Eitt af því sem þykir voða fágað og sérstaklega bragðgott eru hleypt egg og eru þau glimrandi góð viðbót við t.d. avocado toastið sem virðist vera að tröllríða landinu.
Margir klóra sér eflaust í höfðinu hvað varðar framkvæmd þar sem skurnin er fjarlægð áður en eggið er soðið. Endilega lestu lengra og þú verður álitin/n meistarakokkur í næsta dögurði.
Framkvæmd
Byrjað er á því að setja eins og 1 L af vatni í pott og á móti eru settar ca. 4 matskeiðar af ediki. Best er að dýptin á vatninu sé allavega 5 cm svo hægt sé að verka eggið.
Þar sem eggjahvítur eru mjög próteinrík byrjar hvítan að storkna þegar hún lendir í heitu vatni. Eggjarauður eldast hægar, og enn hægar þegar hvítan umvefur hana. Með því að setja edik út í vatnið verður hvítan stinnari og kemur það í veg fyrir að hún dreifist um allan pottinn.
Suðan er látin koma upp og þá hefst fjörið.
Hringiða í suðupotti
Töfrarnir felast í hringiðu sem sköpuð er með því að hræra vel í vatninu. Það getur verið gott að nota hjálpartæki á borð við ausu fyrir eggið en þá er það brotið í ausuna og látið síga í hringiðuna. Einnig er hægt að brjóta egg í bolla/glas og hella því svo varlega í pottinn.
Mælt er með að hafa eggið í pottinum í ca. 4 mínútur en það veltur auðvitað á þér hversu vel eða lítið eldað þú vilt að eggið sé, en fyrir hið fullkomna egg með fljótandi rauðu eru þetta ekki nema 4 mínútur.
Hringiðan í vatninu er sköpuð til þess að eggjahvítan nái að vefjast utan um rauðuna.
Fiskispaði er svo tilvalið áhald til að veiða eggið upp úr vatninu. Ef þú átt ekki fiskispaða geturðu notað hverskyns áhald sem leyfir vatninu að streyma í gegn þegar þú tekur eggið upp úr.
Auðveldari aðferð
Ef þið treystið ykkur ekki í þetta hefur stjörnukokkurinn Jamie Oliver sagt frá einfaldari aðferð til að hleypa egg. Þú leggur þá plastfilmu yfir bolla, skál eða sambærilegt ílát sem þú kýst að nota, smyrð smá olíu á filmuna til að koma í veg fyrir að eggið festist ekki við hana. Því næst er egg brotið í filmuna, lokað fyrir svo eggið verði að kúlu í plastinu og pokinn svo settur í sjóðandi vatn í ca. 5-6 mín. Voilá! Þú ert komin/n með hleypt egg.
Gangi ykkur sem allra best og þið munið slá í gegn í næsta dögurði!
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?