Í Reykjavík og nágrenni má finna fjöldann allan af mismunandi líkams- og heilsuræktarstöðvum og allir ættu að geta fundið hreyfingu við sitt hæfi. Áður en fest eru kaup á líkamsræktarkorti er ekki úr vegi að skoða úrvalið vandlega. Verð og framboð, t.d. á tímum, getur verið afar mismunandi og því er gott að vera búinn að átta sig á því hverju maður er helst að sækjast eftir.

Skólafólk ætti að kynna sér hvort viðkomandi líkamsræktarstöð bjóði upp á sérstök kjör fyrir námsmenn. Vinnandi fólk ætti að athuga hvort vinnuveitandi eða stéttarfélag veiti styrki til líkamsræktar.

Hér má finna lista nokkrar líkams- og heilsuræktarstöðvar í Reykjavík og nágrenni.

Hvað er einkaþjálfun?

Einkaþjálfun er ein besta leiðin til að komast í gott líkamlegt form. Það er aðhaldið sem fólk græðir mest á, skipulagning á æfingum, mataræði og kennsla við tækjaþjálfun. Þjálfarinn metur líkamlegt ástand og sniður saman einstaklingsmiðað prógram eftir því. Hann fer yfir mataræðið og gerir reglulega mælingar á líkamlegu ástandi. Þjálfarinn fylgir skjólstæðingi sínum í gegnum allt æfingaferlið, kennir að gera æfingarnar rétt og leiðbeinir og gefur góð ráð um alla mögulega hluti.

Hvað er hópþjálfun?

Hópþjálfun er nokkurskonar einkaþjálfun þar sem nokkrir taka sig saman um að kaupa þjónustu af þjálfara. Þjálfarinn fylgir svo hópnum eftir í æfingaferlinu á sama hátt og gert er í einkaþjálfuninni. Hópþjálfun er ódýrari kostur en einkaþjálfun.

Hvað er fjarþjálfun?

Fjarþjálfun er mun ódýrari en einkaþjálfun. Fjarþjálfun er einnig góð leið til að komast í form. Hún veitir ákveðið aðhald og eftirlit sem maður nýtur ekki þegar maður æfir einn. Fjarþjálfun fer þannig fram að einstaklingur og þjálfari hittast, kannski einu sinni í mánuði, og setja markmið fyrir komandi mánuð, fara yfir æfingaráætlun og mataræðið og gera nauðsynlegar mælingar. Það er svo undir einstaklingnum sjálfum komið að standa sig í stykkinu þar til hann hittir þjálfara sinn næst.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar