Hvað er afbrýðisemi?
Afbrýðisemi er ekki það sama og öfund þó svo að þetta séu tvö lík fyrirbæri. Öfund lýsir sér svo að manneskjan vilji fá eitthvað sem hin manneskjan á. Segjum sem svo að systkinið þitt fái eitthvað sem þig er búið að langa í mjög lengi, þá er eðlilegt fyrir þig að finna fyrir öfund. Afbrýðisemi hinsvegar, á til með að koma upp þegar manneskjunni finnst til dæmis valdi sínu eða samböndum ógnað, kannski er kærastan þín eða kærasti farin/n að veita einhverjum öðrum en þér athygli og þú verður hrædd/ur um að hann eða hún fari frá þér fyrir einhvern annan. Þessi hræðsla er dæmi um afbrýðisemi.
Hvers vegna verðum við afbrýðisöm?
Oftast finnum við fyrir afbrýðisemi í ástar- eða vinasamböndum vegna þess að okkur finnst við óörugg og eigum því erfitt með að treysta hinni manneskjunni. Kannski vegna erfiðrar reynslu í fortíðinni eða jafnvel bara vegna samskiptaleysis milli ykkar tveggja.
Hvenær verður afbrýðisemin of mikil?
Afbrýðisemi er mjög eðlileg tilfinning, en getur þó mjög auðveldlega farið úr böndunum. Ef það gerist getur það haft mjög slæm áhrif á fólkið í þínum samböndum. Nokkur dæmi um merki að þú sért of afbrýðisöm/afbrýðisamur gagnvart einhverjum eru:
- Þú þarft alltaf að vita hvar hin manneskjan er eða hvað hún er að gera.
- Þú verður reið/ur út í hina manneskjuna þegar hún vill hitta annað fólk, t.d vini, án þín.
- Þú finnur þig að gramsa í einkamálum hinnar manneskjunnar t.d að skoða skilaboð í símanum hennar.
Hvernig get ég unnið úr afbrýðisemi?
Samskipti eru númer eitt, tvö og þrjú þegar kemur að því að vinna úr afbrýðisemi. Láttu manneskjuna vita hvað það er sem angrar þig og reynið að ræða lausnir. Fyrsta skrefið er í langflestum tilfellum að viðurkenna vandamálið hjá sjálfum þér. Reynið að komast til botns á því hvers vegna þér líður svona og hvernig hægt er að koma í veg fyrir að þér líði svona í framtíðinni. Traust er ekki eitthvað sem kemur bara allt í einu heldur þarf að byggja upp og rækta það, og þar koma heiðarleiki og samskipti sterk inn.
Mundu að hin manneskjan á rétt á sínu einkalífi alveg eins og þú sjálf/sjálfur og það getur sært aðra manneskju djúpt þegar þú vantreystir henni svo mikið að þér finnist þú þurfa að grípa til aðgerða eins og ráðast inn í þeirra einkamál eða rífast endalaust yfir litlum hlutum sem geta auðveldlega verið ræddir á rólegum nótum.
Höfundur: Ingveldur Samúelsdóttir
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?