Hvað er meðvirkni?
Meðvirkni er ákveðið mynstur sem þróast hjá fólki í daglegu lífi. Hún lýsir sér helst í því að hegðun og líðan annarra fer að stjórna hegðun og líðan manns sjálfs. Meðvirkni getur oft komið upp hjá aðstandendum alkóhólista og fíkla, en er líka algeng fyrir utan þess. Hún getur þróast í ýmis konar samskiptum og í mismunandi aðstæðum. Í stuttu máli snýst meðvirkni um að reyna að þóknast öðrum en sjálfum sér og laga sig að ákveðnum aðstæðum, jafnvel án þess að kæra sig um það eða láta það í ljós.
Hvernig lýsir meðvirkni sér?
Listi yfir einkenni meðvirkra einstaklinga er mjög langur og fjölbreyttur. Í stuttu máli er meðvirknin orðin vandamál þegar hún skapar af sér vanlíðan og óheilbrigð samskipti við annað fólk. Við mælum með að heyra í sálfræðingi eða nýta sér ókeypis ráðgjafaþjónustu hjá Berginu ef þú telur þig vera að glíma við meðvirkni.
Einkenni meðvirkni geta verið:
- Að líða eins og maður hafi ekki tök á að breyta aðstæðum sínum.
- Að eiga erfitt með náin tengsl og ást.
- Að kenna sjálfum sér um þegar illa fer, frekar en öðrum.
- Að finnast erfitt að vera einn – eða ekki í ástarsambandi.
- Að reyna stöðugt að þóknast öðrum frekar en sjálfum sér.
- Að treysta á aðra til að segja til um þarfir sínar.
- Að allur kraftur manns fari í að passa upp á hamingju „hinna“.
- Að liggja á skoðunum sínum eða vera ekki hreinskilinn við aðra.
- Að upplifa kvíða, án þess að finna orsök fyrir honum.
- Að ljúga til þess að hylma yfir með einhverjum, eða til að þóknast öðrum.
- Að sitja annað fólk í fyrsta sætið.
- Að gera hluti sem þú vilt ekki gera bara til að særa hinn aðilann ekki.
- Að eiga erfitt með að segja nei.
Einkenni meðvirkni í samböndum við alkóhólista og fíkla geta verið:
- Að hylma yfir hversu alvarleg neysla hins aðilans sé.
- Að upplifa að fólk geti ekki slitið sambandinu.
- Að finnast maður þurfa að hugsa um hinn aðilann og hafa vit fyrir honum.
- Að reyna að þóknast fíklinum þegar hann er þunnur eða eftir sig eftir túra.
- Að taka hamingju fíkilsins fram yfir eigin hamingju eða hamingju fjölskyldunnar.
- Að ræða ekki fjármál þótt innkoman fari að stórum hluta í neyslu.
- Að láta sig dreyma um að allt fari vel – en vita þó að slíkt gerist ekki.
Hvað er hægt að gera við meðvirkni?
Ef margt hér að ofanverðu á við um þig, þá þarf að finna viðeigandi meðferð til að losna undan meðvirkninni. Sumum gagnast vel að leita til 12 spora samtaka til að finna lausn á vanda sínum. Aðrir sækja meðferð til sálfræðings.
- CODA samtökin vinna samkvæmt 12 spora kerfi í að vinna bug á óheilbrigðum samskiptamynstrum og að bættri sjálfsmynd og líðan. Á heimasíðu Coda á Íslandi má nálgast fróðleik og frekari upplýsingar. Meðlimir CODA þjást af meðvirkni, en ekki endilega vegna samskipta við alkóhólista og fíkla.
- Bergið, Headspace er stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri. Þar getur þú fengið ókeypis ráðgjöf til að hjálpa þér að sigrast á meðvirkninni.
- AL-ANON er 12 spora samtök ætluð aðstandendum fíkla og alkóhólista. Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu samtakanna.
- Á vísindavefnum má finna góðar greinar um meðvirkni.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?