Er allt í steik?
Eru að koma gestir og allt er í óreiðu heimafyrir? Langar þig að taka smá til en tíminn til stefnu er takmarkaður? Hér fyrir neðan má finna nokkur ráð við því.
Það sem þú þarft:
- Ilmvatn/kerti
- Þvottakörfu
- Tusku
- Ryksugu
Það sem þarf að gera:
Athugið: Þessi listi er skrifaður þannig að það mikilvægasta er efst. Byrjaðu á númer eitt og vinndu þig niður listann. Það er alls ekkert hundrað í hættunni ef þú nærð ekki að klára öll atriðin.
Ef allt annað bregst: Hvað er smá drasl á milli góðra vina?
- Taktu til. Allt dót og drasl er gott að taka af borðum og ganga frá. Ef ekki gefst tími til þess að setja allt á réttan stað, má nota þvottakörfuna og setja hana síðan í lokað herbergi.
- Loftaðu út. Opnaðu glugga og hurðar til að fá ferskt loft í húsið. Þá má einnig spreyja smá ilmvatni eða ilm fyrir heimilið, nota ilmkerti eða jafnvel reykelsi. Aðal atriðið er þó alltaf að lofta vel út.
- Gerðu stofuna fína. Þurrkaðu af þar sem þú gerir ráð fyrir að eyða tíma með gestinum. Einblíndu á að allt sé þokkalega hreint þar.
- Gerðu sjálfa/n þig til. Ekki gleyma því að gestur þinn kemur til með að horfa meira á þig heldur en húsgögnin. Ef þér finnst þú þurfa þess, skiptu þá um föt, greiddu á þér hárið og settu á þig svitalyktareyði.
- Lagaðu til á baðherberginu. Líklegt þykir að gestur þinn nýti sér baðherbergið og því er ágætt að fara yfir það aðeins. Athugaðu hvort þú gleymdir nokkuð nærfötum á gólfinu, kíktu ofan í klósettið og sjáðu hvort það þarfnast aðhlynningar. Þá er gott að þurrka af klósettskál, vaski og spegli.
- Vaskaðu upp. Settu í vélina ef þú átt hana, vaskaðu annars upp. Ef ekki gefst tími í það má alltaf setja meirihluta uppvasksins í vaskinn, þá fer ekki eins fyrir því.
- Ryksugaðu. Einblíndu á allra mikilvægustu svæðin í húsinu og ryksugaðu einungis eins og tíminn leyfir.
Er alltaf allt í drasli?
Heimildir
Greinin er byggð á þessari grein frá the spruce og reynslu höfundar.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?