Hversu háar eru atvinnuleysisbætur?
Árið 2023 eru fullar, eða 100%, atvinnuleysisbætur 331.298 kr. á mánuði. Ef fólk á ekki fullan bótarétt reiknast atvinnuleysisbætur í prósentum af þessari upphæð.
Hverjir geta fengið atvinnuleysisbætur?
Fólk þarf að vera orðið 18 ára til að fá atvinnuleysisbætur. Þau sem hafa verið í fullri vinnu í eitt ár eða lengur eiga rétt á 100% atvinnuleysisbótum. Þau sem hafa starfað í fullri vinnu í samtals 12 mánuði á síðustu 36 mánuðum eiga líka rétt á fullum atvinnuleysisbótum. Styttra tímabil eða minna starfshlutfall veitir rétt til atvinnuleysisbóta upp að ákveðnu hlutfalli.
Best er að hugsa þetta eins og ramma sem þarf að fylla upp í
Til að öðlast fullan atvinnuleysisbótarétt þarf fólk að hafa unnið fullt starf í 12 mánuði á síðustu 36 mánuðum, eins og fyrr segir. Hafi fólk t.a.m. verið í 100% sumarvinnu í 3 mánuði á hverju ári telur það samtals 9 mánuði í fullu starfi. Það eitt og sér veitir 75% bótarétt – því 9 er 75% af 12. Eins geta hlutastörf hér og þar aukið bótaréttinn. Þegar sótt er um atvinnuleysisbætur er því best að fá upplýsingar frá öllum vinnuveitendum sínum síðustu 3 árin – því allt þetta telur!
Hvernig er sótt um atvinnuleysisbætur?
Byrjað er á því að fara inn á vef Vinnumálstofnunar og smella á „Atvinnuleysisbætur“ undir því sem stendur „Umsóknir“. Þá þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli.
Þegar búið er að skrá sig inn á vefinn þarf að skila inn viðeigandi gögnum til Vinnumálastofnunar. Þessi gögn eru meðal annars:
- vottorð frá vinnuveitendum sem unnið hefur verið hjá undanfarin 1 til 3 ár.
- staðfesting á skólavist, hafi fólk lokið námi á þessu tímabili.
- Skattkort.
Hér má nálgast nánari upplýsingar um þau fylgigögn sem skila þarf inn með umsókninni.
Atvinnuleysisbætur að loknu námi
Þegar fólk er nýkomið úr námi er bótaréttur skoðaður með tilliti til vinnusögu undanfarna 72 mánaða. Fullt nám í 6 mánuði á undanförnu ári telst sem 13 vikur í fullri vinnu, eða rúmir 3 mánuðir. Þó er nauðsynlegt að hafa lokið náminu OG hafa verið í vinnu í að minnsta kosti 3 mánuði á því tímabili. Námsmenn hafa ekki atvinnuleysisbótarétt á milli anna. Þau sem hætta í námi þurfa að bíða í 2-3 mánuði eftir því að öðlast bótarétt. Þau geta þó sótt um framfærslustyrk frá sveitarfélagi á meðan. Nánar má lesa um bótarétt námsmanna á vef Vinnumálastofnunar.
Hverjir hafa ekki atvinnuleysisbótarétt?
- Aðeins þau sem eru fær um að vinna eiga rétt á atvinnuleysisbótum.
- Hafi fólk ekki verið á vinnumarkaði síðustu 3 ár á það ekki rétt á atvinnuleysisbótum.
- Þau sem þiggja ellilífeyri eða örorkubætur eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum.
- Þau sem eru á endurhæfingarlífeyri eða sjúkradagspeningum frá Tryggingastofnun eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum.
- Þau sem hafa hlotið dóm og verið sviptir frelsi hafa ekki rétt á atvinnuleysisbótum.
- Þau sem fá greitt úr fæðingarorlofssjóði eða greitt með langveikum börnum eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum.
- Námsmenn í fullu námi hafa almennt ekki atvinnuleysisbótarétt. Fólk á atvinnuleysisbótum getur þó fengið leyfi til að sækja ákveðið nám, en slíkt þarf að vera samþykkt af Vinnumálastofnun.
Verktakar og atvinnuleysisbótaréttur
Þau sem starfa sjálfstætt sem verktakar eiga takmarkaðan rétt á atvinnuleysisbótum. Samanlagðar árstekjur eru reiknaðar sem ákveðið vinnuhlutfall og þannig geta þau átt rétt á bótum að hluta. Til að fá atvinnuleysisbætur þarf að leggja niður vasknúmer og skrá sig af launagreiðendaskrá hjá Ríkisskattstjóra.
Bætur frá félagsþjónustu sveitafélaga
Þau sem fá atvinnuleysisbætur að hluta geta í mörgum tilfellum fengið greiddar bætur frá sveitarfélagi á móti. Til að kanna rétt sinn á slíkum greiðslum er nauðsynlegt að snúa sér til þjónustumiðstöðvar í sínu hverfi.
- Frekari upplýsingar um fjárhagsaðstoð sveitafélaganna má finna hér á Áttavitanum.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?