Staðalímynd kraftajötunsins minnir óneitanlega á tröllkarla í íslenskum þjóðsögum: þeir eru nautsterkir og nautheimskir. Eins og flestar staðalímyndir þá á þessi sér enga stoð í raunveruleikanum: Einkaþjálfarar eru í dag fagmenntað fólk með sérfræðiþekkingu á líkama, heilsu og heilbrigðum lífstíl. En það eru þó alltaf einhverjir tröllkarlar í ræktinni sem reyna að fræða mann um hreyfingu – og oftast er það þá bara tóm tjara sem vellur út úr þeim.

„Það er BARA hollt að hreyfa sig.“

Já, það er hollt að hreyfa sig. En að hlaupa maraþon einu sinni í viku, eða breyta sér í vöðvaskrímsli, er hreinlega ekki hollt fyrir líkamann. Ef við hugsum okkur manninn sem villta veru, við hvaða aðstæður myndi hann hlaupa 24 kílómetra á einum degi eða leggjast á bakið til að lofta 200 kílóa steini aðeins til þess að lofta honum? Hann er hreinlega ekki hannaður í það. Of mikið álag á líkaminn er óhollt og miklar lyftingar skemma skrokkinn á fólki með tímanum. Hvernig var aftur máltækið? Allt er gott í hófi. Eða flestu má nú ofgera?

„No pain, no gain.“

Þetta er fyrsta flokks kjaftæði. Líkamsrækt snýst ekki um að þjást – heldur það þveröfuga; að líða vel. Ef maður kemur heim aumur og sár, kengboginn eins og rækja, er það merki um að maður hafi ofreynt líkamann. Harðsperrur eru svo sem eðlilegar, sérstaklega ef fólk er ekki í formi, en meiðsli, tognanir, aum liðamót og verkir eru skilaboð frá líkamanum um að nóg sé komið. Og svo er það alls ekki hvetjandi fyrir fólk að líða illa í ræktinni; þá myndi maður bara frekar vilja vera upp í sófa með popp, kók og góða froðu í tækinu.

30 mínútur á dag

Það er eiginlega sama hvenær maður fer í ræktina; alltaf eru nokkrir hamstrar sem búa á hlaupahjólinu. En flestum okkar ætti að duga að mæta bara 30 mínútur á dag. Til að halda sér hraustum þarf ekki tvær, 2ja tíma lotur á hverjum degi. Mestu skiptir að hækka hjartsláttinn og svitna smá 1 sinni á dag. Og 30 mínútur duga bara vel fyrir okkur flest! Þessu til rökstuðnings má skoða þetta áhugaverða myndband.

„Maður grennist ekkert ef maður hreyfir sig ekki.“

Þetta er ekki alveg rétt. Maður grennist nefnilega helling ef maður hættir að borða eins og svín. Auðvitað hjálpar hreyfing til að eyða kalóríum – en fyrst og fremst er hreyfing mikilvæg fyrir líkamlega og andlega heilsu. Ef fólk vill grennast dugar sennilega ekki að djöflast bara í ræktinni; það verður líka að taka til í mataræðinu. Og þegar ég segi taka til í mataræðinu, þá á ég ekki við að fólk fari að borða Herbalife og poppkex í öll mál. Herbalife er ekki matur heldur duft í vökva. Svo má líka alveg huga að þessu: fólk brennir 100 kalóríum á því að hlaupa 1,5 kílómetra. Það eitt að sitja í stól í klukkustund kostar 50-60 kalóríur.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar