja. Ef nýr heimilismaður flytur inn þarf einnig að tilkynna það.

Húsnæðisbótum er sagt upp með því að skrá sig inn á mínar síður og velja þar „segja upp umsókn.“ Þar þarf að setja inn dagsetningu á leigulokum ásamt því að velja skýringu.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar