Næringarefni
Næringarefni eru efni sem hver einstaklingur þarf að borða í hæfilegu magni til þess að geta viðhaldið eðlilegri líkamsstarfssemi.
Helstu næringarefnum, sem líkaminn þarfnast, má skipta í sex hópa: kolvetni, prótein, fitur, vítamín, steinefni og vatn
Hvað eru kaloríur og hvað þarf ég mikið af þeim?
Við þurfum öll orku til þess að lifa. Hitaeining er íslenska orðið fyrir kaloríu (eða kílókaloríu), sem er mælieining á orku, rétt eins og metri er mælieining á lengd. Þess vegna er talað um að maður þurfi ákveðið margar kaloríur af orku.
Yfirleitt er talað um að meðalkarlmaður þurfi 2500 kaloríur á dag og meðalkona 2000. Þetta er þó mjög einstaklingsbundið og er breytilegt eftir aldri, líkamsástandi, hve mikla hreyfingu maður stundar o.fl.
Kaloríur eru ekki slæmar. Það getur hins vegar verið slæmt að borða of lítið eða of mikið af kaloríum til lengri tíma. Sértu yfir kjörþyngd gæti verið að þú borðir of margar kaloríur að jafnaði, en sértu undir kjörþyngd borðarðu ef til vill of fáar. Mikilægast er að hlusta á líkama sinn og borða í takt við orkuþörf sína.
Til eru reiknivélar sem reikna hve margar kaloríur maður þarf á dag. Þær eru sniðugar en takið þær samt ekki of alvarlega.
Kolvetni
Kolvetni eru helsti orkugjafi líkamans og nauðsynleg fyrir heilastarfsemi. Til eru einföld og flókin kolvetni, sem hafa mismunandi virkni. Lesið meira um kolvetni á Áttavitanum. Lýðheilsustöð mælir með að rúmur helmingur, eða 55%, af allri orku komi úr kolvetnum.
Prótein
Prótein eru helsta byggingarefni líkamans, mynda ýmis ensím og hormón, gefa orku og margt fleira. Lesið meira um prótein á Áttavitanum. Lýðheilsustöð mælir með að minnsti hluti orkunnar, eða um 15%, komi úr próteinum.
Fita
Fita er nauðsynleg líkamanum. Hún geymir mjög mikla orku og er eitt af aðalbyggingarefnum líkamans. Til eru ýmsar mishollar fitusýrur. Lesið meira um fitu á áttavitanum. Lýðheilsustöð mælir með að um þriðjungur, eða 30%, af allri orku komi úr fitu. Athugið að fita er rúmlega helmingi orkuríkari en kolvetni og prótein, þannig að ef þú borðar t.d. 10 grömm af próteinum, færðu álíka margar kaloríur og úr 5 grömmum af fitu.
Vítamín og steinefni
Ýmis efni sem nefnast vítamín eru ekki orkugjafar, en gegna þó mikilvægu hlutverki í líkamanum, t.d. við hormónastarfsemi, blóðstorknun og fleira. Þeirra þarf að neyta í nægilega miklu magni.
Steinefni eru ýmsar málmjónir sem, líkt og vítamín, eru nauðsynlegar fyrir líkamann, en eru ekki orkugjafar. Þau koma t.d. við sögu í taugaboðum og beinmyndun. Þeirra þarf að neyta í nægilega miklu magni.
Þegar talað er um vítamín og steinefni er oft talað um ráðlagðan dagskammt. Hér að neðan má sjá mjög góða töflu sem sýnir hve mikið af hverju efni maður þarf að borða. Í fjölbreyttu mataræði er yfirleitt nóg af vitamínum og steinefnum og lítil ástæða er til að hafa áhyggjur.
Vatn
Vatn er nauðsynlegt öllum lífverum. Það er ekki orkugjafi, en er samt nauðsynlegt fyrir nær alla starfsemi líkamans. Sagt er að maður eigi að drekka 2 til 2 og hálfan lítra af vatni á dag, en það er auðvitað persónubundið eins og allt annað. Til þess að vita hvort þú drekkur of mikið eða of lítið vatn þarf einfaldlega að fylgjast með þvaginu. Þvagið þitt á að vera fagurgyllt á lit, en ef það er glært hefurðu líklega drukkið eilítið of mikinn vökva, og ef það er dökkt á litinn þá þarftu að drekka meira vatn. Algeng einkenni þess að drekka of lítið vatn er hausverkur og einbeitingarleysi.
Þó mælt sé með því að drekka 2 til 2 og hálfan lítra af vatni á dag, er ekki þar með sagt að maður þurfi að liggja undir vatnskrananum allan daginn, því vatn er auðvitað að finna í öðrum drykkjum og mat.
Tafla yfir Ráðlagaðan dagskamt vítamína og steinefna
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?