Til hvers að hreyfa sig?

Regluleg hreyfing er besta leiðin til að bæta andlega og líkamlega heilsu og er fyrirbyggjandi gegn ýmsum kvillum. Hreyfing leysir úr læðingi hormóna og önnur efni sem hafa áhrif á geðið og gera fólk hamingjusamt.

Hvað gerist þegar fólk hreyfir sig?

  • Hreyfing dregur úr streitu, kvíða og þunglyndi og bætir almennt skapið.
  • Hún eykur krafta heilans. Endorfín, efnið sem lætur fólki líða vel, gerir því auðveldara með einbeitingu, styrkir vöxt heilafruma og dregur úr áhrifum vegna öldrunar.
  • Hreyfing bætir svefn.
  • Hún er orkugefandi. Þótt fólk verði þreytt til að byrja með eykur hreyfingin sífellt orkuna.
  • Hún bætir sjálfstraustið og gefur fólki styrk. Þá bæði andlega og líkamlega.

Hvað ef fólki finnst of erfitt eða leiðinlegt að hreyfa sig?

Margir halda því fram að þeir hafi ekki tíma fyrir líkamsrækt, telja sig vera í of slæmu formi til þess að byrja eða þykir hreinlega leiðinlegt að hreyfa sig. Þetta eru auðvitað allt afsakanir og allir ættu að geta fundið hreyfingu við sitt hæfi. Ef fólk lætur sig hafa það að byrja líður yfirleitt ekki á löngu uns það er farið að njóta þess.

Hér eru nokkur ráð til að koma sér af stað:

  • Byrja rólega. Hægt er að auka hreyfinguna örlítið í daglegu lífi, til dæmis með því að ganga meira, leggja bílnum lengra frá áfangastað, fara úr strætó tveimur til þremur stoppistöðvum fyrr og nota stiga í stað lyftunnar. Það hefur sýnt sig að 30 mínútna, létt hreyfing á dag gerir gæfumun! Hægt er að stinga upp á göngutúr eða sundlaugarferð við vinina, í stað þess að spjalla yfir kaffibolla. Best er að auka örlítið við daglega hreyfingu áður en farið er út í að fjárfesta í líkamsræktarkorti. Þessi litla hreyfing vekur síðan upp löngun til að bæta aðeins við og fyrr en varir er maður farinn að hlakka til að fara í ræktina.
  • Stunda hreyfingu sem hentar manni. Það sama hentar alls ekki öllum. Því er framboðið af skipulagðri hreyfingu gríðarlegt. Hægt er að ganga í fjallgönguklúbb, læra dans, lyfta lóðum, stunda jóga, ganga, synda, skokka eða sækja fjöldann allan af hóptímum á líkamsræktarstöðvum. Mikilvægt er að prófa sig áfram og gera það sem maður hefur gaman af, því það er vonlaust að ætla að halda sig við plan sem manni þykir leiðinlegt. Síðan getur löngunin breyst eftir smá tíma og mann langar að prófa eitthvað nýtt. Þá er um að gera að láta það eftir sér.
  • Finna sér hvatningu. Gott er að stunda hreyfinguna með vinum, eða í hóp. Einnig er gott að setja sér markmið og fylgjast með árangrinum með tilheyrandi mælingum. Mikilvægt er að markmiðin séu raunhæf, því gangi þau ekki eftir er hætt við að fólk missi trúna og hætti að hreyfa sig. Einnig getur verið gott að lesa sér til um heilsu og næringu meðfram þessu. Þó er mikilvægt að gæta sín á að slíkt verði ekki að þráhyggju. Í hvert sinn sem ákveðinn árangur hefur náðst er svo nauðsynlegt að verðlauna sig með einhverjum hætti.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar