Fasteignaskráning

Þegar að íbúð er byggð er hún skráð hjá Fasteignaskrá Íslands og fær þar ákveðna skilgreiningu (íbúðarhúsnæði, verslunarhúsnæði, o.s.frv.). Sá sem sér um þessa skráningu er byggingarfulltrúi viðkomandi sveitafélags (t.d. Byggingarfulltrúi Reykjavíkur).

Hvaða skilyrði þurfa íbúðir að uppfylla til að vera samþykktar íbúðir?

Til eru lög og reglugerðir sem fjalla um skráningu og mat fasteigna. Eins og algengt er með lagatexta þá er þetta ekki sett fram á sem einfaldasta máta. Betra er að skoða byggingarreglugerð þar sem listuð eru upp ákveðin atriði sem eru nauðsynleg í íbúðarhúsnæði eins og til að mynda lágmarkshæð. Byggingarfulltrúi skoðar húsnæðið út frá þessum lögum og reglugerðum og ef að íbúðin uppfyllir skilyrðin að hans mati verður hún samþykkt sem íbúðarhúsnæði.

Ósamþykktar íbúðir

Þær íbúðir sem uppfylla ekki skilyrði sem sett eru fram í lögum og reglugerðum samkvæmt mati byggingafulltrúa eru skilgreindar sem ósamþykktar. Ástæður þessa geta verið margskonar til dæmis ef fasteignin ekki í skilgreindri íbúðabyggð, engir gluggar eru í íbúðinni eða hún án baðherbergis. Mörg önnur atriði skipta máli þegar verið er meta íbúðarhúsnæði og er hægt að lesa þau í byggingarreglugerðum.

Hvað ef maður býr í ósamþykktri íbúð

Leigjendur í ósamþykktum íbúðum eiga rétt á húsaleigubótum en einungis ef húsnæðið uppfyllir ákveðin skilyrði. Aftur á móti veitir íbúðalánasjóður ekki lán til íbúðakaupa ef íbúðin er ósamþykkt og sumir bankar eru með svipuð skilyrði.

Hvað ber þá að hafa í huga?

Ef stefnt er á að kaupa eða leigja íbúð er gott að athuga skráningarstöðu íbúðarinnar hjá Fasteignaskrá Íslands. Komi í ljós að íbúðin sé ósamþykkt þarf athuga hvort að það hafi mögulega einhver áhrif á stöðu þína sem húsnæðiskaupandi eða leigjandi.

Nokkur skilyrði fyrir samþykktu húsnæði samkvæmt núgildandi byggingareglugerð

 • Við öll fjölbýlishús með 6 íbúðum eða fleiri skal vera 1 gestabílastæði sem henti þörfum fatlaðra auk þeirra stæða sem eru fyrir sérhannaðar íbúðir fyrir fatlaða í húsinu.
 • Hverju íbúðarhúsi skal fylgja leiksvæði barna á lóð. Byggingarnefnd getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði utan íbúðarsvæða.
 • Lofthæð í fullfrágengnum íbúðarherbergjum skal ekki vera minni en 2,50 m að innanmáli.
 • Í íbúðarhúsum skal hæð af gólfi á gólf vera a.m.k. 2,70 – 2,80 m, sbr. ÍST 21
 • Í geymslum, inntaks- og kyndiklefum o.þ.h. húsnæði skal lofthæð ekki vera minni en 2,20 m
 • Hverfigluggar mega ekki vera nær gólfi en 1,0 m og stillanlegt op ekki stærra en 0,12 m.
 • Aðkoma að salerni má ekki vera beint úr stofu, eldhúsi eða borðstofu, nema í íbúðum sem eru 50 m2 eða minni. Hún má heldur ekki vera frá svefnherbergi, nema annað salerni sé í íbúðinni.
 • Hverri íbúð skal fylgja loftræst sérgeymsla. Í fjölbýlishúsum skal sýna á uppdrætti hvaða sérgeymsla fylgir hverri íbúð og tiltaka stærð hverrar geymslu.
 • Þvottaherbergi skal fylgja hverri íbúð, sjá þó gr. 92. Gólf þvottaherbergis skal vera vatnshelt með niðurfalli og þannig frá gengið að ekki skapist hættuleg hálka þegar það blotnar. Loft og veggir skulu þola gufu og raka. Þvottaherbergi skal vera loftræst um opnanlegan glugga eða með vélrænni loftræsingu. Lágmarksstærð þvottaherbergis fyrir íbúð er 3 m2.
 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar