Að byrja að stunda líkamsrækt þarf ekki að þýða að maður stefni að því að verða tröllvaxið vöðvabúnt, heldur þýðir líkamsrækt einfaldlega að rækta líkamann í almennum skilningi. Það er gríðarlega mikilvægt að rækta líkamann vel til að takast á við þau verkefni sem bíða manns á degi hverjum. Ef maður er í góðu líkamlegu formi og andlegu jafnvægi þá er maður í óskastöðu og í alla staði betur í stakk búinn til að takast á við það sem verður á vegi manns.

10 góð ráð varðandi líkamsrækt

  • Að setja sér ákveðin markmið. Ekki segja: ,,Ég ætla að æfa mikið í þessari viku“ heldur setja nákvæm markmið og útbúa jafnvel til vikuplan: ,,Ég ætla að brenna þrisvar í þessari viku og lyfta tvisvar sinnum“.
  • Ekki ofgera sér. Hin algengu mistök – of mikið og of hratt – enda oftast með meiðslum eða ofþjálfun og á endanum algjöru stoppi í æfingum. Mikilvægt er að byrja hrólega og hlusta á líkamann á meðan á ferlinu stendur. Góð regla er að auka álagið aldrei meira en um 10% á viku.
  • ,,No pain, no gain” er gömul goðsögn, æfingar eiga jú að vera erfiðar og maður á að taka á því. En þegar maður fer að finna fyrir sársauka er þá er líkaminn að aðvara mann. Eitthvað er ekki í lagi. Ef maður finnur fyrir sársauka er álagið annað hvort of mikið eða maður er að gera æfinguna vitlaust. Sé þetta er raunin skal alls ekki halda áfram. Annað hvort skal minnka álagið eða leita álits hjá einkaþjálfara sem getur leiðbeint manni.
  • Ávallt skal hafa stjórn á hreyfingunni þegar maður er að lyfta, aldrei rykkja lóðunum upp eða ,,missa“ þau niður. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að vöðvinn vinnur jafnmikið hvort sem þú ert að spenna eða slaka honum til baka. Með því að rykkja lóðunum til eykst slysahættan.
  • Passa vel upp á líkamsstöðuna. Þetta á sérstaklega við þegar maður er orðinn þreyttur og einbeitingin aðeins farin að dvína.
  • Vanda sig við teygjurnar. Gæta skal þess að rykkja ekki í þegar maður er að teygja eftir æfingu. Það getur valdið því að vöðvinn tognar og meiðist, og jafnvel valdið óafturkræfum meiðslum. Það er mjög góð regla að teygja alltaf eftir æfingu og halda hverri teygju í u.þ.b. 20 – 30 sek.
  • Klæðast góðum skóm þegar maður er að æfa. Það eru óteljandi dæmi þess að fólk finni fyrir verkjum í fótum eftir aðeins nokkurra mínútna göngutúr. Finni maður fyrir verkjum eru skórnir það fyrsta sem ætti að athuga. 90% af öllum íþróttameiðslum koma fram í fótum, mjöðmum, öklum eða hnjám og þar geta skórnir skipt mestu máli. Velja skal skó í samræmi við þær æfingar sem maður hyggst stunda. Hlaupaskó fyrir hlaup o.s.frv. Sé maður í vafa um hvaða skóbúnaður hentar viðkomandi æfingum skal leita ráða hjá afgreiðslufólki íþróttavöruverslana.
  • Hlusta á líkamann. Ef maður er slæmur í skrokknum, eða finnur fyrir eymslum í liðum, skal ekki taka þátt í hröðum leikfimitímum með miklu hoppi og ekki hlaupa mikið. Velja skal æfingar sem fara betur með hnén s.s. hjól, tröppur eða Crosstrainer.
  • Hita upp fyrir æfingar og kæla sig niður eftir á. Fimm mínútur á röskum gönguhraða í upphitun og annað eins í kælingu, þó örlítið hægar en í upphituninni. Þetta hindrar að blóðþrýstingurinn verði of mikill á of skömmum tíma og getur einnig komið í veg fyrir vöðvameiðsli.
  • Hafa  vatnsbrúsann við höndina. Þessi gamla vísa er aldrei of oft kveðin. Að drekka duglega frá upphafi æfingar og á 10 – 15 mínútna fresti út alla æfinguna getur komið í veg fyrir ónotalegar tilfinningar eins og ógleði, tap á einbeitingu og þreytu.

Heimildir fyrir 10 góð ráð :

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar