Hvað eru kolvetni?
Kolvetni eru aðal orkugjafi líkamans. Mest af þeim er að finna í jurtaríkinu; í grænmeti, ávöxtum, kartöflum, hveiti og öðru korni. Sykur er hreint kolvetni. Kolvetni eru aðaluppistaðan í brauði, pasta, hrísgrjónum og sætindum. Fólk borðar gjarnan meira af kolvetnum heldur en próteinum. Því er hættara við að fitna heldur af kolvetnaáti en próteinum, þótt gramm af próteinum og kolvetnum innihaldi nákvæmlega jafnmargar hitaeiningar.
Hvað gera kolvetni?
Vöðvar líkamans kjósa kolvetni sem sinn aðalorkugjafa. Einnig sjá þau heilafrumum fyrir orku. Til eru tvennskonar kolvetni; einföld og flókin. Einföld kolvetni valda sveiflum í blóðsykri og geta valdið aukinni fitusöfnun. Neysla á þeim eykur löngun í feitan mat. Einföld kolvetni eru t.d. sykur, hvítt hveiti, hvít hrísgrjón, og kartöflur. Flókin kolvetni, eða fjölsykrur, hafa minni áhrif á blóðsykurinn. Orka úr flóknum kolvetnum nýtist betur en úr þeim einföldu. Flókin kolvetni má finna í grófu brauði, múslíi, grænmeti, brúnum hrísgrjónum, sætum kartöflum, heilhveiti, höfrum, byggi og baunum.
Margir megrunarkúrar ganga út á að takmarka allt kolvetnaát og jafnvel sleppa því alveg. Oft er þó erfitt að halda það út til lengri tíma. Margir fá höfuðverk og finna fyrir sljóleika, þar sem heilinn nærist aðallega á kolvetnum. Heillavænlegra er að megra sig með ákveðið hlutfall fæðunnar úr flóknum kolvetnum.
Hvað eru margar hitaeiningar í kolvetni?
Í 1 grammi af kolvetnum eru 4 hitaeiningar.
- Í 100 gramma kartöflu eru um 20 grömm af kolvetnum. Þar af leiðandi eru 80 kaloríur í þessum skammti.
- Í 100 gramma banana eru 23 grömm af kolvetnum. Þar af leiðandi eru 90 kaloríur í þessum skammti.
- Í einni brauðsneið af hvítu brauði, sem er 30 grömm, eru um 15 grömm af kolvetnum. Þar að auki er svolítið af próteini og fleiri næringarefnum. Samtals eru 80 kaloríur í einni brauðsneið.
- Í stóru Snickers (113 grömm) eru 70 grömm af kolvetnum og tæp 30 grömm af fitu. Þar af leiðandi eru tæplega 550 kaloríur í súkkulaðistykkinu.
Á vef Matvælastofnunar má finna næringarupplýsingar matvæla.
(Mynd í eigu Orsorama)
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?