Það er gott að borða góðan mat – en vont að borga of mikið fyrir hann. Í gegnum árin hef ég lært ótal ráð frá hagsýnum húsmæðrum í Vesturbænum hvernig spara megi við matarinnkaupin; sum virka, önnur ekki. Ég held þó að þessi ráð hér að neðan séu kennd á flestum heimilum – og mörg hver bara déskoti góð.
1Innkaupalistar eru hjálpartæki heimilislífsins
Með því að halda úti tossalista á ísskápnum er hægt að koma í veg fyrir að versla of mikið í einu. Þannig getur fólk líka forðast að kaupa vörur sem það þarfnast ekki. Ef fólk verslar eftir minni kemur fyrir að það kaupir vörur sem þegar eru til á heimilinu. Innkaupalistinn er besta hjálpartækið þegar kemur að sparnaði í matarinnkaupum.
2Tilboð geta sparað fólki fúlgu fjár
Oft má kaupa gæða matvörur á fínu verði þó það sé á tilboði. Eins eru vörur stundum á kynningartilboðum eða vikutilboðum. Góð regla er hinsvegar að athuga hvort tilboðsvaran sé ekki örugglega hagkvæmasti kosturinn: getur verið að það megi finna sambærilega vöru ódýrari annarsstaðar? Eða jafnvel í sömu búðinni? Einnig skal varast að láta plata sig til að kaupa eitthvað sem mann vantar ekki, bara vegna þess að það er á tilboði.
- Matarkarfan.is heldur úti viku- og helgartilboðum verslananna.
3Það er betra að velja magnpakkningar þó þær séu dýrari
Yfirleitt eru magnpakkningar nefnilega hlutfallslega mun ódýrari. Það er þó gott að ganga úr skugga um að svo sé, með því að reikna út kílóverðið á hvorri pakkningunni fyrir sig. Þó þarf líka að vera viss um að matvaran sé borðuð áður en hún rennur út – það er nefnilega engin sparnaður í að láta mat mygla.
4Aldrei fara svangur í búð
Þessi málsháttur varð ekki til að tilefnislausu. Fólk er mun líklegra til að spreða peningum og kaupa óþarfa óhollustu þegar það verslar svangt. Því er kannski málið að rista sér eina brauðsneið áður en haldið er í verslunarleiðangur.
5Verðsamanburður
Búðir og vörur eru misdýrar. Því er gott að gera öðru hvoru verðsamanburð og sjá hvort hægt sé að gera heimilisinnkaupin á hagstæðara verði í einhverri annari búð. Gott er að versla allar nauðsynjar í lágvöruversluninni, en kaupa aðeins sérvörur sem ekki eru fáanlegar í lágvöruversluninni í dýrarari búðunum.
- Á heimasíðu Neytendasamtakanna eru reglulega settar inn verðkannanir á ýmsum vörum og þjónustu.
6Frystikisturnar eru á næsta gangi
Og þar geta líka leynst góð tilboð eða vörur á lágu verði. Frosið er ekkert verra en ferskt – og það geymist betur. Það getur vel verið að frosnu vörurnar séu ódýrari en þær sem eru á tilboði í kælinum. Eins getur verið að niðursuðuvaran fáist á betra verði frosin.
7Og frystihólfið er fyrir ofan ísskápinn
Það má auðveldlega spara nokkrar túkalla með því að frysta mat sem liggur fyrir skemmdum. Þetta getur átt við um álegg, brauð og sósur. Eins má alveg frysta sumt grænmeti og nota síðar í sósur eða pottrétti.
8Hver er dagsetningin á vörunni?
Það getur borgað sig að áætla líftíma vörunnar. Ef stórar pakkningar eru á góðu verði þýðir það ekki endilega að þetta séu hagstæðustu kaupin. Skemmdur matur í ísskápnum er í raun tapað fé. Það er ekki sniðugt að kaupa vöru sem rennur út áður en hún er notuð.
9Það getur borgað sig að birgja sig upp
Ef mikið notuð vara er á ofurtilboði er snjallræði að birgja sig upp af henni. Að sjálfsögðu þarf varan þó að geymast vel. Það er um að gera að fjárfesta í föstum liðum eins og morgunkorni sé það á útsölu. Ef til vill er svo hægt að frysta sumar vörur ef pláss er í kistunni.
10Síðast en ekki síst: stemmir strimillinn?
Það getur verið að auglýst verð komi ekki fram á kassa. Eins getur komið fyrir að kassaklerkurinn stimpli sömu vöruna inn tvisvar. Í lok verslunarferðar er því kjörið að renna yfir strimilinn, bera hann saman við það sem kemur upp úr pokunum og sjá hvort allt stemmi ekki örugglega.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?