Hrísgrjón eru af ólíkum stærðum og gerðum, þar að auki eru fjöldi aðferða við að sjóða grjón sem skila ólíkum niðurstöðum. Við hjá Áttavitanum ætlum ekki að finna upp hjólið en viljum að þú komist nokkuð slysalaust frá þessu ferli. Við höfum því tekið saman leiðbeiningar sem henta í flestum tilfellum þegar sjóða á hrísgrjón.

Að sjóða hrísgrjón

Byrjaðu á því að hella vatni í pott og ná upp suðu. Gott er að miða við 500ml af vatni á móti 200gr af hrísgrjónum. Á meðan vatnið nær suðu er tilvalið að nota tímann til þess að skola hrísgrjónin með köldu vatni, hérna getur verið gott að hafa sigti við höndina.

Nú þegar suðan er komin upp þá setur þú eina teskeið af salti út í sjóðandi vatnið og bætir svo hrísgrjónunum út í. Hrærðu lauslega í pottinum, rétt svo nóg til þess að grjónin klumpast ekki saman. Athugaðu að hræra ekki of mikið því þá geta grjónin orðið of klístrug.

Stilltu helluna á lægsta hita og settu lok á pottinn, þú gætir þurft að hafa smá rifu opna ef suðan er of mikil, best er að hafa pottinn alveg lokaðan. Leyfðu hrísgrjónunum að malla í 15 – 18 mínútur og taktu svo pottinn af hellunni, mundu að slökkva á hellunni. Gefðu grjónunum fimm mínútur til viðbótar í pottinum með lokinu á, engan hita á hellunni. Taktu lokið af og hrærðu létt upp í grjónunum með gaffli og Voila! þú varst að sjóða óaðfinnanleg hrísgrjón.

Annað sem vert er að hafa í huga

  • Ef þú ert ekki að bera grjónin strax fram er gott að leggja viskustykki yfir pottinn. Viskustykkið dregur í sig raka og hjálpar til við að grjónin klessist ekki saman.
  • Ef þú ert að sjóða brún grjón eða Basmati og önnur sterkjurík grjón getur verið gott að leggja þau í bleyti í allt að klukkutíma áður en þau eru soðin. Séu þau ekki lögð í bleyti gæti tekið um 30 mínútur að sjóða grjónin og þá þarf auðvitað að gera ráð fyrir hærra hlutfalli af vatni.
  • Fyrir þá sem hafa sérstakan áhuga á hrísgrjónum þá verðum við að mæla með Wikipedia síðunni um hrísgrjón. Þakkið okkur síðar.
  • Við erum líka búin að taka það fyrir hvernig á að sjóða egg.
  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar