Hvernig sýður maður egg?
Egg eru sett í sjóðandi vatn í potti. Svo eru þau soðin mislengi, eftir því hvort maður vill hafa þau linsoðin eða harðsoðin.
- Egg verða linsoðin þegar þau eru búin að sjóða í u.þ.b. 3-4 mínútur, það fer eftir stærð.
- Egg verða harðsoðin þegar þau eru búin að sjóða í u.þ.b. 7 mínútur.
Eggjum hættir til að springa þegar þau eru sett ofan í sjóðandi vatn. Til að koma í veg fyrir það má stinga smá gat í gegnum skurn og himnu á báðum enda, t.d. með títuprjón. Einnig má reyna að koma í veg fyrir þetta með því að salta vatnið duglega áður en eggin eru soðin í því. Eins má vel setja eggin út í kalt vatn, kveikja undir pottinum og byrja að taka tímann þegar suðan kemur upp. Eggin eiga ekki að þurfa mikið styttri suðu ef þessari aðferð er beitt.
Þegar búið er að harðsjóða egg er gott að setja þau undir kalda vatnsbunu í smá stund. Þá verður auðveldara að ná skurninni af.
Hvernig spælir maður egg?
Egg er steikt, eða spæld, þar til hvítan er orðin hvít og útlínur hennar dálítið brúnaðar. Gott er að steikja eggið upp úr dálítilli matarolíu.
Hvernig gerir maður eggjaköku?
Egg og mjólk eru þeytt saman og síðan er kryddað eftir smekk. Deigið er sett á heita pönnu, með heitri feiti á, hitinn lækkaður og bakað í 5-7 mínútur. Hægt er svo að setja ýmislegt kjöt og grænmeti út í eggjakökuna, eftir smekk. Eggjakaka er afbragðs máltíð til að nýta gamla afganga.
Hvernig meðhöndlar maður egg í bakstur?
Best er að berja egginu laust í glasbrún og kljúfa það svo með þumlum og löngutöng, best er að vanda sig dálítið þegar þetta er gert.
Þegar egg eru brotin skal fyrst gera það í glas, en ekki beint út í hráefnið. Egg geta verið skemmd og þannig kemur maður í veg fyrir að setja skemmt egg út í annars fullgott hráefni. Einnig getur skurnin kvarnast og auðveldara er að tína hana upp úr glasinu.
Að skilja að rauðu og hvítu:
Í sumum uppskriftum er aðeins gert ráð fyrir að notuð sé hvítan eða rauðan. Eggið er þá brotið og rauðunni hellt til skiptis á milli helminganna þar til hvítan hefur lekið úr niður í skál sem höfð er undir. Einnig má hella egginu í sigti; þá lekur hvítan úr en rauðan verður eftir.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?