Er fólk að spá í að fá sér hund?
Að taka að sér hund er gríðarlega stór ákvörðun. Hundar þurfa mikla ást og umönnun, aga og tíma eigenda sinna. Það fylgir því töluvert meiri vinna að vera með hund en til að mynda kött eða hamstur. Því fylgja ýmsar skyldur og eigandinn þarf að leggja sig allan fram ef hann og hundurinn eiga að fá að njóta góðs lífs saman.
Hvernig hundur hentar fólki?
Þegar velja á sér hund þarf að huga að mörgum hlutum. Fyrst þarf að spyrja sig: hvaða hundategund hentar best? Stórir hundar eru til að mynda dýrari í rekstri en litlir. Sumar tegundir þurfa mikla hreyfingu á meðan aðrar eru heimakærar og kunna vel við sig innandyra. Því er mikilvægt er að lesa sér vel til um þá hundategund sem maður hefur augastað á. Hver tegund hefur ólíka eiginleika, kosti og galla.
Hvað kostar að fá sér hund?
Ógerlegt er að setja verðmiða á það að fá sér hund. Í fyrsta lagi geta hreinræktaðir hundar kostað fúlgu. Verðið getur hlaupið á tugum eða hundruðum þúsunda. Eins éta tegundir mismikið, þurfa mismikla umhirðu og eftirlit.
Hér að neðan gefur að líta helstu kostnaðarliði við hundahald:
- Fóður. Það getur verið misdýrt en gæðin eru líka mis mikil. Gott fóður gefur hundinum betri heilsu og hann fer síður úr hárum.
- Greiða þarf hundaleyfisgjöld árlega hjá sveitarfélögunum.
- Kaupa þarf matardalla og drykkjarskál.
- Jafnframt hálsól og taum.
- Kaupa þarf bæli.
- Jafnframt búr. Gott er að kaupa það í stærð sem passar hundinum fullvöxnum svo ekki þurfi að kaupa nýtt búr þegar hann stækkar.
- Bursta, sjampó og hárnæringu þarf að kaupa reglulega.
- Leikföng og nagbein eru nauðsynleg fyrir hvolpa sem eru að taka tennur.
Hundar krefjast tíma og athygli eigenda sinna
Ólíkt mörgum gæludýrum þurfa hundar mikla athygli og tíma. Því þurfa hundaeigendur að vera vissir um að geta veitt hundinum þessar stundir.
- Hundar þurfa mikla hreyfingu. Að eiga hund krefst þess að maður fari með hann daglega í göngutúr og því er mikilvægt að gera ráð fyrir drjúgum tíma í það.
- Uppeldið sjálft tekur sinn toll. Að ala upp hund er mikið þolinmæðisverk, krefst tíma og einbeitingar. Gott er að hundurinn fari á námskeið í hundaskóla.
- Hundar verða að meðaltali um 12 ára gamlir og margir þeirra verða eldri en það. Að taka að sér hund er því skuldbinding til margra ára.
- Gott er að vita það áður en maður tekur hundinn að sér hvort fólkið í kringum mann sé tilbúið til að passa hundinn stöku sinnum, ef farið er í ferðalög eða annað.
Bólusetningar og læknisskoðun hunda
Ein af þeim skyldum sem fylgja því að vera með hund er að fara reglulega með hann til dýralæknis í heilsufarsskoðun og bólusetningar. Það þarf að fara með hundinn einu sinni á ári allt hans líf. Einnig er gott að ormahreinsa hann 3-4 sinnum á ári. Það þarf líka að gera sér grein fyrir því að ef hann slasast þá þarf að fara á dýraspítala og það getur kostað sitt.
Leyfi fyrir hundi
Ef maður býr í fjölbýli er nauðsynlegt að fá leyfi hjá nágrönnum áður en tekin er ákvörðun um að taka að sér hund. Best er að fá leyfið skriflegt og láta þinglýsa leyfinu fyrir þennan tiltekna hund. Ekki má gleyma að skrá hundinn hjá sveitarfélaginu. Hundaleyfisgjöld eru misdýr. Í Reykjavík eru þau 19.850 árið 2018 og þarf að greiða árlega.
Pössun og stuðningur
Þegar fólk tekur að sér hund er nauðsynlegt að það hafi stuðning frá einhverjum sem það þekkir til að geta fengið góð ráð eða pössun fyrir hundinn. Auðvitað eru til ýmis hundahótel en þau kosta sitt. Þess vegna er gott að hafa einhvern einstakling eða fjölskyldumeðlim, sem hundurinn þekkir, til að passa hann þegar þess gerist þörf.
- Á heimasíðu sveitarfélagsins þíns má nálgast upplýsingar um hundaleyfisgjöld, t.d. á vef Reykjavíkurborgar.
- Þar má einnig finna frekari upplýsingar um hundahald í borginni.
- Frekari upplýsingar má nálgast í síma 411-8500 eða með því að senda tölvupóst á hundaeftirlit@reykjavik.is.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?