Bráðum koma blessuð jólin, stresskastið er að fara að segja til sín!
Fyrir þá sem glíma við andlega vanlíðan, geta jól og áramót verið erfiður tími. Ef þetta hljómar kunnuglega, þá þarftu að vita að þú ert ekki eini einstaklingurinn sem glímir við það, þetta er mjög algengt.
Af hverju eru allir glaðir nema ég?
Það getur verið erfitt að vera í lægð á þessum tíma árs. Þér gæti liðið eins og þú sért eina manneskjan sem er ekki að njóta sín. Þó eru margir í basli yfir hátíðarnar.
Mundu að:
- Það væri óeðlilegt að líða aldrei illa. Þunglyndi og kvíði eru tilfinningar sem hægt er að kljást við.
- Samfélagsmiðlar gefa oft mjög óraunsæja mynd af lífi fólks. Þú þarft ekki að taka þátt í því. Það má vera raunverulegur á samfélagsmiðlum og mundu að enginn lifir fullkomnu lífi. Ef samfélagsmiðlar eru ekki ómissandi partur af þínu lífi leyfðu þér þá jafnvel að taka pásu frá þeim, það má.
- Fólk sem glímir við andlega vanlíðan segir að það finni oft fyrir samviskubiti yfir líðan sinni. Leyfðu þér að líða eins og þér líður.
- Jafnvel þó að þú sért lítil/l í þér, reyndu að mæta á viðburði sem þér er boðið á. Það er hollt að hitta annað fólk, jafnvel borða nokkrar sörur. Það er líka í lagi að fara snemma heim.
Mér finnst erfitt að vera í kringum fjölskylduna mína
Hvort sem ykkur semur vel eða ekki, geta langar samverustundir með fjölskyldunni verið basl. Mundu að taka þér smá pásu og prófaðu eitthvað af þessu:
- Finndu þér hlutverk. Að hafa eitthvað hlutverk yfir hátíðarnar og að hafa eitthvað sem er hægt að einblína á getur verið góð viðbót og stuðlað að betri líðan. Kannski getur þú bakað, hrært í möndlugrautnum eða haft hendur jólaskreytingunum.
- Gefðu þér tíma með vinum þínum og þér sjálfri sem manneskju. Ef þú átt ekki vini nálægt þér, hringdu í þá – þeir eru kannski að upplifa hlutina á svipaðan hátt í sínu fjölskylduboði.
- Reyndu að tala við einhvern í fjölskyldunni sem þú treystir. Jafnvel þótt ættinginn sé ekki með réttu svörin þá er það samt gott að tala við einhvern..
Jólin eru einangrandi tími fyrir mig
Ef þú ert einmana geta hátíðarnar verið einstaklega erfiður tími. Mundu þetta:
- Ef þig langar að gera eitthvað, ekki hika við að spyrja vin eða einhvern nálægan hvort þau vilji eyða deginum með þér. Reyndu að leggja til marga skemmtilegra möguleika fyrir ykkur.
- Ef þú eyðir aðfangadegi ein/n, reyndu að koma þér út úr húsi! Þú getur til dæmis sótt messu, það gæti verið notalegt.
- Prófaðu eitthvað nýtt. Það er hægt að vera sjálfboðaliði yfir jólin eins og á öðrum tíma ársins. Það getur verið mjög gefandi, það er eflaust laust hjá Hjálpræðishernum og Rauða Krossinum til að hjálpa til og kynnast nýju fólki.
- Reyndu að nýta tímann utan vinnu til að næra líkama og sál – að borða, hreyfa þig og sofa vel getur haft veruleg jákvæð áhrif á þína andlegu heilsu.
Áramótin eru nú ekki endilega skárri!
Áramótin eru tími upprifjunar. Þau geta einnig verið tækifæri fyrir þig til að sletta úr klaufunum, en ef þér líður ekki vel þá getur þessi tími verið erfiður.
- Ekki búast við of miklu. Áramótin eru vel þekkt fyrir að vera of-peppaðasta kvöld ársins. Þó er þetta kvöld ekki svo frábrugðið öðrum kvöldum ársins, stundum er gaman og stundum ekki. Hafðu það hugfast að þetta þarf ekki að vera besta kvöld lífs þíns.
- Gerðu það sem þú vilt. Ef þig langar að vera undir sæng, með Netflix og snakk þá er það auðvitað í góðu lagi.
- Ekki hugsa of mikið um áramótaheitin. Það er alveg nóg að stússast í skóla eða vinnu, þú þarft ekki að setja enn eitt markmiðið, nema þig langi hreinlega til þess!
- Auðvitað er gott að gera sér grein fyrir sínum veikleikum, en reyndu að hugsa um það jákvæða sem gerðist á árinu.
Ef þú ætlar að setja þér áramótaheit, þá erum við með hugmyndir að uppbyggilegum markmiðum
- Tala við traustan vin eða fjölskyldumeðlim. Að ræða tilfinningarnar sínar getur verið stórt skref í rétta átt.
- Tala við heimilislæknirinn. Læknirinn mun leiðbeina þér áfram í þá átt sem er rétt fyrir þig.
- Byrja að æfa eitthvað nýtt. Hreyfing og þá sérstaklega hópíþróttir geta stuðlað að bættri líðan.
- Byrja að stunda nýtt áhugamál. Ef íþróttir eru ekki fyrir þig, þá getur verið geggjað að prófa eitthvað með höndunum. Þú getur prófað að mála, prjóna, leira eða elda. Það er hægt að sækja byrjendanámskeið í ansi mörgu!
Hvað er hægt að gera næst?
Í greininni okkar, hvað er hægt að gera við þunglyndi og kvíða?, er listi yfir staði sem hægt er að leita sér aðstoðar á Íslandi. Fyrsta skrefið er alltaf að segja frá.
Þýtt og staðfært af TheMix
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?