Einföld en nákvæm aðferð til að hreinsa klósett í nokkrum skrefum

1Spreyjaðu klósettið

Byrjið á að spreyja annað hvort hreinsiefni eða dreifa hreinsikremi/-púðri (t.d. Ajax í úðaformi, Cif baðherbergiskremi, Ajax hreinsidufti eða Scrubstone frá  Bónus) efst á klósettskálina, undir setunni og þar í kring. Best er að bleyta aðeins upp í efninu og leyfa því að standa í smá stund svo að efnið leysi upp óhreinindin.

2Settu hreinsiefni í skálina

Svo skal setja klósetthreinsi ofan í klósettskálina, til að mynda klósetthreinsi frá CIF, það stendur oftast á þeim “toilet cleaner” eða toilet renser” -það er mjög gott að taka hreinsi sem inniheldur klór. Best er að setja hreinsinn innan á alla klósettskálina svo hún dreifist vel um skálina.

3Skrúbbaðu!

Næst er tekinn blautur svampur (hægt að fá marga einnota í pakka í helstu matvörubúðum) og óhreinindin skrúbbuð í burtu með grófu hliðinni á svampinum.

4Strjúktu vel

Því næst er klósettið strokið með blautri tusku (mjög gott að nota örtrefjaklút sem fæst í helstu matvöruverslunum) að innan sem utan en ekki ofan í klósettskálina þó.  Athugið að það er nóg að bleyta tuskuna með vatni, -það er óþarfi að nota sápu því nú þarf að þrífa sápuna af.

5Burstaðu!

Að lokum kemur rúsínan í pylsuendanum, klósettburstinn! Hann er notaður á svipaðan hátt og tannbursti og skálin skrúbbuð vel og vandlega að innan.  Athugið að leggja sérstaka áherslu á svæðið þar sem vatnsyfirborðið er því þar myndast oft gul lína.

Önnur góð klósettráð:

  • Setjið matarsóda í klósettskálina og látið liggja yfir nótt til að losna við gulu línuna sem getur myndast ofan í klósettskálinni hjá vatnsyfirborðinu. Athugið að stundum þarf að endurtaka leikinn nokkrum sinnum til að sjá árangur.
    Annars er hægt að kaupa sérstakan kalkleysi fyrir baðherbergi í helstu byggingarvöruverslunum, sem þjónar sama tilgangi. Notist á sama hátt og matarsódinn, (lesið leiðbeiningar).
  • Engar hlunkleyfar! Ef þú villt fela vegsummerki þín á klósettinu þegar þú ert ekki heima hjá þér þá er klósettburstinn vinur þinn! Hann er ekki aðeins þarna sem skraut, heldur er mælst til þess að maður noti hann. Taktu upp burstann, skrúbbaðu bremsufarið og sturtaðu svo niður meðan burstinn er ofan í skálinni. Þannig skolar þú bremsufarið og leyfarnar af burstanum um leið. Bravó –allir sáttir og enginn veit hvað þú varst að gera! Passaðu að hrista burstann varlega ofan í skálinni, svo ekki drjúpi af honum á leiðinni yfir í klósettburstahaldarann.
  • Ertu að drepast úr eigin kúkafýlu? Ertu stödd/staddur annars staðar en heima hjá þér og vilt ekki að komist upp um þig og enginn lyktareyðir né ilmvatn í nánd? Byrjaðu þá á að opna gluggann upp á gátt, skelltu sápu á hendurnar og nuddaðu vel með smá vatni þangað til freyðir. Því næst skaltu taka trylltan handadans og spreða sápulyktarloftbólum um allt baðherbergi.
  • Ertu alveg að kúka á þig og ekkert nema almenningssalerni í nánd með örþunnum skilrúmum? Settu þá klósettpappír í botninn á klósettinu sem virkar eins og hljóðdeyfir. Ekki jafn vandræðalegt þegar blúbbsarnir skella á vatninu!

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar